c

Pistlar:

21. júlí 2022 kl. 20:28

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Teygt og togað um sjávarútveginn

Umræða um sjávarútveg á Íslandi dregur dám af því að tilurð og upphaf kvótakerfisins byggðist á forsendum sem eru flestum gleymdar. Margir innan stjórnmálanna telja sig geta róið á fengsæl atkvæðamið með því að einfalda umræðuna og umvefja sig slagorðum að hætti lýðhyggjumanna. Hluti af því er að ræða um rekstur og umgjörð sjávarútvegsfyrirtækja með öðrum hætti en annan rekstur í landinu. Þá er fyrst og fremst horft til þess að þau nýti fiskveiðiauðlindina á þann hátt að breytingar verði að gera.

Dagurinn í dag er ekki ólíkur öðrum dögum síðan kaup Síldarvinnslunnar á hlutafé Vísis áttu sér stað fyrir bráðum tveimur vikum. Í leiðaraopnu Morgunblaðsins birtist grein eftir Svan Guðmundsson sjávarútvegsfræðing, þar sem hann með tölulegum gögnum hrekur þá mýtu að framlegð og arðsemi sjávarúvegsfyrirtækja sé á skjön við það sem gerist í íslensku atvinnulífi. Í sömu opnu Morgunblaðsins er grein eftir Hönnu Katrínu Friðriksdóttur, þingflokksformann Viðreisnar, sem ber fyrirsögnina „Þjóðareign, teygjanlegt hugtak.“ Hanna Katrín hefur verið talsvert í umræðunni síðan kaupin á Vísis áttu sér stað og enn hefur sá er þetta skrifað ekki séð hana vitna í annað en einfalda útgáfu af stefnu flokksins í málinu. Nú er það svo að þingmenn geta vel verið án tölfræði, þeir geta vissulega rætt um siðferðileg álitaefni er varða almenning og þannig virðist Hanna Katrín nálgast málið. Vandinn er að talsmáti hennar er of slagorðakendur til þess að beinlínis sé hægt að koma rökræðu að. Í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni um síðustu helgi notaði hún orðið „smjörklípa“ fjórum sinnum, fyrst og fremst sem einhverskonar áhersluauka án þess að hugtakið skýrði neitt í umræðunni. Þá ræddi hún í löngu máli um skýrsluna sem aldrei kom en hún gerir hana einmitt að umræðuefni í dag með þessum orðum „Hvenær kemur skýrslan? Þessa spurningu fékk ég á dögunum þegar þjóðin var enn og aftur minnt á að þjóðareign er teygjanlegt hugtak.“ Það er kannski ekki óeðlilegt að hún sé spurð um skýrsluna í kjölfar útvarpsþáttar þar sem hún gerði lítið annað en að kalla eftir henni!lodna

Krosseignarhald tryggingafélags

Nú er það svo að í öllum tilfellum liggur fyrir í opinberum skrám það eignarhaldið sem Viðreisn hefur kallað eftir og gott ef vikublaðið Stundin hreykti sér ekki af því að hafa leyst málið á til þess að gera einfaldan máta. Hugsanlega var vandinn við umfjöllun blaðsins að krosseignarhaldið, samkvæmt samantekt blaðsins, var svo flókin og langsótt að menn áttu erfitt með að taka mark á því. Sem dæmi má taka að ef einhver á hlut í tryggingafélagi má krossrekja þann hinn saman inn í öll skráð félög á markaði og dótturfélög vegna þess hvernig fjárfestingum bótasjóða félagsins er háttað. Þá má spyrja sig hvort sanngjarnt sé að horfa eingöngu á sjávarútveginn í þessu sem og öðru? Önnur fyrirtæki og eigendur þeirra fjárfesta út fyrir starfsgreinar sínar. Eru ekki margir af umsvifamestu fjárfestum landsins með uppruna sinn í smásöluverslun með mat? Þá hefur Svanur bent á í greinum sínum að samþjöppun sé síður en svo meiri hjá sjávarútvegsfyrirtækjum en öðrum fyrirtækum landsins. Það hefur ekki verið hrakið.

Það er sterk tilhneiging að ræða um sjávarútveginn öðru vísi en annað atvinnulíf í landinu. Það er auðvitað óþægilegt fyrir þá sem starfa í greininni sem þarf augljóslega að starfa í erfiðu samkeppnisumhverfi en 98% af framleiðslu sjávarútvegsins fer á erlenda markaði. Félög innan sjávarútvegs fjárfesta gríðarlega til að halda samkeppnisstöðu sinni um leið og þau skapa verðmæt störf út um allt land. En eins og á við um allar starfsgreinar þá geta forsendur breyst og starfsumhverfið um leið. Að starfa á viðkvæmum neytendamarkaði kallar á árvekni stjórenda eins og sést af því að nú þegar hitabylgja gengur yfir Evrópu hafa neytendur hætt að borða fisk.

Nýtt millifærslukerfi?

En pistlaskrifari er enn að klóra sér í hausnum yfir ýmsum ummælum þingflokksformannsins í viðtalinu á Sprengisandi eins og þegar hún var spurð um áhrif tillagna Viðreisnar á rekstrarumhverfi sjávarútvegsins. Því svaraði hún: „Ég geri ráð fyrir því að hún geti orðið töluverð við þessar breytingar sem við höfum lagt til. Þess vegna höfum við lagt til að arðurinn sem fengist […] færi meðal annars til að mæta þessu, mæta þessari stöðu með sérstökum greiðslum og uppbyggingu á annarri starfsemi.“ Er hér virkilega verið að tala um nýtt millifærslukerfi í sjávarútvegi, taka frá þeim sem hafa náð tökum á rekstrinum til að færa öðrum? Jafnvel aðilum sem hafa enga reynslu og þekkingu á rekstri í sjávarútvegi? Þetta er í takt við það sem formaður Samfylkingarinnar lét frá sér fara fyrir stuttu þegar hann sagði: „Er ekki allt í lagi þó að eitthvað af útgerðarfyrirtækjunum fari á hausinn og við leitum í hagkvæmasta reksturinn þannig að þjóðin fái á endanum afgjaldið?“ Sættir fólk sig endalaust við svona umræðu?fisksala

Eru allar fréttir pólitískar?

En áfram um umræðu dagsins. Allt síðan kaupin á Vísi áttu sér stað hafa Ríkisútvarpið og Fréttablaðið fjallað um málið eins og um pólitíska frétt sé að ræða. Kvótakerfið og pólitísk afstaða til þess hefur verið þungamiðja umfjöllunar þessara fjölmiðla, ekki rekstrarlegar forsendur kaupanna sem þó markaðurinn svaraði með skýrum hætti. Af þessu tilefni hafa þeir Þórólfur Matthíasson prófessor og Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi skattstjóri, verið fyrirferðamiklir á síðum Fréttablaðsins með kröfu um stórkostlega hækkun á veiðileyfagjaldi. Stundum með mjög undarlegum rökum eins og því að það eigi að bera íslenskan sjávarútveg saman við olíuiðnað Norðmanna og tilheyrandi olíusjóð. - Að ekki eigi að bera íslenskan sjávarútveg við þann norska, heldur olíuiðnaðinn, eins undarlegt og það er. Í Fréttablaðinu í dag er tekin heil síða í að reyna að hlaða undir þessa umræðu en gengur illa. Báðir þeir fræðimenn sem rætt er við, þeir Rögnvaldur Hannesson, prófessor emeritus við norska Viðskiptaháskólann NHH í Bergen, og Daði Már Kristófersson, prófessor í auðlindahagfræði við Háskóla Íslands, hafna alfarið slíkum samanburði.

En hugsanlega er eftirminnilegast í sjávarútvegsumræðu dagsins sú ráðning sem Birkir Leósson, löggiltur endurskoðandi, veitir Þórólfi Matthíassyni með eftirfarandi lokaorðum í grein sinni í Fréttablaðinu: „Hagfræðiprófessorinn telur greinilega ekki þörf á að rannsaka mál sem hann fjallar um, beitir ósannindum og ófrægir menn að ósekju, allt í nafni stöðu sinnar hjá hinum virðulega Háskóla Íslands. Er það virkilega bara í lagi?“