c

Pistlar:

24. júlí 2022 kl. 21:30

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ríkisstyrktur sjávarútvegur ESB

Verkefni sem tengjast sjávarútvegi eða vinnslu sjávarafurða fá ýmsa styrki úr sjóðum íslenska ríkisins eins og annar atvinnurekstur. En beinir rekstrarstyrkir til sjávarútvegs hér á landi eru ekki til staðar, það er aðalatriði málsins. Íslenskur sjávarútvegur er sjálfbær. Skiptir litlu þó ýmis áföll dynji á sjávarútveginum, nú síðast loðnuleysi í tvö ár, kóvidfaraldur og stríð í Úkraínu. Aldrei fær sjávarútvegurinn styrki vegna rekstrar síns.w_56579560-800x450

Það á ekki við um sjávarútveg annarra landa sem njóta ýmissa beinna eða óbeinna styrkja til rekstrar. Nú síðast samþykkti Evrópusambandið í byrj­un júlí­mánaðar að veita evr­ópsk­um fyr­ir­tækj­um í fisk­eldi og sjávarútvegi fjárhagsstuðning vegna áhrifa stríðsins í Úkraínu eins og Morgunblaðið greindi frá í liðinni viku. Þar kom fram að þetta er ann­ar björg­un­ar­pakk­inn til sjáv­ar­út­vegs og fisk­eld­is inn­an Evr­ópu­sam­bands­ins frá upp­hafi stríðsátak­anna. Það er kannski grátbroslegt að þessi pakki númer tvö kemur í kjöl­far þess að fram­kvæmda­stjórn Evr­ópu­sam­bands­ins fagnaði því hinn 17. júní síðastliðinn að á tólfta ráðherra­fundi Alþjóðaviðskipta­stofn­un­ar­inn­ar (WTO) hefði tek­ist að skapa ein­ingu um að draga úr rík­is­styrkj­um til sjáv­ar­út­vegs! Semsagt, um leið og fagnaðarlætin áttu sér stað vegna þess að draga átti úr styrkjum voru styrkir samþykktir!

Eina landið með arðbæran sjávarútveg

En hvað ættum við að horfa til þegar við metum fjárhagslega getu íslensks sjávarútvegs. Höfum í huga að á meðal OECD-ríkjanna er það aðeins á Íslandi sem sjávarútvegur skilar meira til hins opinbera en hann fær greitt úr opinberum sjóðum. Í hinum 28 OECD-ríkjunum hefur hlutfall af heildarútgjöldum þeirra sem rennur til sjávarútvegsins aukist úr 5,6% á árunum 2012 til 2014 í 6,8% á árunum 2016 til 2018. Í öllum helstu samkeppnislöndum Íslands eru til staðar ríkisstyrkir til sjávarútvegs en á móti er íslenski sjávarútvegurinn sá eini sem greiðir sérstök gjöld umfram venjulega skattlagningu.

Í kynningu björgunarpakkans sem birt er á vef Evrópuþingsins kemur fram að meðal annars sé um að ræða „bætur til þeirra sem hafa þurft að stöðva rekstur og þeirra sem sáu rekstrargrundvelli sínum ógnað“. Með samþykktinni er ekki einungis heimilt að bæta fyrirtækjum í sjávarútvegi og fiskeldi það tjón sem þau hafa orðið fyrir vegna tapaðra tekna, heldur einnig aukakostnað sem hlýst af stríðinu, eins og vegna verðhækkana á orku, hráefni og fóðri. Aðstoðin á að virka afturvirkt frá og með 24. febrúar 2022 þegar innrás Rússa í Úkraínu hófst.

Styrkir ESB skekkja samkeppnisstöðuna

Fiskveiðar nema um 1% af VLF Evrópusambandslandanna allra. Sú tala endurspeglar þó ekki mikilvægi fiskveiðanna alls staðar þar sem mikill munur er milli ólíkra landa og landssvæða innan sambandsins. Hafandi í huga umfang og fjölbreytileika sjávarútvegs í sambandinu er erfitt að alhæfa um stöðu og horfur. Evrópusambandið hefur sameiginlega fiskveiðistefnu þar sem ákvarðað er hve mikið hver þjóð má veiða af hverri tegund. Stefnan felur einnig í sér ýmiss konar reglur um veiðarnar og styrkjakerfi og kann mörgum Íslendingnum að finnast þetta dálítið mikil miðstýring. Regluverkið snýst meðal annars um framleiðsluferla, gæðamál, merkingar og fleira. Þá er stutt við samtök framleiðenda sem ætlað er að draga úr neikvæðum áhrifum á mörkuðum á lífsviðurværi fólks sem lifir af fiskveiðum. Sambandið getur einnig sett lágmarksverð fyrir fisk og gripið inn í markaðina með öðrum hætti. Þá sér Evrópusambandið um samningaviðræður við aðrar þjóðir varðandi rétt til veiða úr sameiginlegum stofnum.eufiskur

Það segir sig sjálft að styrkir til fyrirtækja í öðrum löndum skekkja samkeppnisstöðu íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja að öðru óbreyttu. Íslensk fyrirtæki geta einungis brugðist við, nú sem áður, með því að hagræða á öllum sviðum rekstursins.

Minnkandi arðsemi í ESB

Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að árið 2019 voru 129.540 starfandi um borð í 73.983 fiskiskipum Evrópusambandsríkjanna. Alls störfuðu um 75 þúsund í fiskeldi og voru 3.500 fiskvinnslur í rekstri.

„Hluti af flota ESB hefur hætt rekstri vegna minnkandi arðsemi og hækkandi verðs á skipaeldsneyti og fiskfóðurs vegna hernaðarátakanna. Raskanir í aðfangakeðjum og mörkuðum hafa leitt til skorts [á hráefni] sem einnig hefur áhrif á eldi sjávarafurða og vinnslu þeirra,“ segir í kynningunni sem Morgunblaðið vitnar til.