c

Pistlar:

16. ágúst 2022 kl. 13:30

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Geðlæknirinn og gjaldþrotin

Óttar Guðmundsson geðlæknir opnar á athyglisverða umræðu með helgarpistli sínum í Fréttablaðinu um síðustu helgi þar sem hann undrast samskipti fólks, þar á meðal fjármálaráðherra, við Skúla Mogensen athafnamann. Svo virðist sem geðlæknirinn telji að það sé rétt og skynsamlegt að takmarka samskipti við menn með fortíð Skúla sem svarar fyrir sig með grein í Fréttablaðinu þar sem hann bendir á þau augljósu sannindi að ekki fari saman að vera gjaldþrota og auðmaður. Af umræðunni að dæma skiptist fólk í tvær fylkingar, sumir virðast telja ábendingar Óttars réttar, aðrir hafa skilning á sjónarmiðum Skúla.geð

Hér hefur í tvígang verið fjallað um gjaldþrot og áhrif þess á einstaklinga og samfélagið enda þekkt fyrirbæri í hagkerfinu. Við rekum hagkerfi þar sem hlutafélagaformið ræður ríkjum sem byggist á takmarkaðri ábyrgð - að ekki verði sótt á félag og einstaklinga umfram það hlutafé og ábyrgðir sem í búinu eru. Að hluta til má segja að þannig taki báðir áhættu, sá sem leggur til rekstrarins hlutafé og sá sem lánar til rekstrarins. Eðli málsins samkvæmt hefur sá síðarnefndi tækifæri til að taka margvíslegar tryggingar fyrir lánveitingum og gengur framar í kröfuröðinni þegar á hana reynir. Báðir ganga til viðskipta með þá ætlun að hafa af þeim hag.

Nákvæmustu áform fara út um þúfur

Skoska skáldið Robert Burns (1759-1796) orti kvæði um mús, sem varð í plógfari hans og lýsir samúð bóndans með varnarlausu dýri, sem hann hefur óviljandi hrakið úr vetrarhíði, en gerir um leið samanburð við örlög manna.

En, mýsla, ekki ert þú ein um það að reyna,
að fyrir hyggja kemur ekki alltaf í hag;
því er svo oft um mýs og menn,
að nákvæmustu áform fara út um þúfur

Það er svo að bestu og nákvæmustu áform fara út um þúfur og ekki verður allt séð fyrir. Ágætur kunningi minni sagði gjarnan að þeir einu gerðu ekki mistök sem aldrei gerðu neitt! Viðhorf til gjaldþrots eru mótsagnakennd á Íslandi eins og sést í umræðunni núna. Vissulega hefur maður kynnst reiði í garð þeirra sem hlaupa frá skuldum og það með réttu. Sumir virðast furðu kærulausir fyrir eigin mannorði og stöðu annarra. Mér virðist það ekki eiga við um Skúla Mogensen þó sannarlega megi undrast djörfung hans oft á tíðum.

Opinber gjaldþrot

Gjaldþrot geta haft í för sér mikið fjárhagslegt tjón og sársauka og því reyna margir vandrataðar samningaleiðir til að komast hjá gjaldþroti. Hugsanleg mætti auðvelda slíkt í löggjöfinni og þessi mál ættu að vera til sífelldrar endurskoðunar. En við þurfum á nýsköpun að halda og frumkvöðlum, um það mætti flytja langt mál. Læknirinn er ríkisstarfsmaður eins og á við um ríflega 40% þeirra sem eru á vinnumarkaði í dag. Hugsanlega mótar þessi aukni fjöldi opinberra starfsmanna viðhorfin í umræðunni um þessar mundir. Er meðhöndlun fjármála hjá hinu opinbera og innan heilbrigðiskerfisins með slíkum ágætum að menn geta kastað steinum í allar áttir? Það þarf ekkert að afsaka menn eins og Skúla, veldur hver á heldur og menn standa með mismunandi hætti frammi fyrir örlögum sínum. En er ekki geðlæknirinn á villigötum þegar hann fer fram á einhverskonar útskúfun og útilokun manna og músa þegar þeirra bestu áform bregðast?