c

Pistlar:

24. ágúst 2022 kl. 21:22

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Reykjavíkurflugvöll þarf að bæta og þróa

Það var sjálfsagt að skoða Hvassahraun sem valkost fyrir nýjan flugvöll en það var rangt að nálgast málið eins og það væri eina lausnin á varaflugvallavandamálum Íslendinga. Frá upphafi var ljóst að kostnaður við flugvöll í Hvassahrauni var verulega vanmetin, sjálfsagt til þess að meirihlutinn í Reykjavík gæti réttlætt það að hefja niðurbrot Reykjavíkurflugvallar sem fyrst. Nú þegar vitað er fyrir víst að flugvöllur í Hvassahrauni er á til þess að gera virku eldsumbrotasvæði er mikilvægt að taka skynsama ákvörðun sem gætir að flugöryggi og er hagkvæm fyrir þjóðarhag. Sú ákvörðun byggist að öllum líkindum á því að bæta Reykjavíkurflugvöll og tryggja hann í sessi og fresta öllum áformum um flutning hans eða byggingu nýs varaflugvallar hér á Suðvesturhorninu. Mikilvægt er að þróa og bæta Reykjavíkurflugvöll þannig að hann geti sem best þjónað hlutverki sínu og eflst og styrkst um leið og gætt er að flugöryggi.

Þetta þarf ekki að þýða að Hvassahraun eða öðrum kostum verði ýtt endanlega til hliðar. Mikilvægt er að næstu ár og áratugir fari í að skilja jarðfræðilegar aðstæður betur samfara því að haldið áfram er að þarfagreina kosti varaflugvallar. Ekki á að láta íbúðauppbyggingu í Vatnsmýrinni stýra för.hvassa

Icelandair hefur skipt um skoðun

Í ágætum Kastljósþætti í gær kom fram Icelandair hefur hætt við áform um að flytja þjónustu sína á nýjan millilandaflugvöll í Hvassahrauni og vill innanlandsflugið áfram í Vatnsmýri. Einnig kom fram að sérfræðingar segja varaflugvöll fyrir millilandaflug nauðsynlegan á Suðvesturhorni landsins en kostnaður við byggingu hans verði vart réttlætanlegur nema hann sinni einnig innanlandsflugi eða millilandandaflugi. Kostnaðartölur um Hvassahraunsflugvöll hafa verið mjög á reiki en augljóslega verulega vanmetnar.

Frá því að gos hófst í Fagradalsfjalli hafa æ fleiri lýst yfir efasemdum um að Hvassahraun sé heppilegasta staðsetningin fyrir nýjan innanlandsflugvöll í stað Vatnsmýrar í Reykjavík, líkt og nefndir sérfræðinga hafa komist að niðurstöðu um. Sú niðurstaða Rögnunefndarinnar að Hvassahraun væri besta staðsetning fyrir nýjan flugvöll byggðist meðal annars á því mati að ekki væru líkur á því að gjósa myndi í nágrenni flugvallarins næstu aldirnar. Allir sjá núna, eldfjallafræðingar sem almenningur, að eldsumbrotin nú hafa kippt stoðum undan þeim forsendum. Við verðum að horfast í augu við að núverandi gostíðni á Reykjanesskaga getur varað tugi ef ekki hundruð ára. Eldfjallafræðin verður að fá að skoða og meta þróun síðasta árs. Mesta ógnin við flugvöll í Hvassahrauni er líklega gos í Krýsuvíkurkerfinu en jarðvísindamenn telja að líkur séu nú meiri á að Krýsuvíkurkerfið fari af stað.reykjav

Hraunrennslislíkön

Eldfjallafræðingar við Háskóla Íslands hafa unnið hraunrennslislíkan fyrir Reykjanesskaga og nýttu það til að skoða fyrir Kastljós hvaða áhætta tengd eldsumbrotum væri á því að byggja nýjan flugvöll í Hvassahrauni. Líkanið var fengið með því að tölvukeyra mörg þúsund möguleg gos í gegnum líkindareikniforrit þar sem byggt er á upplýsingum um hvar líklegt er að geti gosið á þessu svæði. Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur sagði í Kastljósi að samkvæmt því sé flugvallarstæðið inni á svæði þar sem hraun getur runnið yfir. „Þetta er breyttur veruleiki og líkurnar á að hraun fari yfir þetta svæði í náinni framtíð hafa aukist verulega,“ segir Þorvaldur. Þó svo að ekki sé víst að það muni gerast - geti það gerst. „Svo er bara spurningin náttúrulega líka, hvaða áhættu erum við tilbúin til þess að taka? Erum við tilbúin að byggja stór mannvirki á svæði sem hugsanlega geta farið undir hraun á næstu árum, eða áratugum eða árhundruðum, og setja þessa fjárfestingu, og hugsa þetta þannig: það gerist örugglega ekkert hér á næstu áratugum, þetta verður allt í lagi. En hvað ef það svo gýs á morgun?“ spurði Þorvaldur.

Uppbygging á Keflavíkurflugvelli

Nú hefur ISAVIA tilkynnt um hundrað og fimmtíu milljarða fjárfestingu á Keflavíkurflugvelli á næstu árum. Forstjóri Icelandair sagði í Kastljósþættinum að Reykjavíkurflugvöll hefði nýst vel sem varaflugvöll en segir að óvissa um hvort og þá hvenær flugvöllurinn fari úr Vatnsmýri, líkt og ríki og borg hafa gert samkomulag um, komi í veg fyrir nauðsynlega uppbyggingu þar. „Að okkar mati ætti að hætta því að þrengja frekar að þessum velli hér þannig að millilandaflugið geti nýtt hann sem varaflugvöll áfram fyrir Keflavík og hann geti verið samgöngumiðstöð okkar Íslendinga út á landshlutana,“ sagði Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. Það er sjónarmið sem við ættum að horfa til.