c

Pistlar:

30. ágúst 2022 kl. 18:06

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Uppspretta auðs í fátæku landi

Allt fram til aldamótanna 1900 var Ísland fátækt land samkvæmt öllum skilgreiningum. Það var sama hvort sem litið var til efnahags fólks eða mannvirkja, allt bar með sér fátæktina. Auðlindir landsins voru fáar og lítt nýttar. Fiskveiðar heimamanna voru frumstæðar og erlend fiskveiðiskip stóðu þeim langtum framar og náðu að gera sér verðmæti úr auðlindinni. Reyndar ættu menn að fara varlega úr að tala um auðlindir, þær verða ekki metnar til auðs nema nýting og eftirspurn sé til staðar. Fallvötnin runnu óbeisluð til sjávar og landbúnaður var mannaflsfrekur og dugði rétt til að fæða þjóðina. Öðru hvoru höfðu skapast aðstæður fyrir hagnað en hann var oftast skammvinnur, hvort sem það var vinnsla eða sala á hákarlalýsi eða sauðasala til Bretlands. Danakonungur hafði verið fljótur að slá eign sinni á brennisteinsnámur landsins og þá er líklega flest upptalið sem gat skapað auð á þessu landi. Nema auðvitað verslun og viðskipti væru til staðar sem oftast er frumforsenda hagnaðar.landn

Mikilvægi verslunar

Verslun er mikilvæg og verðmæt atvinnugrein og í vel rekinni verslun er fólgin mikil verðmætasköpun. Heilu stórveldin, eins og Feneyjar og Flórens, voru nær eingöngu byggð á verslun og það er kannski engin tilviljun að endurreisnin hófst í þessum borgum. Ris og fall borga mótaðist af því hve vel þær lágu fyrir samgöngum og verslun. Að ógleymdu því að verslun fylgdi mikil tengsl við aðra heimshluta og tengslunum fylgdi síðan umtalsverð gerjun svo að listir, menning og vísindi blómstruðu í kjölfarið.

Verslun hefur þó löngum haft á sér neikvæðan blæ í augum Íslendinga. Á víkingaöld var ekki alltaf auðvelt að greina á milli verslunaráforma eða vopnaðra rána. Víkingarnir léku dálítið tveimur skjöldum í þeim efnum. Lengi var amast við frjálsri verslun við útlendinga vegna þess að einvaldar þess tíma vildu tryggja sér ávinning af allri verslun og henni var beitt sem hluta af utanríkispólitík þeirra.

Á einokunartímanum var verslun tengd kúgun nýlenduherranna og þegar verslun losnaði úr viðjum erlendra afla var hún að stórum hluta hneppt í fjötra helmingaskiptakerfisins fræga. Skapaðist frelsi þá var það gjarnan tekið til baka með misviturlegum stjórnvaldsaðgerðum. Má vera að vegna þessa alls hafi verslun verið tengd kúgun í huga margra og reynslan af frjálsri verslun er stutt og þyrnum stráð. Í formálsorðum að riti vegna 25 ára afmælis Kringlunnar bendir Sigurður Gísli Pálmason, fyrrverandi stjórnarformaður Hagkaupa, á að frjáls verslun sé sú atvinnugrein sem sé örlátust á tækifæri til handa þeim sem byrja með tvær hendur tómar. Hann hefur þar án efa í huga sögu föður síns, Pálma Jónssonar, en Sigurður Gísli er annarrar kynslóðar auðmaður og hagnast nú af verslun á Íslandi og erlendis eins og birtist í Morgunblaðinu í dag þar sem afkoma Miklatorgs er rakin en félagið rekur Ikea-verslun hér á landi. Miklatorg hefur verið rekið með góðum hagnaði á liðnum árum en hagnaður síðastliðinna fimm ára nemur um þremur milljörðum króna. Félagið greiddi 500 milljónir króna í arð til eigenda sinna á síðasta ári en arðgreiðslur síðastliðinna fimm ára nema 2,2 milljörðum króna, auk þess sem greiddur var einn milljarður í arð árið 2016. Eignarhaldsfélagið Hof er eigandi Miklatorgs, en eigendur Hofs eru bræðurnir Sigurður Gísli og Jón Pálmasynir í gegnum eignarhaldsfélög sín.

Hvað skapaði auðinn?

Í síðasta pistli var vísað í vangaveltur dr. Helga Guðmundssonar, prófessor við Háskóla Íslands um auðsöfnun fyrri alda á Íslandi sem hann vildi augljóslega tengja við verslun, þó með fyrirvara. Helgi hefur haldið því fram að útilokað hafi verið að mynda ríkidæmi á Íslandi með þeirri verslunarvöru sem sagnfræðingar hafa löngum haldið fram að hafi verið aðalútflutningsvaran, nefnilega vaðmál sem bæði var rúmfrekt og verðlítið. Þannig reyndi Helgi að sanna að Grænlandsverslun (og Ameríkuverslun) hafi hér skipt sköpum. Ekki hafi aðeins verið um skinnavöru, svarðreipi, fálka og ísbirni að ræða heldur hvaltennur, já fyrst og fremst náhvalstönn. Helgi bendir á að náhvalstennur hafi verið seldar sem einhyrningstennur og hafi verið verðmætari en gull og silfur.Eyjan-hans-Ingólfs

Margt er til í þessu en þó er það ekki einhlýtt. Í bók minni Ríkir Íslendingar rakti ég að þegar land byggðist tóku landnámsmenn sér land eins og þá lysti. Fyrst til að byrja með var það ekkert vandamál, nóg var til. Síðar bjuggu menn sér til ríki og stefndu til sín trúum mönnum og lendum eins og Ásgeir Jónsson rekur í sínu verki Eyjan hans Ingólfs þar sem hann meðal annars fjallar um efnahagslega þætti landnámsins. Auður ættanna jókst með úthugsuðum mægðum en land og hlunnindi voru áfram uppspretta auðs. Fróðlegt er þó að skoða hve algengt var að mönnum tækist að komast til efna framhjá þessum hindrunum. Með einveldinu verður síðan aðgangur að embættum ein helsta forsenda fyrir auðsöfnun, allt þar til útgerð og verslun setur nýjar stoðir undir frjálst framtak.