c

Pistlar:

5. september 2022 kl. 20:26

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Framtakssemi og auðsæld á Vestfjörðum

Þegar hið einstæða verk Theódórs Friðrikssonar (1876-1948), Í verum, er lesið sést hve miklu skipti að hafa aðgang að sjó og kannski mestu fyrir fátækt fólk eins og Theódór. Framan af ævi sinni, þegar Theódór bjó í Flatey á Skjálfanda, í Fjörðum og inni í Eyjafirði, gat hann alltaf bætt við sig tekjum með því að sækja sjóinn auk þess sem hann gat veitt sér í soðið. Þá náði hann nokkrum tekjum á hákarlabátum. Það var ekki fyrr en Theódór fór inn í Skagafjörðinn sem hann lenti í fátæktargildru, þar var ekkert að hafa og hann átti verstu stundir ævi sinnar þegar hann varð að hírast í örreytiskoti uppi á heiði. Það voru bara góðbændur í Skagafirði sem áttu í sig og á um aldamótin 1900.isaf

Fiskveiðar gerðu gæfumuninn

Þetta rifjast upp hér þegar horft er á nýjan þátt Egils Helgasonar sjónvarpsmanns um Ísafjörð. Sjálfsagt hefur mörgum komið á óvart þeir uppgangstímar sem þar voru lengst af, með byggingu stórhýsa, millilandaskipum, farþegaflutningum og ríkulegri verslun. En þetta þarf ekki að koma á óvart. Í byggðum Vestfjarða voru fiskveiðar mikilvægasti bjargræðisvegurinn ásamt hlunnindum úr bjargi, fjöru og sjó, skrifar Ólína K. Þorvarðardóttir í bók Ferðafélags Íslands frá árinu 2017. Eiginmaður Ólínu, Sigurður Pétursson sagnfræðingur, gjörþekkir sögu Ísafjarðar og tengdi hana á áhugaverðan hátt við atvinnusöguna eins og kom fram í þætti Egils. Undanfarin ár hefur pistlaskrifari kynnt sér sögu og staðhætti Vestfjarða og þó hann geti en undrast samgöngurnar, en ekki var komin vegur um Djúp fyrr en 1970, þá sést að það var að mörgu leyti ágætt líf á Vestfjörðunum. Svo gott reyndar að þar fjölgaði fólki á meðan óáran dundu yfir suma aðra landsfjórðunga í lok 19. aldar. Þannig urðu ferðir til Vesturheims fátíðar meðal Vestfirðinga á meðan aðrir töldu það helsta bjargræðið.

En afkoma bænda byggðist ekki á landbúnaði heldur fyrst og fremst á fiskveiðum og eitthvað á reka. Árabátar voru helstu farkosturinn og á þeim var róið til fiskjar. Heimræði var nánast stundað frá hverjum bæ, í það minnsta vor og haust og voru mikilvæg uppspretta tekna og matar. Rétt eins og í þeim sveitum sem Theódór bjó í þar til hann álpaðist inn í Skagafjörðinn. Þar var kostur kotbóndans þröngur.flat

Þilskip og hákarlar

Vestfirðingar voru í aðstöðu til að tileinka sér nýjungar og þeir tóku forystu í þilskipaútgerð og héldu þeirri forystu lengst af 19. öldinni. Þá voru hákarlaveiðar í hávegum hafðar á Vestfjörðum en þetta var einhver arðsamasta atvinnugrein Íslendinga í langan tíma. Lengi á 18. og 19. öld var hákarlalýsi verðmætasta útflutningsafurð landsmanna enda eftirsótt um alla Evrópu sem ljósmeti. Hákarlaskipstjórar voru gjarnan efnamenn og víða í sjávarplássum á Vestfjörðum má sjá stórhýsi sem þeir reistu. Ekki bara á Ísafirði heldur einnig fleiri útgerðarstöðum og hér var fjallað um Flateyri fyrir ekki löngu síðan. En Ísaförður var aðal bærinn eins og kom skýrt fram í þætti Egils, næst fjölmennasti bær á Íslandi um aldamótin 1900.

Síðar hófst mótorbátaöldin á Ísafirði þegar Árni Gíslason formaður og Sophus Nielsen verslunarstjóri setja vél í bát sinn Stanley árið 1902. Bátunum fjölgaði hratt og byggðin þéttist, skrifar Ólína. Fólksfjöldi í bæjum og þorpum á Vestfjörðum tók kipp á fyrsta áratug vélbátanna. Í framhaldinu flutti fólk úr sveitum og sjóþorpum árabátatímabilsins í þorp og bæi sem gátu boðið hafnaraðstöðu fyrir vélbáta og þjónustu við útgerðina. Þannig var byggðaþróun þess tíma en þá nutu Ísfirðingar hennar og bærinn stækkaði og óx.

Erfitt líf

Hér er ekki verið að segja að líf fólks í verstöðvum hafi verið auðvelt, en sjórinn gaf þó möguleika sem sveitin gat ekki veitt eignalausu fólki. Hlutskipti Theódórs varð að fara ver úr veri, inn í Skagafjörð, við Húnaflóa, vestur í Bolungarvík, austur á Siglufirði, suður á Garðskaga, inn í Njarðvíkum og út í Vestmannaeyjar. Hann stundar sjó á árafleytum,mótorbátum, hákarlaskipum og fiskiskútum, beitir lóðir, flatti fisk, dró lifrarvagna, og þegar upp léttir i verstöðvunum, fer hann i kaupavinnu, þrælar á eyrinni eða sullar i sláturverkum. Þannig lýsir Þórbergur Þórðarson rithöfundur lífi Theódórs en eins og kom fram í þættinum um Ísafjörð þá gerði Þórbergur það sjálfur helst að spranga um götur Ísafjarðar en það er önnur saga.