c

Pistlar:

15. september 2022 kl. 10:39

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sofið rótt við rætur Vesúvíusar

Það er búið að vera gott sumar hér á Suður-Ítalíu, hæfileg rigning og gróður í góðu ástandi segir leiðsögumaðurinn Fulvio þegar hann sótti okkur til að taka okkur í hálfsdagsferð hér á Sorrento-skaganum við Napólí-flóa á Suður-Ítalíu. Fulvio er heimamaður þó hann beri rómverskt nafn, einn fárra hér um slóðir sem ekki er skýrður eftir dýrlingum. Hann segir að ferðamannastraumurinn til Suður-Ítalíu sé orðinn meiri en fyrir kórónuveirufaraldurinn sem lék Ítali svo grátt. Hann taldi að það væru um 30% fleiri ferðamenn núna en árið 2019. Það vilja greinilega allir koma hingað, þetta er eiginlega sprungið sagði Fulvio. Sem er rétt hjá honum, margt er gert til að takmarka fjölda inn á Sorrento-skagann og Amalfi-ströndina en dugar ekki til.leranto2

Fulvio er fæddur í Sorrento og þar búa aldraðir foreldrar hans. Faðir hans er fæddur 1936 og man það úr æsku sinni að vera sendur upp á þak á hverjum morgni til að moka ösku ofan af húsþakinu í Sorreno í síðast gosi Vesúvíusar árið 1944. Bandaríski herinn hafði þá hertekið Napólí og fyrir vikið er mikið myndefni frá gosinu. Eldfjallið er virkt og gríðarlega vel fylgst með því sagði Fulvio en menn eru samt að taka áhættu með því að búa við rætur þess. Jörðin er bara svo frjósöm og gott að búa þarna að íbúar standast ekki freistinguna þó áhættan sé umtalsverð.

Sofið rótt við rætur Vesúvíusar

Kannski að menn horfi til reynslu vatnsveitustjóra Pompei sem tók eftir því að allar lindir bæjarins þornuðu skömmu fyrir gosið 79 eins og rakið er ágætlega í sögulegri skáldsögu um síðustu daga Pompei eftir Robert Harris. Og sannarlega umlykur sagan allt á þessum slóðum og þó sérstaklega vissan um að Vesúvíus muni aftur hreyfa sig. Það snertir kannski ekki Sorrento-búa sem eru að hluta til í skjóli en stærstu gosin dreifa ösku um alla Ítalíu. Vesúvíus hefur verið að þróast á verri vegu, eldkeilan hefur verið að hlaðast upp í ástand eins og var fyrir gosið árið 79 eftir Krist. Í því ástandi er fjallið hættulegast en jarðfræðingar telja að það geti verið allt að 300 ár þar til fjallið springur út og það virðist duga flestum til að sofa rótt við rætur þess. Jarðskjálftamælar eru um allt fjall og það er undir gjörgæslueftirliti jarðfræðinga en mun það duga til að vara fólk við?


Svona getur fólk aðlagast allskyns hættum en eins og flestir Íslendingar vita er hægt að koma með skynsamar ályktanir um þróun mála en svo getur eitthvað allt annað gerst. Fjallið er ofarlega í hugum heimamanna og allstaðar má rekast á handverk eða listaverk sem vísa til þess með einum eða öðrum hætti. Hópurinn snæddi á veitingastaða þar sem stór málverk af eldgosum voru um alla veggi, líklega hugsað sem einhverskonar listauki!leranto

Fulvio upplýsir okkur um aðra og fjarlægari ógn, ofureldfjallið Campi Flegrei sem er víðfeðmt svæði staðsett í Pozzuoli-flóa, vestan við Napólí og flóa hennar. Svæðið er þekkt frá fornu fari fyrir líflega eldvirkni. Þar er talið að síðast hafi gosið fyrir 20 þúsund árum en risagos varð þar fyrir 35 þúsund árum sem gæti hafa átt þátt í endalokum Neanderdalsmannsins í Evrópu. Þegar flogið var yfir Napólí á heimleiðinni mátti sjá eldkeilur um allt vestanvert borgarsvæðið en íbúar virtust ekki hafa áhyggju og stundum var búið að reisa húsabyggð í miðri keilunni, einum veggnum kannski sópað í burtu til að auðvelda samgöngur.

Eldar af manna völdum

En eins og áður sagði hefur sumarið verið gott á Suður-Ítalíu á meðan norðurhluti landsins hefur skrælnað eins og átti sér stað víða í Mið-Evrópu. En skógareldar geta brotist út þó Fulvio hefði ekki teljandi áhyggjur af því þegar við fikrum okkur meðfram fjallshlíðum út frá bænum Nerano í átt að Lerento víkinni sem er einstök náttúrusmíð og vinsæl baðstaður í dag en þar var stórvirkt grjótnám fram til 1920 sem skilur eftir sig minjar í fjallinu. Út um allt eru eldri fornminjar, frá tímum Rómverja og Grikkja og jafnvel en lengra aftur í tímann. Í þessari paradís hefur maðurinn hreiðrað um sig ansi lengi og nýtt sér gróður og dýralíf sér til viðurværis.flavio

En Fulvio segir að öllum tilfellum bæru menn ábyrgð á skógareldum á þessu svæði. Sauðfjárhirðar kveikja í kjarrinu til að fá betra gras. Veiðimenn gera það sama til að auðvelda sér að eltast við bráðina en hér er það kjarrfugl sem kemur frá Afríku sem menn veiða í nokkrum mæli. Og svo er það síðasti hópurinn, þeir sem bera ábyrgð á brunavörnum! Já, slökkviliðið kveikir í! Svo háttar til að sumir eru með samninga sem aðeins virkjast ef kviknar í, svo sem þyrluþjónustur. Freistingin verður of mikil segir Flavíó sem lagði feril í tölvunarfræðum til hliðar til að geta sinnt ferðamönnum. Hann segist ekki sjá eftir því.