c

Pistlar:

3. október 2022 kl. 14:45

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hagstjórn í Evrópu

Veður eru heldur válind í helstu efnahagskerfum heims og þess sést merki á mörkuðum í kauphöllum og í bankakerfinu. Þetta er að sumu leyti alþjóðlegt ástand og þess furðulegra að fylgjast með Ríkisútvarpinu gera tilraun til festa vandann við Bretland og Brexit. Þannig hafa frétta- og umræðutímar Ríkisútvarpsins verið byggðir upp undanfarið og þessi stemmning náði hámarki í flissi fréttaritara Ríkisútvarpsins í London sem gat illa dulið Þórðargleði sína yfir meintum óförum nýs forsætisráðherra Bretlands og flokks hennar í umræðuþættinum Silfrinu um helgina. Var hálf furðulegt að fylgjast með þessu en sami fréttaritari gat aldrei dulið samúð sína gagnvart „kröfum“ Breta á hendur Íslendingum á sínum tíma í Icesave-málinu. Þar tók Ríkisútvarpið leynt og ljóst afstöðu gegn málstað Íslendinga. Stjórnandi Silfursins sá reyndar ástæðu til að fá hagfræðiprófessor og fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra í Jóhönnustjórninni í umræðuna en hann var á sama róli á sínum tíma í Icesave-málinu þó hann hafi verið maður til að biðjast afsökunar á verstu ummælunum. En svona er nú umræðustjórnun ríkisfjölmiðilsins.brex

Hollensk verðbólga og ítalskar skuldir

Bresk stjórnvöld eru eins og aðrar þjóðir í vanda með stjórn efnahagsmál. Þau glíma reyndar ekki við 17% verðbólgu eins og Hollendingar núna og skuldastaða ríkissjóðs Breta er önnur og betri en margra þjóða innan ESB, sérstaklega Ítala sem skulda um 150% af landsframleiðslu sinni. Þar fyrir utan hafa Bretar meira svigrúm og eiga auðveldara með að bregðast við með sjálfstæðan gjaldmiðil. Grundvallarvandi breska hagkerfisins er hins vegar sá að framleiðsluiðnaðurinn er veikburða og þeir reiða sig á þjónustu- og verslun. Margir vilja meina að þannig eigi nútíma þjóðfélag að vera en því geta fylgt vandkvæði eins og Bretar upplifa núna.

Höfuðvandi flestra hagkerfa Vestur-Evrópu um þessar mundir er hvernig eigi að bregðast við verðbólgu um leið og stjórnvöld reyna að fást við orkukreppunni sem nú ríkir. ESB-ríkin verða að sætta sig við miðstýrða vaxtastefnu Seðlabanka Evrópu og má segja að nú skýrist hvernig honum tekst að takast á við margþættan vanda innan Evrópu þar sem sum hagkerfin glíma við mikla verðbólgu, atvinnuleysi og stöðnun og önnur við ósjálfbæra skuldastöðu sem þolir þar af leiðandi ekki vaxtahækkanir um leið og vaxandi óþolinmæði ríkir gagnvart miðstýrðum ákvörðum ESB og stofnanna sambandsins. Að ekki sé talað um að íbúar í þessum löndum búa við rýrnandi kaupmátt, lakara velferðarkerfi og samfélagslegan óstöðugleika í kjölfar óraunsærrar innflytjendastefnu.covid

Versnandi kaupmáttur og minni hagvöxtur

Í nýafstöðnum kórónuveirufaraldri gripu stjórnvöld til til viðamikilla aðgerða til að viðhalda hagvexti og atvinnu. Nú þarf að vinda ofan af því sem er vandasamt þar sem viðbrögð voru oft óraunsæ og úr hófi. Verðbólgan sem nú er glímt við hefur ekki verið jafn mikil í 40 ár og fer vaxandi í sumum löndum. Eina ráðið er aðhald í ríkisfjármálum og hækkun vaxta. Til að ráðast í slíkar aðgerðir þurfa íbúar viðkomandi landa að trúa og treysta stjórnvöldum. Það getur verið vandasamt innan sambands 28 þjóðríkja sem mörg hver eru með vaxandi ólgu í grunngerðum samfélagsins.

Ein birtingamynd stöðunnar kemur fram í lækkun á hlutabréfamörkuðum og versnandi eignastöðu. Það hefur áhrif á stöðu banka og fjármálastofnanna en verðmæti þeirra hefur hríðfallið undanfarið. Verra er að kaupmáttur almennings rýrnar og neytendur hafa minna handa á milli auk þess sem þeir þurfa að hafa áhyggjur af því að eiga fyrir matar- og orkureikningum. Allt getur þetta stuðlað að samdrætti í hagvexti sem síðan leiðir til lakari lífskjara. Nú reynir á hagstjórn allrar Evrópu.