c

Pistlar:

11. október 2022 kl. 17:42

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Farsæl þróun á Fróni, eða hvað?

Dags daglega er nokkuð fjörug umræða um samfélagsgerðina hér á Íslandi, iðulega undir ýmsum mismunandi formerkjum. Oft er rifist út frá ólíkri pólitískri hugmyndafræði en stundum rekumst við á einhverskonar tölulegan samanburð á samfélögum sem viðkomandi reynir þá að nýta sér máli sínu til rökstuðnings. Fer þá oft þannig að sínum augum lítur hver á silfrið og ólíkar ályktanir dregnar af þeim upplýsingum sem liggja fyrir. Pistlahöfundur hefur oft gert sér það til gamans að tína saman samanburð milli landa og efna til umræðu út frá því en Ísland virðist oft komast betur frá slíkum samanburði en margir geta sætt sig við. Sem gefur að skilja eru sjónarhornin ólík og misjafn rökstuðningur iðulega að baki.dugl

En líklega vilja flestir sem taka þátt í umræðunni bæta samfélagið og stuðla að jákvæðri þróun þess. En um það hvernig það verði best gert geta verið afskaplega ólík sjónarhorn svo ekki sé meira sagt. Bæði varðandi það sem hefur gerst í fortíðinni og einnig um það stöðuna núna, til dæmis um það hvort einhver verðmæti felist í núverandi samfélagsgerð. Þannig virðist manni stundum að hið til þess að gera nýja stjórnmálaafl Píratar líti svo á að Íslandssagan þar til þeir komu til sögunnar sé að mestu leyti misheppnuð. Ekki nóg með það, stundum er eins og Píratar telji að það búi hreinlega röng þjóð í landinu og það getur skýrt ákafa þeirra í innflytjendamálum þar sem þeir styðja leynt og ljóst einhverskonar útfærslu á því að landamæri og viðhlítandi landamæraeftirlit verði lögð niður og innflutningur fólks af erlendum uppruna nánast óheftur og án eftirlits. Hugsanlega býr að baki sú sannfæring að á þann eina hátt verði spillingaröflum Íslands komið fyrir kattarnef! Um leið tortryggja Píratar allt vald í landinu, telja að lögreglan sé verri en glæpamennirnir og saklaus maður sé bara dæmi um mann sem ekki hefur verið rannsakaður nóg.

Forsendur fyrir lýðræði

En málin geta verið flóknari en nálgun Pírata og reyndar annarra stjórnmálaafla á vinstri kantinum segja til um. Það þarf til dæmis meira en þokkalega orðaða stjórnarskrá til að skapa forsendur fyrir lýðræði og mannréttindum og það þarf meira en þekkingu á bókhaldi til að skapa efnahagslega velsæld. Mörg samfélög sem við teljum hafa ýmsar skynsamar forsendur til farsældar hafa sokkið í stjórnleysi, óstjórn og glundroða sem að lokum leiðir til þess að viðkomandi þjóðfélög geta ekki séð þegnum sínum farborða. Og þá koma sumir þeirra til Íslands eins og dæmin sanna.

Fyrir ekki löngu síðan kom út áhugaverð bók eftir Joseph Henrich, prófessor í þróunarlíffræði, við Harvard-háskóla. Prófessor Henrich hefur áhuga á spurningunni um það hvernig maðurinn þróaðist frá því að „vera tiltölulega ómerkilegur prímati fyrir nokkrum milljónum ára í að vera farsælasta tegundin á jörðinni“ og hvernig menning hefur mótað erfðafræðilega þróun tegundar okkar og stuðlað að þeim samfélögum sem við lifum í. Það er hugsanlega vel viðeigandi að horfa til slíks kenningaheims nú þegar nóbelsverðlaunin í læknisfræði fóru til sænska vísindamannsins og erfðafræðingsins Svante Pääbo. Verðlaunin hlaut hann Svante rannsóknir á genamengi útdauðra manntegunda og þróun mannsins. Auk þessara tengsla þá fann hann alveg nýja tegund, Denisova-manninn, og tengdi okkur erfðafræðilega við Neanderdalsmanninn. Um leið sýndu rannsóknir hans fram á að margar manntegundir hafi lifað á jörðinni í einu þó aðeins ein hafi náð fram til okkar tíma.

Hvað skilgreinir farsæld?

En víkjum aftur að prófessor Henrich sem í bók sinni Skrítnasta fólk í heiminum (The WEIRDest People in the World: How the West Became Psychologically Peculiar and Particularly Prosperous) reynir að greina og meta hvað hefur mótað farsælustu þjóðfélög heims, hin vestrænu lýðræðisríki. Það sem sameinar þau er að vera vestræn, menntuð, iðnvædd, rík og lýðræðisleg. Skammstöfunin WEIRD (Western, educated, industrialized, rich, democratic) nær yfir ensk heiti þessara hugtaka.

Henrich telur að það sem skapi farsæld umræddra samfélaga sé undartekning frekar en regla. Þau gildi sem búa að baki byggjast á langvinnri virðingu fyrir lýðræði, lögum og rétti (jafnvel á kostnað persónulegra þæginda) og jákvæðum viðhorfum til vísindalegra rannsókna og þekkingarleitar undir þeirra formerkjum. Sömuleiðis skiptir miklu að almennt virðist fólk treysta ókunnugum, hvort sem það er á sviði persónulegra samskipta, stjórnmála eða viðskipta. Sumum kann að virðast sem svo að þetta séu ekkert sérlega frumlegar skilgreiningar hjá prófessor Henrich. Það sem greinir hann þó frá öðrum er hvernig hann metur fjölskyldutengsl og einstaklingshyggju auk áhrifa trúarlegra viðmiða á samfélagsgerðina og skyldur sem þar er að finna.

Ættbálkalýðræði

Hann beitir sagnfræðilegum greiningum og nútímalegum félagsrannsóknum, meðal annars skoðanakönnunum til að greina samfélög. Eitt af því sem hann bendir á þegar hann ræðir hve erfitt er að innleiða lýðræðisleg sjónarmið er afstaða ættbálka í Afganistan til lýðræðis. Eins og flestum er kunnugt eyddu Bandaríkjamenn og vestrænir bandamenn þeirra trilljónum Bandaríkjadala í að kenna Afgönum lýðræði og viðhlítandi stjórnsýslu. Það féll nánast á einni nóttu þegar bandaríski herinn fór. En Henrich bendir á að það hafi verið fullkomlega framandi fyrir fólk í dreifbýli Afganistan að greiða öðrum atkvæði en þeim sem voru af sama ættbálki. Einnig sú hugmynd að refsa ætti jafnt fyrir glæpi óháð því hverjir ættu í hlut. Jafnstaða fyrir lögum og rétti er framandi í mörgum þjóðfélögum og hefur alltaf verið. Í miðaldaþjóðfélagi Kína var morð innan fjölskyldu meðhöndlað með allt öðrum hætti en ef það var gagnvart ókunnugum. Að drepa föður sinn var mun verri glæpur en að myrða barn, svo annað dæmi sé tekið. Hann dregur ættbálkaþjóðfélög fram sem andstöðu við WEIRD þjóðfélög hins vestræna heims. Þar gildi önnur viðmið þegar kemur að farsæld.

Ólík sýn í borgum Evrópu

Max Weber, faðir félagsfræðinnar, var sérlega áhugasamur um áhrif siðbreytingarinnar í Evrópu og uppgang mótmælenda og þeirra viðhorfs- og siðabreytinga sem urðu í kjölfarið. Henrich horfir hins vegar allt aftur til ársins 1000 og þeirra breytinga sem kaþólska kirkjan stóð fyrir en hún var að eflast á þeim tíma sem stofnun. Um leið fór hún að skipta sér af hegðun og siðferði fólks. Það að banna hjónaband innan fjölskyldu kann að dómi Henrich hafa stuðlað að meiri félagslegum hreyfanleika.

Henrich bendir á að þessi mismunandi sjónarmið finnist nú víða í borgum Evrópu þar sem er að finna annars vegar fólk með sýn WEIRD þjóðfélagsins og fólk sem komi úr ættbálkaþjóðfélögum utan hinar vestrænu lýðræðishefðar. Þau áhrif séu sterk og nú megi finna fólk af fjórða ættlið í borgum Bretlands sem ekki hafi látið af hugmyndum sínum. Því takist miðaldaþjóðfélög og 21. öldin á á sumum sviðum mannlífsins.