c

Pistlar:

17. október 2022 kl. 10:32

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Stofnanir stórar og smáar

Dags daglega eru iðulega settar fram háværar kröfur um að auka við og stækka umfang hins opinbera. Að það þurfi fleiri stofnanir og fleiri ríkisstarfsmenn, að ríkið þurfi að hafa aðstöðu og starfsmenn til að bregðast við sérhverjum þeim vanda sem birtist og hafa svo sterkt eftirlit með öllu. Fyrir Alþingi á hverjum tíma liggja þannig fyrir kröfur um allskonar útgjaldaauka, hvort sem það er tillaga um að auka heimildir til að fella niður námslán eða stofna nýjar stofnanir umboðsmanna. Þingmenn sem kalla eftir nýjum stofnunum og verkefnum koma iðulega af fjöllum ef einhver spyr um kostnað, sem er reyndar sjaldgæft í umræðunni. Þeir sem tala fyrir hagræðingu, skynsemi og aðhaldssemi í rekstri hins opinbera eru oftast hjáróma og fá litla athygli í fjölmiðla.

Nýlega var sagt frá því að stofnanir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins væru 13 talsins og stöðugildi við þær eru um 500, enda þótt starfsmennirnir séu fleiri. Stofnanir þessar eru Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR), Landmælingar Íslands, Minjastofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrurannsóknarstöðin við Mývatn, Orkustofnun, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, Umhverfisstofnun, Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, Úrvinnslusjóður, Vatnajökulsþjóðgarður, Veðurstofa Íslands og Þjóðgarðurinn á Þingvöllum. Mikið af þessum stofnunum hefur orðið til á undanförnum áratugum.arnarhv

Höfuðstöðvarnar í Reykjavík

Flestar fyrrgreindar stofnanir hafa höfuðstöðvar í Reykjavík, en eðli málsins samkvæmt eru starfsstöðvar þeirra víða. Starfsmenn stofnananna eru um 500 og tæpur helmingur þeirra sem svöruðu spurningum í nýlegri könnun Maskínu telja mikil og eða jafnvel mjög mikil tækifæri felast í því að sameinast eins og Morgunblaðið upplýsti. „Í ráðuneytum sem ég hef stýrt hef ég alltaf lagt áherslu á að fara yfir stofnanaumhverfi þeirra með það fyrir augum að árangur af starfi verði sem mestur og bestur. Viðskiptavinir okkar eru almenningur og skattgreiðendur og við eigum ávallt að hafa hagsmuni þeirra í huga við ákvarðanir sem þessar,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra í samtali við Morgunblaðið Hann sagði að vilji væri fyrir því að sameina stofnannir og að spilin verði stokkuð upp. Það á eftir að koma í ljós hvort ráðherra nær þessum markmiðum.

Margar stofnanir um sömu verkefni

En stundum eru stofnanir augljóslega að sinna verkefnum sem skarast mjög. Þannig nefnir ráðherrann sérstaklega rannsóknir og náttúruvöktun, sambærileg verkefni sem sé sinnt af starfsmönnum fleiri en einnar stofnunar. Einnig er landvörslu sinnt í þremur stofnunum, það er Umhverfisstofnun, Vatnajökulsþjóðgarði og Þjóðgarðinum á Þingvöllum. Í þessu efni megi hugsanlega breyta málum, eins og leitast sé nú við í starfi, meðal annars með utanaðkomandi ráðgjöfum.

Guðlaugur Þór bendir á að kröfur hafi aukist, meðal annars vegna mannauðs- og persónuverndarmála í kjölfar breytinga á ríkisrekstri. Starfsemi lítilla stofnanna er því orðin talsverð áskorun og kallar á endurskoðun, segir Guðlaugur Þór við Morgunblaðið. Rétt er að hafa í huga að alls eru 52% íslenskra stofnana með færri en 50 starfsmenn, aðeins 9% með fleiri en 250 starfsmenn og 66% íslenskra stofnana séu á höfuðborgarsvæðinu.

Allar breytingar á stofnunum ríkisins krefjast víðtæks samráðs og lagabreytinga. Því er flókið að ráðast í verkefni eins og að sameina stofnanir og breyta verkaskiptingu. Starfsmannaréttur er mikill og tregðan mikil, þess mikilvægara að fara varlega í að koma nýjum stofnunum á fót. Skynsamlegra er að gera breytingar á þeim eldri ef verkefni koma upp til að forða skattgreiðendum frá óþarfa útgjaldauka.