c

Pistlar:

28. október 2022 kl. 9:19

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Verður íslenski fiskurinn á pari við lambakjötið?

Langflestir Íslendingar virðast trúa því að íslenskur fiskur seljist á háu verði á öllum tímum á öllum mörkuðum. Að það sé í raun vandalaust að selja jafn ágæta vöru og fiskinn okkar og bara formsatriði að koma honum ofan í innkaupakörfu evrópskra neytenda. Því sé eðlilegt umræðan um íslenskan sjávarútveg snúist fyrst og fremst um veiðar og vinnslu, auðlindina sem bara gefur og gefur og hve mjög núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi mótar það óréttlæti sem þrífst í íslensku samfélagi. Þannig virðist umræðan oftast vera.

En veruleikinn er annar. Sagan og hliðstæð dæmi sýna okkur að það er ekkert gefið þegar kemur að erlendum neytendamörkuðum. Þar getur verið gagnlegt að horfa á tilraunir til að selja íslenskt lambakjöt í gegnum tíðina. Flestir Íslendingar telja lambakjötið okkar nokkuð gott og áratugum saman hefur verið reynt að selja það á erlendum mörkuðum án nokkurs teljandi árangurs. Okkar góða lambakjöt selst ekki á verði sem skilar neinum verðmætum til framleiðenda eða seljenda, stundum hefur salan og lágt verð hreinlega verið réttlætt með því að það þurfi að afsetja birgðir vegna offramleiðslu eins fráleitt og það nú er. Endurteknar tilraunir til að breyta söluaðferðum, umbúðum eða markaðsstarfi hafa litlu eða engu skilað til framleiðenda en fært skattgreiðendum umtalsverðan kostnað. Okkar góða lambakjöt selst ekki á neinu ásættanlegu verði, svo einfalt er það.lax2

Breytt kauphegðun

Á sama tíma hefur okkur tekist að fá hátt verð fyrir íslenskar sjávarafurðir en eins og á við um allar neytendavörur er ekki sjálfgefið að svo verði áfram. Framboð breytist og kauphegðun neytenda tekur breytingum. Margir áhrifaþættir geta þarna komið til eins og Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, kom inná á Sjávarútvegsdeginum fyrr í vikunni en líklega selur enginn Íslendingur meira magn af fiski inn á neytendamarkaði en einmitt hann. Ljóst er að við Íslendingar getum ekki gefið okkur að geta alltaf selt okkar vörur á háu verði. Verslanir breyta kröfum sínum eftir þörfum neytenda en þær fara fyrst og fremst fram á áreiðanleika, gæði og fyrirsjáanleika. Að varan sé alltaf tiltæk af sömu gæðum í sömu hillum. Kauphegðun neytenda byggist á vana og við Íslendingar höfum notið þess í gegnum tíðina en óvíst er að svo verði áfram. Margt stuðlar að því.

Laxinn hefur tekið hásætið

Í fyrsta lagi má undrast uppgang laxaafurða sem nú seljast á tvisvar til þrisvar sinnum hærra verði en þorskur. Hvernig má það vera að eldisafurð taki framúr hreinni náttúruafurð eins og fiskinum okkar? Jú, fyrirsjáanleiki. Laxinn er nánast verksmiðjuframleiddur og er því ávallt til reiðu með sömu gæðum. Það þýðir að verslunareigendur geta stillt honum upp á sama hátt í sömu hillum allt árið. Íslensk fiskvinnsla ströglar við að afhenda ferskan fisk með sömu tíðni og getur það í raun ekki. Norðmenn hafa sett sér markmið um að framleiða þrjár milljónir tonna af eldislaxi árið 2030 og fimm milljónir tonna árið 2050. Í ljósi þess að áætlanir þeirra um aukningu í laxaframleiðslu hafa staðist til þessa má gera ráð fyrir að lax flæði inn á markaði á næstu árum. Ástæða er til að óttast að hann geti rutt þorski til hliðar eða breytt kauphegðun þorsksölu í óhag. Og þá lækkað óhjákvæmilega verðið sem við Íslendingar fáum fyrir hann.lax1

Rússafiskurinn flæðir inn

Í öðru lagi þá keppir ferskur íslenskur fiskur nú við sjófrystan fisk sem rennur í gegnum verksmiðjur í Póllandi og er afhentur með svipuðum áreiðanleika og í svipaðri umgjörð og laxinn. Það er einkennilegt að hugsa til þess að sjófrystur fiskur skuli vera samkeppnishæfur við ferskan fisk. Hann er það auðvitað ekki en ekki er allt sem sýnist. Sem fyrr er það tíðni og áreiðanleiki afhendingar sem skiptir miklu. Einnig skiptir máli það magn sem hægt er að bjóða uppá en nú í miðju viðskiptabanni á Rússa virðist hálf milljón tonna af Rússafiski renna í gegnum vestur-evrópskt framleiðslu- og sölukerfi. Hvernig má það vera? Einnig er talsvert af norskum fiski unninn með líkum hætti.

Þorsteinn Már velti því upp að hugsanlega sé tími hágæðafiskvinnslu hér á landi að renna sitt skeið á enda. Fiskvinnslur þar sem ferskur fiskur er unnin allt árið fyrir kröfuharða markaði Vestur-Evrópu. Nú þegar er vígi þorsksins í Englandi fallið en lengi vel var það talið traustasti markaðurinn fyrir þorskinn okkar. Fiskur og franskar (Fish & Chips) hefur verið einhverskonar þjóðarréttur Englendinga en hugsanlega sætta þeir sig við annað en þorskinn okkar.þorskur

Stór fyrirtæki eins og Seachill bjóða upp á ferskan lax og uppþíddan þorsk/bolfisk og verslanakeðjan Tesco breytti markaðnum á einni nóttu. Það eru þau reginöfl sem við er að glíma fyrir sölu- og markaðsstarf íslenskra sjávarafurða eins og margir hafa orðið til að benda á. Íslendingar eru ekki ráðandi á þessum markaði og horfur eru á að staða okkar verði enn þrengri í framtíðinni sem mun hafa áhrif á það verð sem við fáum fyrir sjávarafurðir okkar. Þegar við horfum til þess að eitt sjávarútvegsfyrirtæki í Noregi er stærra en allur okkar sjávarútvegur sést að við Íslendingar erum ekki mótandi afl á þessum markaði. Því miður.