c

Pistlar:

27. nóvember 2022 kl. 13:11

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Gengin og völdin í París

Fyrir stuttu sýndi Ríkissjónvarpið franska kvikmynd sem bar hið kunnuglega heiti Vesalingarnir (Les misérables). Um var að ræða margverðlaunaða mynd frá árinu 2019 sem gerist í París nútímans, með sterka skírskotun í samnefnt verk Viktors Hugo. Myndin var tilnefnd til Óskarsverðlauna sem besta alþjóðlega kvikmyndin en leikstjóri er Ladj Ly sem er ættaður frá Mali og er þetta hans þekktasta mynd.

Leikstjórinn Ly er fæddur í hverfinu Montfermeil sem hefur um 25 til 30 þúsund íbúa, um 17 km frá miðborg Parísar. Eins og mörg úthverfi í Frakklandi er hverfið suðupottur. Það var stofnað á sjöunda áratugnum til að skapa innflytjendum betri aðstæður. En lestarlínan sem hefði tengt Clichy-sous-Bois við París var aldrei fullgerð og úthverfið datt hægt og rólega úr sambandi. Gríðarleg uppþot urðu þar árið 2005.löggur

Myndin hefst þegar mannfjöldi safnast saman í París og fagnar sigri franska knattspyrnuliðsins á HM 2018. Gleði ríkir á Avenue des Champs-Élysées og við fáum að upplifa óljósa vísun um það að franska þjóðin hafi fagnað saman, háir sem lágir, innfæddir sem aðfluttir og sigurinn þannig fangað bræðralag fólks af mismunandi þjóðfélagsstéttum eða þjóðerni. Nokkuð sem hefur verið hampað í kringum franska landsliðið, að það sameini þjóðfélagshópa. Þegar samfélagsþróunin í Frakklandi er skoðuð má hins vegar efast um að það sé raunsönn mynd. Það staðfestist þegar mörg verk franskra kvikmyndagerðarmanna eru skoðuð en þau lýsa vaxandi sundrung og klofningi meðal frönsku þjóðarinnar. Um þetta var rætt í umfjöllun um myndina Athena! eftir leikstjórann Romain Gavras sem birtist hér fyrir stuttu. Kvikmyndagerðarmenn fleiri landa Evrópu eru að lýsa líkum þjóðfélagsbreytingum.media

Sveitalögga í borginni

Myndin segir sögu Stephane Ruiz, lögreglumanns úr sveitinni sem er nýlega fluttur til Parísar vegna persónulegra ástæðna. Þar er honum falið að vinna með lögreglumönnunum Chris og Gwada á vakt í Montfermeil, sem er einmitt hverfið þar sem Victor Hugo skrifaði hina þekktu skáldsögu sína Vesalingana. Einn gagnrýnandi sagði að myndin væri eins og uppsuða úr Vesalingum Hugos og þáttunum vinsælu The Wire.
Það er erfitt fyrir aðkomumanninn Ruiz að átta sig á aðstæðum en Chris misnotar vald sitt og Gwada virðist sætta sig við það. Á sama tíma fylgjast áhorfendur með Issa, sem er þekktur ungur afbrotamaður, stela ljónsunga, úr sirkus, sem veldur því að heldur viðskotaillur eigandi hans fer til leiðtoga hverfisins sem er þekktur sem „borgarstjórinn“ og hótar að snúa aftur með skotvopn ef dýrinu sé ekki skilað. Chris og sveit hans fá það verkefni að finna ljónsungan og koma í veg fyrir uppþot. Allt reynist það þrautinni þyngra í því upplausnarástandi sem ríkir í hverfinu þar sem mismunandi gengi ráða ríkjum.

Valdatómarúm

Myndin gerist á einni dagsstundu og sveitamaðurinn Ruiz er dreginn inn í heim sem hann á erfitt með að skilja. Það er eðlilegt, það er erfitt að átta sig á því hver fer með völd í hverfinu og hvaða hlutverki lögreglan gegnir yfirhöfuð.krakkar

Í raun ríkir valdatómarúm í Montfermeil-hverfinu og lögreglumennirnir eru fyrir löngu búnir að gefast upp. Þeir hugsa bara um að lifa af og hagnast á ástandinu, sérstaklega Chris. En þegar valdatómarúm myndast fyllir væntanlega einhver í það. Montfermeil-hverfið er augljóslega hverfi innflytjenda og klíkur þeirra ráða ríkjum. Borgarstjórinn áðurnefndi ræður götumarkaðinum en valdastaða hans er óljós annars staðar. Múslimir sem kalla sig Bræðurna eru alltumlykjandi og þeir sitja fyrir ungu krökkunum og hvetja þau til að mæta í moskuna og fá gos og nammi. Trúboðið er rekið af miklum ákafa og hin hefðbundna kaþólska kirkja Frakklands víðs fjarri. Fleiri valdahópar eru á svæðinu, fyrrverandi glæpamaður hefur einnig gengist íslam á hönd og hafnar ofbeldi, hefur um sig söfnuð og verður hluti af atburðarásinni. Hann talar nánast í orðskviðum eins og spámaður.

Þetta er versti dagur lífs míns segir lögregluþjónninn Stephane Ruiz í lok fyrsta vinnudagsins sem lögregluþjónn í París. Það má hafa skilning á þeim ummælum, hann á erfitt með að skilja hlutverk sitt í breyttum heimi.