c

Pistlar:

28. nóvember 2022 kl. 21:13

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Danir í myrkri og orkuskortur framundan

Margir Íslendingar leggja leið sína til Kaupmannahafnar á aðventunni enda kunna Danir öðrum betur að gera sér dagamun og borgin er yfirleitt ljósum prýdd og fallega skreytt. En nú bregður öðru vísi við, Kaupmannahöfn er nánast myrkvuð þessi jólin og Danir verða að drekka jólasnafsinn yfir kertaljósum. Þetta er afleiðing þess ástands sem nú ríkir í orkumálum Evrópu í kjölfar Úkraínustríðsins og breytinga og álaga vegna loftslagsmála.

Við Íslendingar munum státa af fallegum jólaskreytingum og rafmagnsreikningar eru ekki að sliga landsmenn. En við höfum fengið margvísleg viðvörunarmerki sem segja okkur að breyttir tímar eru framundan og nauðsynlegt er að taka skynsamar og ígrundaðar ákvarðanir í orkumálum.hiti

Þarf að fara að spara heita vatnið?

Heita vatnið er okkar helsta auðlind og gríðarleg orka sem við fáum í gegnum hitaveitur landsins sem gera okkur kleyft að hita híbýli okkar allt öðru vísi en aðrar þjóðir. En heita vatnið er ekki óþrjótandi auðlind, það er tekið út úr hringrásarkerfi sem þarf að huga að. Ljóst er að margar hitaveitur þurfa að efla leit að heitu vatni til að styrkja kerfi sín. Hér í Reykjavík hefur viðhaldi kerfisins ekki verið sinnt nógu vel en nauðsynlegt er að fá notendur til að fara betur með heitt vatn. Því miður mun það leiða til þess að verð á heitu vatni hækkar því öðru vísi er ekki hægt að fá fólk til að spara. Það þarf hins vegar að tryggja að húshitunarkostnaður hækki sem minnst þó menn borgi kannski meira fyrir að láta renna í heita pottinn. Það er útfærsluatriði en við verðum að læra að fara betur með heita vatnið um leið og við getum reynt að bæta einangrun húsa hér á landi og huga að fleiri sparnaðarráðstöfunum. En við sjáum að sveitarfélög eins og Akureyri, Árborg og fleiri eru að leggja í umtalsverðan kostnað til að leita að heitu vatni. Um leið heyrist að nýir bústaðir í Grímsnesinu fái ekki aðgang að heitavatnskerfinu þar.

Hvar á að virkja?

En það vantar líka aðra orku og ljóst að ef einungis er horft til spár um mannfjöldabreytingar og vaxandi umsvif því samfara þá kalla það á aukna raforkuframleiðslu. Þá er ekki verið að horfa til þarfa sem skapast vegna orkuskipta en þær einar og sér gætu kallað á tvöföldun orkuframleiðslu. Það blasir við að það getur orðið erfitt, enginn stór orkukostur eins og Kárahnjúkavirkjun er til staðar og flestar virkjanir sem hafa komist í gegnum nálarauga rammaáætlunar í nýtingaflokk eru smáar, utan virkjananna í neðri hluta Þjórsár ef við leggjum þær allar saman.orka

En þær ógöngur sem við erum í með kerfið sjást ágætlega þegar grein Elíasar Jónatanssonar, orkubússtjóra Orkubús Vestfjarða, er lesin en hún birtist í Morgunblaðinu í dag. Þar bendir hann á þá undarlegu stöðu sem Vestfirðingar eru settir í en þeir fá ekki að virkja. Elías bendir á að fjárfesting í varaafli er gríðarleg nú þegar á Vestfjörðum og hver framleidd kWst í varaafli mjög dýr, ekki síst þegar olíuverð er hátt. Útreiknað einingarverð varaafls er í dag nálægt 70 kr./kWst sem er meira en tífalt söluverð raforku frá vatnsaflsvirkjun.

En lausnin er innan seilingar segir Elías. Nærtækasta dæmið um hagkvæma virkjun er 20-30 MW virkjun í Vatnsdal í Vatnsfirði, en með tilkomu virkjunarinnar sem er einungis í 20 km fjarlægð frá Mjólkárvirkjun gæti straumleysistilfellum hjá 90% Vestfirðinga fækkað um 90% og olíunotkun vegna varaafls einnig minnkað um 90%. Getur einhver varið það að virkja ekki í Vatnsdal þegar svona tölur sjást?