c

Pistlar:

30. nóvember 2022 kl. 22:02

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ögurstund í orkubúskap

Það er komið að ögurstundu í orkubúskap heimsins og fáar þjóðir hafa þá valkosti sem við Íslendingar búum yfir. Framundan eru mikilvægar ákvarðanir og merki þess birtist nú í því að Landsvirkjun er tilbúin til þess að ráðast í Hvammsvirkjun, stefnumótun í vindmyllurekstri bíður, við þurfum að huga að orkusparnaði og orkunýtingu, Rammaáætlun þarf að fá framgang, ráðast þarf í orkuskipti en mikilvægast af öllu er að setja saman skynsama stefnumótun í orkumálum sem tekur mið af markmiðum í loftslagsmálum og orkuþörf landsmanna. Lykill að því er orkuspá sem menn verða að takast á við af hreinskilni og heiðarleika.orka

Skuldbindingar í loftslagsmálum

Þeir sem lesa pistla höfundar sjá að talsverðar efasemdir ríkja um forsendur og stefnu í loftslagsmálum og hvernig stjórnvöld nálgast þau mál. Það breytir því ekki að Ísland verður að standa við skuldbindingar sínar og við erum aðili að Parísarsáttmálanum en markmið hans er að halda hækkun hitastigs jarðar undir 1,5°C miðað við meðalhitastig við upphaf iðnvæðingar.

Flestum er kunnugt að ríki heimsins hafa skuldbundið sig til að setja sér markmið um samdrátt í losun þó áætlanir og framkvæmd margra sé ótrúverðug. Gagnvart Parísarsáttmálanum hefur Ísland sett sameiginlegt markmið með aðildarríkjum Evrópusambandsins (ESB) ásamt Noregi um 40% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030 miðað við árið 1990. Markmiðinu skal náð með 43% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda sem fellur undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS) ásamt 30% samdrætti í losun sem fellur ekki undir ETS er bent á á nýjum vef Orkuspárnefndar.

Ísland hefur skuldbundið sig til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem fellur utan ETS kerfisins um 29% árið 2030 miðað við árið 2005. Markmið ESB var uppfært árið 2021 úr 40% í 55% samdrátt gróðurhúsalofttegunda árið 2030. Ekki er komin niðurstaða er varðar hlut Íslands og Noregs í því samhengi.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er rætt um sjálfstætt markmið Íslands um 55% samdrátt gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð Íslands (losun utan ETS) frá árinu 2030. Ennfremur er sett markmið um að Ísland nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum fyrir árið 2040 og verði þá óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja eins og lesa má um inni á nýjum vef um orkuspá.orka2

Rafeldsneyti kallar á mikla orku

Í grunnspá um raforkuneyslu er gert ráð fyrir að almenn notkun aukist jafnt og þétt. Aukin eftirspurn eftir raforku næsta áratuginn kemur frá almennum vexti og raforkunotkun í samgöngum, en á móti kemur að orkunýtni heldur áfram að batna. Stærsti óvissuþátturinn er raforkunotkun stórnotenda. Stórnotendur eru málmbræðslur og gagnaver. Umfangsmikil rafeldsneytisframleiðsla myndi einnig flokkast sem stórnotandi enda krefst það gríðarlegrar orku.

Talið er að ríki heimsins þurfi að áttfalda framleiðslu endurnýjanlegrar raforku til að stöðva brennslu jarðefnaeldsneytis. Þetta er alveg gríðarleg áskorun og til viðbótar verður það rafeldsneyti sem marga dreymir um að framleiða í miklu magni, með nýjum virkjunum, óhjákvæmilega mjög dýrt. Í dag er rætt um að tonn af rafeldsneyti sé 3 til 5 sinnum dýrar en jarðeldsneyti. Til eru spár sem segja að verð á rafeldsneyti muni lækka þegar vetnisframleiðslan hafi aukist umtalsvert og nauðsynlegur rafgreiningarbúnaður lækkað í kjölfar mikillar fjöldaframleiðslu. Þetta eru þó aðeins spár.