c

Pistlar:

11. desember 2022 kl. 16:45

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Gjörnýting fisks í hungruðum heimi

Í heimi sem telur átta milljarða manna og fæðuöflun leggur sífellt meira álag á vistkerfið er mikilvægt að nýta auðlindir og hráefni vel. Líklega gera fáir þjóðir það jafn vel og Íslendingar varðandi fiskinn sem kemur upp úr sjónum. Það er nefnilega svo að einn mikilverðasti vitnisburður um ágæti íslenska sjávarútvegsins og þá um leið stjórnkerfi hans er virðing fyrir hráefninu. Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa lagt sig fram við að auka verðmæti hráefnisins til þess að nýta sem best það sem fæst fyrir þær heimildir sem fyrirtækin ráða yfir. Það er mikilvægt að horfa til þessa og hér hefur áður í pistlum verið vikið að þessu.

Kvótakerfið og það samspil sem þar hefur verið milli útgerðar, vinnslu og markaðsstarfs - sem er einstakt í hinum alþjóðlega sjávarútvegsiðnaði - hefur kallað eftir hagræðingu og aukinni nýtingu. Þar er að leita skýringa á því að við höfum stöðugt náð meiri verðmætum út úr þeim fiski sem við veiðum enda nauðsynlegt til þess að standa undir auknum kröfum um framlegð og nýtingu hráefnisins.sjávar2

Hluti verðmætasköpunarinnar

Þessi nýtingarkrafa birtist í fiskvinnslu landsins, hvort sem hún fer fram úti á sjó eða í landi en nýjum fjárfestingum er ætlað að tryggja betri meðhöndlun hráefnisins og aukna verðmætasköpun. Við erum komin ansi langt frá því ástandi sem var fyrir daga kvótakerfisins þegar fiskurinn ónýttist oftar en ekki í höndum sjómanna vegna ónógs undirbúnings, lélegs tækjakosts og frumstæðra vinnubragða. Aðeins hluti fisksins var nýttur á þeim tíma og hinu hent. Þekking og kunnátta var bara ekki meiri á þessum tíma en sem betur fer hefur orðið breyting á. Í dag stöndum við Íslendingar hvað fremst í heiminum við að nýta það sem upp úr sjónum kemur, um það þarf ekki að deila. Margir eru hins vegar lítið upplýstir um þetta eða hafa einfaldlega ekki áhuga á því.

Fjöldi fullnýtingarfyrirtækja

Út um allt land er vaxandi fjöldi fyrirtækja sem vinna verðmæti úr hliðarafurðum sjávarafurða. Sjálfsagt mætti kalla þau fullnýtingarfélög en þessi félög eru utan hins hefðbundna sjávarútvegs þó þau sæki þangað fjármögnun, þekkingu og stuðning. Óhætt er að segja að frumkvæðið að fullnýtingu komi frá sjávarútveginum sjálfum og fyrirtækjum landsins. Þar eiga stjórnmálamenn og stjórnvöld litla aðkomu þó þessir aðilar hampi gjarnan niðurstöðunni. Í rannsókn Íslenska sjávarklasans fyrir tveimur árum kom fram að svo virðist sem engin önnur þjóð í okkar heimshluta komast nálægt Íslandi í sérhæfingu á þessu sviði, fjölda fyrirtækja og hlutfalli nýtingar á fiski.

Fullvinnsla hliðarafurða er skilgreind sem nýting á öllum pörtum fisksins öðrum en fiskflakinu. Það má alveg velta fyrir sér hvort sú skilgreining lifi lengi enda fást stöðugt meiri verðmæti úr öðrum hlutum fisksins, þökk sé markvissri þróun og markaðsvinnu viðkomandi fyrirtækja. Eina haldbæra ástæðan fyrir því að nefna nýtingu annarra hluta fisksins hliðarafurðir er að enn í dag er þessum afurðum hent í flestum löndum.ferskfisk

Þótt nýting fisks hér á landi sé mun betri en í öðrum löndum má enn auka hlutfall hliðarafurða sem eru nýttar hérlendis. Samkvæmt fyrrgreindum athugunum Sjávarklasans nýta Íslendingar um 80% af hverjum hvítfiski en sambærilegar tölur fyrir nágrannalönd okkar benda til þess að nýting í þeim löndum sé um 45-55%. Munurinn er sláandi en þarna er um veruleg verðmæti að ræða sem fara því miður í súginn hjá öðrum þjóðum. Okkar sjávarútvegur hefur þar mikið fram að færa í þekkingu og tækni.