c

Pistlar:

17. desember 2022 kl. 12:18

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Af Twitter vígstöðvunum


Er Elon Musk endanlega búinn að tapa glórunni eða er menningarstríðið vegna yfirtöku hans á samfélagsmiðlinum Twitter rétt að byrja? Og hefur yfir höfuð nokkur áhuga? Ekki endilega hér á Íslandi en svo virðist sem íslenskir fjölmiðlar, þeir fáu sem hafa fjallað um uppljóstranir Elon Musk um hvernig kaupin gerðust á Twitter-eyrinni, hafi fremur tekið þá afstöðu að Twitter-skjölin séu ofmetin. Það er sama afstaða og er gegnum gangandi hjá meginstraumsmiðlum Bandaríkjanna, það er, þeirra sem styðja Demókrataflokkinn með ráðum og dáð. Svo virðist því sem að Elon Musk sé nú komin í einn allsherjar slag við þessa fjölmiðla eftir að hann lét loka tímabundið Twitter-reikningum nokkurra vinstrisinnaðra fjölmiðlamanna. Og ekki vantar viðbrögðin hjá þeim. Þeir eru æfir af reiði.musktw

En af hverju er maðurinn, sem ætlaði að frelsa Twitter-fuginn, að loka á blaðamenn? Jú, skýringin sem Musk gefur upp - og endurómast ekki hér heima í fréttum - er að blaðamennirnir hafi ógnað persónulegu öryggi hans. Svo er mál með vexti að mikill aðdáandi Musk hefur verið að birta færslur sem sýna hvar einkaþota hans er í rauntíma. Ætli Elon Musk að bregða sér af bæ, þá lætur forritið vita og milljónir manna vita að hann sé á ferð og flugi. Þetta hafa viðkomandi blaðamenn tekið upp og birt þrátt fyrir að vitað sé að þessar upplýsingar eru eitur í beinum Musk. Hann segir að það geti ekki verið hlutverk blaðamanna að upplýsa hvar hann er staddur á hverjum tíma. Það ógni öryggi hans og fjölskyldu hans.

Þessi viðkvæmni Musk er skiljanleg því fyrir nokkrum dögum var eltihrellir kominn á eftir bifreið hans og sýndi ógnandi tilburði. Sá taldi sig vera að elta Elon sjálfan, en í bílnum var hins vegar ungur sonur hans X. Virðist sem að þessi óstöðugi einstaklingur hafi nýtt sér upplýsingar um flug einkaþotu Elons. Vegna þessa greip Musk til þess ráðs að loka reikningum níu blaðamanna tímabundið. Þessi viðbrögð hans hafa mælst misjafnlega fyrir en hafa verður í huga að margir vilja Elon feigan, ekki síst vegna afskipta hans af stríðinu í Úkraínu, en það eru gervihnettir hans sem halda uppi netsambandi í Úkraínu, Rússum til mikillar armæðu.

Sérreglur fyrir blaðamenn?

Athyglisvert er hve illa blaðamennirnir bera sig sem hafa misst tímabundið aðgang sinn. Fyrir þeim er þetta eitthvað sem var ekki inni í möguleikamenginu þeirra fyrir nokkrum mánuðum. Einhver benti á að nú loksins hefðu vinstrisinnaðir blaðamenn áttað sig á hvernig er að verða hent út af Twitter, en eins og kunnugt er hefur það verið hlutskipti þúsunda hægrisinnaðra einstaklinga að missa aðgang sinn á Twitter til lengri eða skemmri tíma. Musk sagði strax að lokunin væri aðeins tímabundin og viðkomandi blaðamenn hafi fengið viðvörun eins og áður sagði. 

Þetta sýnir betur en margt annað þau átök sem eru í kringum Twitter, hvort sem íslenskir fjölmiðlar vilja segja fréttir af því eða ekki. Að sumu leyti virðist Musk hafa tekið við hinu allt að því vonlausa hlutverki Donalds Trump að berjast við meginstraumsmiðla. Musk segir athyglisvert að þessir blaðamenn hafi aldrei gert neinar athugasemdir þegar lokað hefur verið á aðra en þá og bendir á að engar sérreglur eigi að gilda um blaðamenn. Eftir skoðanakönnun á Twitter ákvað Musk að opna reikninga blaðamannanna aftur í gær.

Sannarlega má sjá það viðhorf meðal fjölmiðlamanna með tilheyrandi vísun í mikilvægi starfsins að sérreglur eigi að gilda um þá. Við þekkjum þá umræðu hér á landi líka. En eins og aðrir geta þeir þurft að lúta lögum og reglum og Musk telur að þeir hafi brotið reglur Twitter. Nú síðast í gær sendu Alþjóðasamtökin Fréttamenn án landamæra, RSF, frá sér yfirlýsingu þar sem þau gagnrýna það sem þau kalla geðþóttaákvörðun Elon Musk, eiganda Twitter, að henda áðurnefndum blaðamönnum af samfélagsmiðlinum. Ákvörðunin sé ógn við lýðræðið að mati samtakanna. Meðal þeirra sem voru settir í tímabundið bann eru Donie O'Sullivan hjá CNN, Ryan Mac hjá New York Times, Drew Harwell hjá Washington Post, Micah Lee frá Intercept og blaðamaðurinn Aaron Rupar.twit

Segist hafa greitt helmingi of mikið

Þetta er aðeins ómur að því sem gengur á í kringum Twitter þessar vikurnar sem Elon Musk greiddi 44 milljarða Bandaríkjadala fyrir. Hann gengst við því núna að hafa að öllum líkindum greitt tvisvar til þrisvar sinnum of mikið fyrir samfélagsmiðilinn. Vonlega velta menn því fyrir sér af hverju hann var yfir höfuð að gera það, maður sem eins og blaðakonan Bari Weiss bendir á, er einkum þekktur fyrir að hafa áhuga á geimferðum! En jú Musk hefur frá upphafi sagst vilja stuðla að betri umræðu á miðlinum og frjálsari. Er hann þá komin í mótsögn við sjálfan sig núna og hefur hann misst tiltrú fjárfesta um leið?

Til að Musk fái notið sanngirni er rétt að benda á að hann hefur verið að stoppa allskonar framferði á Twitter auk þess sem hann ákvað að opinbera Twitter-skjölin sem sýna svart á hvítu hver mikil ritstýring og þöggun var stunduð af starfsmönnum Twitter. Um leið hefur hann látið loka hundruðum þúsunda af forritum (yrkjar og/eða bottar) sem voru með gervireikninga og höfðu það hlutverk að beina umræðu í ákveðnar áttir og gera um leið tiltekna aðila ótrúverðuga og drepa þannig umræðum um viss málefni á dreif. Það er í raun furðulegt að þetta hafi verið látið líðast. Þá hefur Musk hafið sérstakt átak gegn reikningum sem innihéldu barnaníð eins furðulegt og það er. Hefur hann sagt að hreinsa samfélagsmiðilinn af þessari óværu sé forgangsverkefni hans. Þessi viðleitni hans hefur vakið furðanlega litla athygli meginstraumsmiðlanna, hver svo sem skýringin er, en þó undrar Elon sig mest á því af hverju þetta var látið grassera innan miðilsins svo árum skipti.

Gagnasöfnin að birtast

Áðurnefnd Bari Weiss segir frá því í grein sem hún birti á miðli sínum í fyrradag að hún hefði fengið óvænt boð frá Musk 2. desember síðastliðin um að koma í höfuðstöðvar Twitter í San Francisco og fara yfir Twitter-skjölin í kjölfar þess að hann hefði ákveðið að veita aðganga að þeim. Eins og fjallað var um í grein hér í síðustu viku þá birti blaðamaðurinn Matt Taibbi fyrstu fréttir úr gögnunum en Weiss hefur fengið rannsóknarblaðamenn sem eru tengdir The Free Press, sem hún rekur, til að aðstoða sig við áframhald málsins og undanfarið hafa verið að birtast gagnasöfn sem vekja athygli, meðal annars um ákvarðanir þess að loka reikningi Donalds Trump án þess að hægt hefði verið að heimfæra nokkur brot hjá honum á reglum miðilsins.tvitt

Það eru ekki aðeins Weiss og Taibbi sem hafa verið að skoða gögnin. Þar á meðal eru blaðamennirnir Abigail Shrier og Michael Shellenberger sem bæði eru kunnir rithöfundar, Leighton Woodhouse, Suzy Weiss, Peter Savodnik, Oliviu Reingold og Isaac Grafstein. Eins og Weiss lýsir þessu þá nánast tjölduðu þau í gluggalausu, flúrlýstu herbergi í höfuðstöðvum Twitter og fóru að fletta í gegnum víðfeðmt safn fyrirtækisins af innri samskiptum. Þessi samskipti eru nú að birtast en virðast fá mjög mismunandi meðhöndlun hjá fjölmiðlamönnum eins og komið hefur fram hér í greinum.

Í gærkvöldi kom svo nýr gagnapakki. Hann fjallar um óeðlilegt samband FBI og Twitters. Þar kemur margt áhugavert fram. Meira um það síðar.