c

Pistlar:

20. desember 2022 kl. 11:41

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Orkan, hitinn og þjóðarsjóður

Það er hægt að taka undir með þeim sem segja að Íslendingar séu lánsöm þjóð þegar kemur að náttúruauðlindum. Með þekkingu og menntun í farteskinu höfum við nýtt auðlindir landsins til að byggja upp samfélag sem er í fremstu röð þegar kemur að því að tryggja borgurum landsins ásættanleg lífsskilyrði. En allt er þetta undir stöðugu endurmati og Íslendingar verða að forgangsraða og meta hvar og hvernig sameiginlegum kröfum er beitt við nýtingu auðlinda.virkj

Ein af þeim auðlindum sem margir líta til okkar með öfundaraugum er endurnýjanleg umhverfisvæn orka. Eins og við erum minnt á þessa daganna skiptir gríðarlega miklu að geta hitað upp heimili okkar með ódýrum og umhverfisvænum hætti. Heita vatnið er okkar dýrmætasta auðlind og mikilvægt að tryggja að þekking og forsjálni ráði þar för. Ekki er víst að svo sé enda veitu- og orkufyrirtæki undir pólitískri stjórn sem brenglað getur dómgreind eins og við sáum þegar Orkuveita Reykjavíkur dró stórlega úr viðhaldi og nýframkvæmdum vegna skuldastöðunnar fyrir áratug. Það hefur áhrif núna til viðbótar við órássíu í fjárfestingum sem nú síðast birtist í furðulegum fjárfestingum Ljósleiðarans. En látum það liggja milli hluta í bili.

Landsvirkjun aldrei staðið betur

Stærsta orkufyrirtæki landsins er Landsvirkjun sem er í eigu íslensku þjóðarinnar og ábati af rekstri félagsins því samofinn samfélaginu. Augljóslega er saga hagvaxtar og þróunar í landinu nátengd uppbyggingu virkjana til að mæta nýjum iðnaði í landinu, þar með ýta undir atvinnustig og styðja við orkuþörf heimila.

Forsvarsmenn Landsvirkjun segja að fyrirtækið hafi aldrei í tæpri 60 ára sögu sinni staðið betur fjárhagslega. Þeir segja það vitnisburð um þann trausta grunn sem félagið byggir á með 18 vatnsafls- og jarðgufustöðvum og tveimur vindmyllum. Aldrei hafi verið slakað á viðhaldi og endurbótum, jafnvel eftir stóráföll í efnahagslífinu, enda er þá tjaldað til einnar nætur. Elsta aflstöðin í eigu Landsvirkjunar er Ljósafossstöð frá árinu 1937.

Mikilvægi stórnotenda

En þetta gerðist ekki af sjálfu sér. Samningarnir við stórnotendur eru einhverjir stærstu viðskiptasamningar sem gerðir eru á Íslandi og hafa reynst farsælir. Einmitt þar er að finna eina helstu ástæðu bættrar afkomu Landsvirkjunar í dag skrifaði fjármálastjóri Landsvirkjunar fyrir stuttu. Landsvirkjun fær nú hærra verð frá stórnotendum en áður hefur fengist. Verðið þar sé nú að flestu leyti komið til jafns við þau lönd sem við miðum okkur við.

Landsvirkjun selur ekki raforku beint til heimila eða smærri fyrirtækja, heldur selur inn á svokallaðan heildsölumarkað þar sem raforkusölufyrirtæki geta keypt og selt áfram. Verð frá Landsvirkjun hefur síðustu ár nær staðið í stað að raunvirði segir fjármálastjórinn. Íslensk heimili og smærri fyrirtæki hafa ekki þurft að glíma við snarhækkandi raforkureikninga eins og víða í Evrópu.

Gríðarmikill hagnaður

Hagnaður Landsvirkjunar hefur farið hækkandi undanfarin ár. Eftir fyrstu 9 mánuði þessa árs er hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði hærri en hann hefur verið frá upphafsdegi jafnvel þótt viðmiðið sé á ársgrundvelli. Af því leiðir einnig að sjóðstreymi Landsvirkjunar er með miklum ágætum. Í 9 mánaða uppgjöri félagsins er handbært fé frá rekstri, þegar búið er að greiða alla reikninga og laun, 51 milljarður króna. Ekkert annað rekstrarfélags á Íslandi skilar viðlíka upphæð jafnvel þótt yfir heilt ár væri litið segir fjármálastjórinn. Til samanburðar nemur þessi upphæð, sem skilað hefur sér inn á bankabók Landsvirkjunar á aðeins fyrstu 9 mánuðum þessa árs, rúmlega helmingi þess sem áætlað er að nýr Landspítali kosti bendir fjármálastjórinn á.álkall

Til að mæta kostnaði við uppbyggingu virkjana hefur Landsvirkjun sótt sér lánsfé og um tíma verið skuldsett félag á ýmsa fjárhagsmælikvarða. Staðan í dag er aftur á móti sú að Landsvirkjun hefur aldrei í sögu félagsins verið eins lítið skuldsett og er í raun komin í þá stöðu að lækkun skulda er ekki lengur forgangsmál eins og verið hefur síðustu ár. Það eru merkileg tímamót því að sama skapi hefur eign íslensku þjóðarinnar í félaginu aldrei verið verðmeiri segir fjármálastjórinn.

Þjóðarsjóður - horfin hugmynd?

Um skeið var rætt um að setja upp sérstakan þjóðarsjóð til að taka við arði Landsvirkjunar og annarra auðlinda. Hér í pistlum var efast um raunhæfi þess, ríkissjóður gæti virkað sem sveiflujöfnunarsjóður sé honum beitt rétt, við þurfum ekki þjóðarsjóð til þess.

En þegar Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra talaði fyrir þjóðarsjóði mátti hafa skilning á því. Hann vildi tryggja að fjáraustur vinstri manna kæmist ekki sjálfkrafa í þennan mikla hagnað. Nú virðist það hafa orðið að áhrínisorðum á núverandi ríkisstjórn þegar horft er til afgreiðslu fjárlaga. Líklega eru menn búnir að reikna sér þrílembd frá Landsvirkjun þetta árið.