c

Pistlar:

22. desember 2022 kl. 21:16

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Vin og hið opinbera velferðarsamfélag

Það er í senn grátlegt og hlálegt að Reykjavíkurborg skuli ætla að loka starfsemi Vinjar rúmu ári eftir að borgin tók yfir rekstrinum með tilheyrandi hástemmdum yfirlýsingum og fánahyllingum. Grátlegt í ljósi mikilvægi starfseminnar en hlálegt í ljósi yfirlýsinga og ásetnings borgarstjórnaryfirvalda. En viðbrögðin við ætlaðri lokun sýna einnig hve ráðvillt fólk getur verið þegar kemur að rekstri hins opinbera velferðarsamfélags og hvernig það skarast við líknar- og mannúðarfélög og annað það er sjálfboðaliðasamtök koma að. Að sumu leyti er tími okkar það dýrmætasta sem við getum gefið, hvort sem það er í þágu okkar nánustu eða til annarra sem þurfa á hjálp að halda. Sjálfboðaliðastarf er oftast vanmetið en er þó enn undirstaða æskulýðs- og mannúðamála í landinu. Við sjáum það best á rekstri íþróttafélaga og björgunarsveitanna. En þetta getur verið flókið fyrirkomulag og koss úr fjárlögum getur reynst örlagaríkur fyrir starfið og breytt forsendunum.vin

Ef við horfum fyrst á starfsemi Vinjar þá er þar dag­set­ur fyr­ir fólk með geðrask­an­ir sem Rauði kross­inn á höfuðborg­ar­svæðinu hef­ur rekið í nær 29 ár og gert að mikilvægu athvarfi fyrir fólk. Borg­in tók við rekstr­in­um fyr­ir ári síðan en kynnir nú lokun sem liður í hagræðing­ar­til­lög­um eins og það er orðað núna. Allt í einu er starfsemin sett í mikla óvissu og það með sérlega viðkvæman skjólstæðingahóp. Er nema vona að fólki blöskri. Um leið er þráttað um hvernig þurfi og eigi að manna starfsemi Vinjar sem hefur meðal annars treyst á sjálfboðaliðastarf og aðstoð fólks sem fellur ekki beinlínis undir sérfræðiheiti en þekkir þó allar þarfir og forsendur starfseminnar. Af orðum Einars Þorsteinssonar, formanni Borgarráðs, má ráða að hann vilji aftur fá sjálfboðaliða að starfseminni, slíkur sé kostnaður við reksturinn núna.

Ríkisvaldið hundsar þörfina

Þetta er að sumu leyti atburðarás sem við sjáum aftur og aftur og nægir að skoða sögu Sólheima í Grímsnesi, Reykjalundar, Samtaka áhugamanna um áfengisvarnir (SÁÁ) og fleira. Yfirleitt háttar svo til að þörfin er til staðar en ríkisvaldið hefur engan skilning á því. Því ræðst áhugafólk í verkið og hefur starfsemi langt á undan sérfræðingum hins opinbera og lyftir þá oft grettistaki. Svo breytast kröfurnar og þá kemur sérfræðingavaldið og krafan um að allt sé sett á fjárlög. Um leið breytist eðli og forsendur starfseminnar.

Það er lærdómsríkt að rifja upp að þegar Sesselja Hreindís Sigmundsdóttir hóf að taka við þroskaheftum á Sólheimum voru engin úrræði til á Íslandi fyrir þá og þess voru dæmi að þroskaheft fólk væri geymt í útihúsum. Sólheimar voru stofnaðir sem barnaheimili, einkum fyrir börn sem bjuggu við erfiðar heimilisaðstæður svo sem foreldramissi eða veikindi foreldra. Sesselja lagði áherslu á að Sólheimar væru heimili en ekki stofnun og að fatlaðir sem ófatlaðir deildu kjörum í daglegu lífi og starfi. Sólheimar urðu að sjálfseignarstofnun í janúar 1934 og lagði barnaheimilisnefnd jörðina til en Sesselja byggingar, innanstokksmuni og bú. En eins furðulegt og það er þá mætti starfið á Sólheimum oft tortryggni og andúð eins og rakið er skilmerkilega í bók Jónínu Michaelsdóttur rithöfundar, Mér leggst eitthvað til – sagan um Sesselju Sigmundsdóttur og Sólheima.sesselja

Árásir ríkisvaldsins á starf Sesselju

Lög um barnavernd og stofnun barnaverndarnefnda og -ráðs voru samþykkt 1932. Fljótlega á eftir risu harðar deilur milli Sesselju og yfirvalda um stefnuna í rekstri Sólheima. Næstu tvo áratugina skarst oft í odda og stundum mjög alvarlega. Yfirvöld vildu ekki að á Sólheimum væru vistuð samtímis fötluð og ófötluð börn, því þau töldu að „heilbrigð börn gætu borið andlegt og líkamlegt tjón af umgengni við fávitana“. Þá var gagnrýnt að grænmeti væri haft til matar á Sólheimum, þótt börnunum væri einnig gefið að borða kjöt, fiskur og mjólk.

Þann 9. júní 1945 svipti barnaverndarráð Sesselju réttindum til að veita Sólheimum forstöðu. Sesselja kærði þann úrskurð og í apríl 1948 ógilti Hæstiréttur úrskurðinn. Í millitíðinni, eða í september 1946, setti ríkisstjórnin bráðabirgðalög, aðeins tíu dögum fyrir samkomudag Alþingis, um að taka Sólheima leigunámi, allt gerð að frumkvæði Brynjólfs Bjarnasonar ráðherra sósíalista. Ríkisafskiptasinnum fannst rétt að ríkið yfirtæki Sólheima og koma skyldi Sesselju í burtu af staðnum. Segja má að ágreiningurinn um Keflavíkurstöðina hafi bjargar hugsjónastarfi Sesselju þar sem bráðabirgðalögin hlutu ekki staðfestingu Alþingis í kjölfar þess að Alþingi var leyst upp vegna ágreinings um varnarsamstarfs.

Frá 1948 til 1980 ríkti friður um starfsemi Sólheima. Í upphafi árs 1980 tóku gildi lög um aðstoð við þroskahefta. Stofnaðar voru svæðisstjórnir og framkvæmdanefnd á vegum félagsmálaráðuneytisins. Hófst þá aftur erfiðleikatímabil í samskiptum við stjórnvöld. Ríkið náði því markmiði sínu að mestu að yfirtaka Sólheima árið 1983, þegar félagsmálaráðuneytið stóð fyrir því að Sólheimar voru settir á föst fjárlög. Launamál voru yfirtekin af fjármálaráðuneytinu, fjárveiting lækkuð um 40% miðað við föst fjárlög og engin fjárveiting veitt til viðhalds húsnæðis og tækja. Þessi ákvörðun var tekin án samráðs og samþykkis stjórnar Sólheima og varð ekki hnekkt fyrr en tíu árum síðar er sjálfseignastofnunin fékk fullt sjálfstæði um rekstur Sólheima að nýju.

Frumkvæði frá sjúklingum

Á Sólheimum er unnið mikið sjálfboðaliðastarf en reksturinn er nú á fjárlögum. Saga Reykjalundar er með líkum hætti en Reykjalundur er í eigu SÍBS, Sambands íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga. SÍBS var stofnað 1938 af berklasjúklingum á Vífilsstaðaspítala, Reykjahæli í Ölfusi, Kristnesspítala og sjúkrahúsunum í Reykjavík.

Markmið samtakanna var að stuðla að útrýmingu berklanna og berjast fyrir bættum kjörum berklasjúklinga. Saga SÁÁ sýnir samskonar frumkvæði. Hjá báðum þessum stofnunum kemur krafa um meiri aðkomu sérfræðinga sem að endingu vilja helst verða opinberir starfsmenn. Fleiri dæmi má tína til um frumkvæði í velferðarkerfinu sem hið opinbera tekur yfir með misjöfnum árangri. Vin er því miður ekki einsdæmi.