c

Pistlar:

5. janúar 2023 kl. 11:58

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Aldreifing og alstyrkir fjölmiðla

Fréttablaðið hefur hætt dreifingu blaðsins inn á heimili landsmanna og þar með fallið frá því sem var kjarni viðskiptamódels blaðsins í upphafi, semsagt að beita aldreifingu til þess að ná til auglýsenda. Um skeið var undirliggjandi viðskiptaáætlun (aldreifingin) álitin svo nýstárleg og einstök að fjárfestar Fréttablaðsins reyndu fyrir sér erlendis með ótrúlegum fjárlútlátum. En nú er semsagt þessari sögu lokið, ríflega 20 árum eftir að hún hófst. Talsmenn Torgs, sem gefa nú út blaðið, segjast ætla að spara sér einn milljarð króna á ári með því að hætta að bera blaðið inná hvert heimili. Væntanlega þurfa þeir að semja nýja verðskrá gagnvart auglýsendum. Útbreiddasta blað landsins hefur dregið sig í hlé með þessari aðgerð og virðist ætla að heyja varnarstríð á netinu. Tap núverandi hluthafa frá því hann tók við rekstrinum er með ólíkindum en auk þess að fjármagna ritstjórn blaðsins hefur hann þurft að glíma við óheyrilegan dreifingar- og prentkostnað. Svo virðist sem hann hafi keypt köttinn í sekknum á sínum tíma þegar fjárfest var í blaðinu.fjölmbl

Tveir milljarðar tapaðir

Morgunblaðið rakti taprekstur Torgs í fréttaskýringu í upphafi vikunnar. Þar kom fram að gríðarlegt tap hefur verið á Torgi undanfarin ár, en það nam í fyrra 325,7 milljónum króna fyrir skatta, samkvæmt ársreikningi. Á árunum 2019 og 2020 var milljarðs króna tap af reglulegri starfsemi, svo þessi þrjú ár nam samanlagt tap liðlega 1,3 milljörðum króna segir í fréttaskýringu Morgunblaðsins.

Helgi Magnússon fjárfestir á 91% í Torgi, í gegnum félögin Hofgarða ehf. og HFB-77 ehf. Hann keypti Torg af Ingibjörgu Pálmadóttur árið 2019, en Morgunblaðið áætlar að kaupverðið hafi ekki verið undir 600 milljónum kr., sennilega talsvert hærra. Hlutafé í Torgi var svo aukið um 600 milljónir króna 2020 og aftur um 300 milljónir króna 2021. „Af þessu má ráða að tæplega hefur minnu en hátt í 2 milljörðum króna verið varið í kaupin og styrkingu á fjárhagsgrunni félagsins frá því að Helgi Magnússon keypti Torg fyrir rúmum þremur árum, fyrir utan eigendalán til félagsins,“ skrifar Morgunblaðið.torg

Litlu miðlarnir hagræða

Þessi tíðindi berast um leið og margvíslegar breytingar eru að eiga sér stað á íslensku fjölmiðlalandslagi. Mestu skiptir að nú eru ríkisstyrkir til fjölmiðla búnir að festa sig í sessi og eftir hina furðulegu uppákomu í fjárlaganefnd í haust hafa þeir hækkað um 100 milljónir króna. Frjálsir fjölmiðlar eru að því er virðist komnir á fastar ríkisgreiðslur og eru líklega sumir hverjir að aðlaga sig þeim veruleika eða hvað á maður að lesa í samruna Stundarinnar og Kjarnans? Tveir litlir miðlar á vinstri væng hugmyndabaráttunnar sem hafa nánast frá upphafi hafa átt erfitt með að ná endum saman. Líklega er samruninn reiknaður út frá því hve mikill ríkisstyrkur getur borist en Kjarninn hefur verið rekinn með tapi frá því hann hóf göngu sína fyrir tæpum 10 árum. Samanlagt tap þessa litla vefmiðils er um 85 milljónir króna. Litlar fréttir hafa verið af rekstrarlegum forsendum sameiningarinnar og því hvernig hlutahafahópurinn kemur til með að líta út. Þó rekstur Stundarinnar haf verið betri þá eru fjársterkari aðilar í hluthafahópi Kjarnans. Nú, á sama tíma leitar Útvarp Saga eftir stuðningi nýrra hluthafa.morgunblaði

Sjálfvirkar hækkanir til Ríkisútvarpsins

Fjármálaráðuneytið hefur kynnt skattabreytingar á árinu 2023 og eitt af því sem hækkar er útvarpsgjaldið svokallaða, eða nefskatturinn sem landsmenn greiða til Ríkisútvarpsins frá 16 til 69 ára aldurs. Þessi skattur hækkar um áramótin úr 18.800 krónum á mann í 20.200 krónur, eða um 7,5%.

Hækkunin á að tryggja Ríkisútvarpinu óbreyttar tekjur með tilliti til verðbólgu, sem er trygging sem önnur fyrirtæki á sama markaði hafa ekki benti Morgunblaðið á í leiðara. Þessu til viðbótar býr Ríkisútvarpið svo vel að tekjustofn þess vex sjálfkrafa með fjölgun landsmanna. Þessi fjölgun hefur síðasta árið verið 2%, þannig að sú hækkun bætist við fyrrgreinda hækkun og færir hækkunina nær 10%.

Ofan á þetta selur Ríkisútvarpið svo auglýsingar í harðri samkeppni við einkaaðila á markaði sem ekki njóta milljarða í forgjöf frá ríkinu. Þessir einkaaðilar eiga það sameiginlegt að berjast í bökkum, meðal annars vegna óeðlilegrar samkeppni við ríkismiðilinn. Svona gengur þetta ár eftir ár, þrátt fyrir orð ráðamanna um úrbætur skrifar leiðarahöfundur Morgunblaðsins.


Fjölmiðlaveruleikinn breytist hratt og stjórnvöld virðast ráðalítil fyrir utan að gefa smá blóðgjöf beint af fjárlögum. „Blöðin munu deyja. Það er ekkert sem bjargar blöðunum,“ segir sjónvarpsmaðurinn kunni, Egill Helgason, í nýrri viðtalsbók við blaðamenn. Íslensk tímarit eru nánast horfin og hugsanlega bíður það nú dagblaðanna.