c

Pistlar:

15. janúar 2023 kl. 16:18

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Pólitískur áróður eða pólitísk innræting?

Líklega geta flestir verið sammála um að það sé viðkvæmt að blanda börnum og unglingum í pólitískan áróður eða flókna samfélagsumræðu. Flestum er þetta ljóst en öðru hvoru fer af stað umræða um slíkt framferði enda hafa margir reynt þetta á eigin skinni, annað hvort úr eigin skólagöngu eða frá skólagöngu barna sina. Oft henda menn hreinlega gaman að því hve kennarar geta verið pólitískir í kennslu sinni eins og hefur birst undafarna daga þó alvarlegur undirtónn sé í málinu. Upplýst hefur verið að báðir kennararnir sem eiga í hlut hafa verið virkir í pólitísku starfi á vinstri vængnum og jafnvel verið í kosningabaráttu gegn þeim sem þeir gera tortryggilega í kennslustundum. Því er eðlilegt að menn spyrji sig hvort hér sé ekki um að ræða pólitískan áróður eða jafnvel hreina pólitísk innrætingu?tjopdernis

Sumum kanna að þykja að þessi mál fái furðu litla athygli og forvitni vekur að lítið er um þau rætt í fréttum eða umræðuþáttum Ríkisútvarpsins. Getur verið að það sé vegna þess að starfsmönnum þar þyki þetta léttvægt eða hreinlega að þeir séu sjálfir uppteknir af samskonar pólitískri innrætingu?

Pólitískt barnaefni Ríkisútvarpsins

Staðreyndin er sú að Ríkisútvarpið er sér á báti með pólitískt efni sem meðal annars beinist að börnum. Þar er til dæmis haldið úti þætti sem kallast Krakkafréttir, eins og það sé hlutverk Ríkisútvarpsins að matreiða fréttir ofan í börn. Er ekki eðlilegast að foreldrar hafi umsjón með fréttanotkun barna sinna og alger óþarfi að Ríkisútvarpið taki sérstaklega að sér að vera með fréttaskýringar fyrir börn enda hefur þetta margoft verið gagnrýnt.

Í Krakkafréttum árið 2019 heyrðist þessi klausa: „Höfuðborginni Berlín var líka skipt í tvennt og árið 1961 var reistur múr til að aðgreina borgarhlutana. Það var líka gert til að koma í veg fyrir að fólk flyttist á milli, aðallega frá austri til vesturs.“ Svona er nú sagnfræði Krakkafrétta! Björn Bjarnason, fyrrverandi menntamálaráðherra, vakti athygli á þessum orðum og gagnrýndi. Ísgerður Gunnarsdóttir, Krakkafréttamaður, svarar Birni í aðsendri grein í Morgunblaðinu skömmu seinna þar sem hún sagði vandmeðfarið og flókið að einfalda fréttir fyrir börn (sic!), ekki síst þar sem krakkafréttir séu yfirleitt aðeins um ein mínúta og bætti við: „Það þýðir að stór hluti af því sem við gerum er að ákveða hverju við sleppum. Það getur verið mjög erfitt að ákveða slíkt þegar frá mörgu er að segja. Þegar við nefnum hugtök þarf að fylgja þeim skýring þar sem við gerum aldrei ráð fyrir að áhorfendur okkar viti fyrirfram hvað þau þýða. Stundum verður það til þess að við sleppum því að nefna einhver hugtök eða umorðum ef við höfum ekki tíma til að útskýra þau líka.“ Því má spyrja hvort ekki sé verr af stað farið en heima setið?krakkafr

Þá má einnig rifja upp að fyrir tveimur árum birti Fjölmiðlanefnd ákvörðun nr. 1/2021 með þeirri „niðurstöðu að Ríkisútvarpið ohf. hafi brotið gegn 5. mgr. 41. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 með birtingu auglýsinga í tengslum við Krakkafréttir, sjónvarpsþátt sem er ætlaður börnum yngri en 12 ára og er sýndur á RÚV.“ Þetta er tekið sem dæmi um hve mjög Ríkisútvarpið dansar á línunni þegar börn eru annars vegar. Ekki dugar það þó til að vekja athygli Umboðsmanns barna.

Þessi línudans Ríkisútvarpsins sást ágætlega nú í síðasta Áramótaskaupi þar sem eitt atriðið snérist um að verið væri að handtaka börn vegna Samherjamálsins svokallaða sem Ríkisútvarpið rekur af miklu offorsi. Það að hér er um að ræða grín, sem öll fjölskyldan sameinast við að horfa á, gerir atriðið að augljósu áróðursbragði sem beinist að börnum. Orðum hlutina eins og þeir eru þó sjálfsagt verið gagnrýnendur ásakaðir um að taka ekki gríni. Það var meðal annars gert þegar Stundarskaupið svokallaða árið 2015 birti furðulegt innslag  þar sem þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson voru í gervi illmenna sem ætluðu að eyða heiminum, með djöfullegum hlátri undir. Þetta væri kannski spaugilegt í öðru samhengi en þar sem markhópurinn er 12 ára og yngri hljóta menn að hvá við. Ríkisútvarpið endaði á að þurfa að biðjast afsökunar á atriðinu.illmenni

Nú síðast birtist blygðunarlaus áróður í jóladagatali Ríkisútvarpsins um Ranadlín og Munda. Áhorfendur fögnuðu því að Ríkisútvarpið skyldi loksins framleiða eigin jólaþátt fyrir börn en þá var hann fylltur af einhliða áróðri um flókið og viðkvæmt samfélagsmál. Talið var snjallt að hafa forstjóra Útlendingastofnunar sem gribbu og Grýlu og meira að segja börn starfsmanna stofnunarinnar dregin inn í söguþráðinn. Er virkilega ekki hægt að koma þokkalegum jólaboðskap áleiðis án svona stílbragða?

Í ljósi þessa má spyrja sig hvort Ríkisútvarpinu er yfir höfðuð treystandi til að halda úti fréttaþætti fyrir börn ef að vinstrisinnaðir starfsmenn þess geti ekki hamið sig. Ekki síst í ljósi þess að skýr krafa er um hlutleysi stofnunarinnar í lögunum um hana.íhaldsstefna

Glærusýningar kennara í framboði

Síðustu daga hafa verið opinberaðar myndir af glærum sem virðast notaðar í kennslu á framhaldsskólastigi þar sem pólitísk greining er afbökuð til þess að koma pólitískum viðhorfum viðkomandi kennara á framfæri með mjög umdeildum hætti, svo ekki sé meira sagt.

Fyrst er að nefna glæru þar sem kennari í Verslunarskólanum setti hlið við hlið fyrrum einræðisherra Þýskalands og Ítalíu, Adolf Hitler og Benito Mussolini, og hins vegar fyrrverandi forsætisráðherra Íslands Sigmund Davíð Gunnlaugsson og reyndi að láta líta svo út að þeir ættu eitthvað sameiginlegt.

Í annan stað er glæra fengin úr Menntaskólanum við Sund, þar sem Sjálfstæðisflokknum er líkt við Þýskaland Hitlers, Gestapó og útrýmingu kynþátta. „Þessar glærur eru með öllu óafsakanlegar fyrir utan hversu heimskulegar þær eru og þær eru þessum skólastofnunum til skammar, svo ekki sé meira sagt,“ skrifar Erlendur Magnússon hagfræðingur á Facebook síðu sína og er augljóslega misboðið. Eins og reyndar flestir þeir sem hafa tjáð sig um þetta nema einstaka pólitískir andstæðingar, yst á vinstri vængnum.

Segja má að skólastjórar beggja skóla hafi sett niður við reyna að afsaka málin þegar umræða hófst en báðar hafa þær sagt að glærurnar séu teknar úr samhengi! Það er einmitt samhengið sem verður til þess að fólki blöskrar.

Þessi dæmi sem hér hafa verið rakin ættu að vekja þá sem hafa með velferð skólastarfs að gera og eiga að gæta þess að börn og ungmenni sitji ekki undir áróðri í skólastarfinu og hjá Ríkisútvarpinu.