c

Pistlar:

21. janúar 2023 kl. 17:19

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Í ótryggum heimi

Mannkynssagan er full af dæmum um samfélög sem halda að þau séu komin í öruggt skjól og íbúarnir sannfærðir um að fátt geti komið hlutunum úr skorðum, framundan séu tímar áframhaldandi hagsældar og framfara. En í dag getum við í nútímamenn lesið að stundum brugðust þessar væntingar fullkomlega vegna utanaðkomandi þátta, svo sem innrása eða fólksflutninga, en oftar en ekki voru innanmeinin erfiðust.

Ekki muna margir eftir Basil II Porphyrogenitus (958 - 1025), sem var keisari austrómverska keisaradæmisins, eða Býsantíum eins og það er stundum kallað, frá árinu 976 til 1025. Þegar hann deyr var þetta miðaldaheimsveldi Rómverja á hátindi valda og auðs og Konstantínópel kölluð nýja eða önnur Róm. Andstæðingarnir höfðu verið knúnir til skilyrðislausrar uppgjafar og keisarinn þurfti jafnvel að byggja nýja fjársjóðshirslur til að geyma nýfengin auð. Eigi að síður var stutt í algert hrun sem stefndi tilveru ríkisins í voða. Meðfylgjandi mynd sýnir Basil II í viðeigandi samhengi samkvæmt samtímaheimildum.basil

Árið 1081 var keisaradæmið búið að tapa gríðarlegum landsvæðum og annars staðar voru staðbundnar uppreisnir að éta undan ríkinu. Gjaldmiðillinn hafði helmingast að verðgildi og tilvist heimsveldisins var í algeru uppnámi. Herir keisaradæmisins höfðu sundrast og allir sjóðir ríkisins tómir. Hvernig gat svona hrun og hnignun átt sér stað á stuttum tíma?

Í gjaldþrot að bestu manna yfirsýn

Sökin gæti legið hjá einum manni en auðvitað er það ekki einhlýtt, allir dönsuðu með. En Michael Psellos var ekki venjulegur maður, talinn mesti heimspekingur sinna tíðar og vissi vel af því sjálfur. Hann var fjölfræðingur eins og þeir gerðust bestir þá, kunni Ilionskviðu utan að og þekkti mjög vel til verka Plató sem þá var nánast óþekktur á Vesturlöndum. Hann var diplómati í sér, ráðgjafi keisara og sagnfræðingur. En þrátt fyrir góðar gáfur og þekkingu voru ráð hans ekki góð, Psellos hneigðist til þess að ofmeta auð ríkisins og efndi til stjórnlausra ríkisútgjalda, sannur samfylkingarmaður sinnar tíðar! Peningum ríkisins var sóað í glæsilegar byggingarframkvæmdir, lúxuslíf fyrir keisarahirðina og gjafir og eftirlaun til þeirra sem voru í bestri aðstöðu til að biðja um slíkt. Herinn var aftur á móti vanræktur.

Það er ekki svo erfitt að skilja hvers vegna þetta gerðist. Allir vissu að keisaradæmið var auðugt og svo öflugt að það þyrfti ekki að hafa miklar áhyggjur af utanaðkomandi ógn. Arabar voru á þessum tíma sundraðir og barðir til hlýðni. Rússar sigraðir og tamdir og Búlgarar höfðu verið innlimaðir í ríkið. Svo virtist sem tekjustreymi ríkisins væri tryggt og endalaust. Nokkrum áratugum síðar virtist þetta sama stórveldi við það að verða að engu.parís

Að vera góður við alla

Ef við horfum til nútímans þá virðumst við sjá samskonar dæmi víða, ríkisútgjöld þanin til hins ýtrasta og sameiginlegir sjóðir nýttir til innistæðulausra loforða í von um að halda kröfuhópum og hagsmunaaðilum góðum. Þetta sést glöggt í Frakklandi þessa daganna þar sem gegnumstreymissjóður ríkisins lofar Frökkum að fara á eftirlaun um og í kringum 60 ára aldur. Þegar reynt er að þoka þessum viðmiðum upp, hugsanlega upp í 64 ára aldur, af því að allar tryggingafræðilegar reiknireglur segja það nauðsynlegt, verður allt vitlaust. Frakkar streyma að götuvígjunum, ekki til að biðja um jafnrétti, frelsi og bræðralag, heldur að fá áhyggjulaust ævikvöld á kostnað barna sinna og barnabarna. Við horfum á fólk í París segja fréttamönnum að þeir vilji fá að njóta lífsins og fá þann lífeyri sem þeim ber. Í hjarta sínu vita Frakkar að þessi eftirlaunaloforð ganga ekki upp en þeir horfa framhjá því. Gegnumstreymiskerfið þarf að byggja á sátt milli kynslóða en núverandi kynslóð Frakka ætlar sér alla kökuna.

Hér á Íslandi sjáum við sömu tilhneigingu. Sveitarfélögin eru mörg hver í afleitri fjárhagsstöðu enda búið að lögfesta þeim verkefni langt umfram eðlilega tekjustofna. Niðurstaðan verður skattpíning, óráðssía og nánast uppgjöf eins og við sjáum skýrast í höfuðborginni. Ríkisvaldið setur vandræðalaust upp útgjaldasjóð gagnvart fólki sem telur sig hafa orðið fyrir áföllum í fortíðinni og setur 10 til 15 milljarða króna í velferðarútgjöld fyrir fólk sem er fætt annars staðar. Aðgangur að íslenska velferðakerfinu verður að rétti óháð þjóðerni eða búsetu. Endalausar kvaðir eru lagðar á atvinnulífið undir formerkjum óljósra og illnáanlegra kvaða. Krónu sem eytt er þar verður ekki eytt annar staðar.

Leiðrétting eða hrun?

Með smá einföldunum má segja að öll Vestur-Evrópa sé sýkt af þessum innanmeinum, í stað þess að hafa feitar fjárhirslur eins og í Konstantínópel treysta menn á seðlaprentunarvaldið og Seðlabanki Evrópu hefur reynst haukur í horni þeirra sem vilja fjármagna sig með lánum. Umræða um veika stöðu hins alþjóðlega fjármálakerfis er aftur komin af stað í kjölfar efnahagsáfallsins sem hlaust af kórónuveirufaraldrinum og svo neikvæðum afleiðingum Úkraínustríðsins fyrir alþjóðasviðskipti og hrávörumarkaði. Aðfangakeðjur hins vestræna viðskiptatannhjóls eru við það að bresta.seðlaprentun

Beggja vegna Atlantshafsins reyndu seðlabankar og ríkisstjórnir að milda höggið af faraldrinum með vaxtalækkunum og fjárhagsstuðningi. Afleiðingarnar urðu þær að allt eignaverð hækkaði. Nú er heimsbyggðin að bíta úr nálinni með þetta og lækkun á eignaverði og stærstu hlutabréfamörkuðum hefur ekki mælst jafn mikil í áratugi. Sama má segja um verðbólguna. Nú reynir á styrkleika samfélaganna og félagsauð. Munu borgarar þessara landa upplifa samstöðu eða mun hver höndin vera upp á móti annarri?