c

Pistlar:

26. janúar 2023 kl. 21:41

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Visthryggð og loftslagskvíði

Því er haldið fram að sú umræða sem knýr loftslagsumræðuna áfram sé byggð á þekkingu og vísindum. Það átti ekki endilega við um þann fund sem haldin var í stofu 101 í Odda í gær. Þar stóð Stofnun Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun og Loftslagsleiðtoginn fyrir hádegisfundi þar sem „loftslagskvíði“ var ræddur og þá sérstaklega hvernig hægt væri að lifa með honum.

Frummælendur voru þau Sverrir Nordal rithöfundur og bókaútgefandi og Arnhildur Hálfdánardóttir, dagskrárgerðarmaður á Ríkisútvarpinu, en þau hafa fjallað um loftslagskvíða í sínum verkum. Í umræðunum á eftir voru í pallborði sálfræðingur hjá sálfræðiþjónustu Háskóla Íslands og fulltrúi háskólanema sem hafði tekið þátt í Loftslagsleiðtoganum.loft 1

Þrátt fyrir að fundurinn væri vel kynntur og fjallaði um brýnasta mál samtímans að mati fundarmanna mættu ekki nema 15 gestir þegar frá eru taldir þeir sem hlutverk höfðu á fundinum.

Það verður að segja eins og er að umræðan var ansi loftkennd og óljós, og fáar staðreyndir dregnar fram. Þess meiri var rætt um tilfinningar og líðan. Með öðrum orðum, hvernig það væri að vera altekin loftslagskvíða eins og fundarefnið hafði boðað. Gestum gafst færi á að koma með fyrirspurnir úr sal en þeir sem spurðu í stofu 101 höfðu allir á sömu bókina lært. Sérstaka athygli pistlaskrifara vakti að dr. Ásgeir Brynjar Torfason fjármálafræðingur kom með þá hugmynd í fyrirspurn að efnt yrði til byltingar vegna loftslagsmála.

Loftslagskvíðafaraldurinn

Því er haldið fram að loftslagskvíði sé orðin að faraldri hjá ungu fólki og fundarmenn voru sannarlega uppteknir af því ástandi. Við sem upplifðum það að lifa í skugga kjarnorkustyrjaldar (sem er nú ekki alveg úr sögunni) virðumst hafa notið gleðiríkra daga miðað við þá sem glíma við loftslagskvíða.

„Ég er alinn upp í kalda stríðinu. Alinn upp við óttann um enn eina heimsstyrjöld og jafnvel tortímingu. Í raun og veru var spurningin ekki hvort heldur hvenær sú styrjöld brysti á,“ skrifaði Ellert B. Schram, ritstjóri DV, í nóvember 1989 um það leyti sem Berlínarmúrinn féll. Margt annað olli fólki áhyggjum á þeim tíma. Margt samfélagslega þenkjandi fólk hafði til að mynda miklar áhyggjur af áhrifum ofbeldismynda á börn og voru um það daglegar fréttir og greinaskrif. Sjálfur fékk ég þá kennslu í menntaskóla á áttunda áratugnum að Rómarskýrslan væri áreiðanlegt vísindarit og maðurinn yrði búinn að þurrausa auðlindir jarðar eftir nokkur ár. Það hafa því gefist ýmis tilefni til þess að láta kvíðann ná tökum á sér.loft 2

Eins og bókelskt fólk man eflaust þá lét Aðalríkur höfðingi Gaulverja í Ástríksbókunum bera sig á skildi til að draga úr meiðslum sínum þegar himnarnir myndu hrynja en hann kveið þess mikið og er eiginleg ekki minnst fyrir annað.

En nútíminn er ekki til að grínast með. Rithöfundurinn Sverrir Nordal virkar reyndar glaðlegur maður að eðlisfari og vitnaði ótæpilega í nýlega bók eftir sjálfan sig, Stríð og kliður, sem hann sagði að væri skrifuð um upplifun sína um umhverfis- og loftslagsmál eftir ferðalög víða um heim. Sverrir sagði að skapandi fólki væri nauðsynlegt að lifa í ríkum og fjölbreyttum heimi og tengdi þannig sköpunargáfuna við fjölbreytileika lífríkisins. Athyglisverð hugmynd en það var ekki alltaf hægt að átta sig á því hvort Sverri væri alvara eins og þegar hann kenndi „Baby boomers“ kynslóðinni um hvernig komið væri fyrir heiminum. Hann gagnrýndi það sem hann kallaði „gagnahyggju“, að það væri hægt að bjarga heiminum með skriffinnsku. Mikilvægara væri að hugsa sjálfstætt og birti hann því til stuðnings glæru þar sem orðin „hugsa sjálfstætt“ komu fyrir með endurteknum hætti.

Fréttamenn sem aktívistar

Sverrir kallaði eftir því að fréttamenn yrðu aktívistar, tækju lofslagsmálaerindið alla leið, nánast eins og þeir væru trúboðar. Svo virðist sem dagskrárgerðarkonan á Ríkisútvarpinu, Arnhildur, hafi svarað því ákalli en hún sagðist einmitt stolt af því að fréttamenn væru í raun aktívistar. Arnhildur var þungbúnari en rithöfundurinn og sagði að þrátt fyrir að gaman væri að tala um loftslagsvísindi þá væru þau meira tabú en dauðinn. Það verður að teljast umdeilanleg fullyrðing en það er hins vegar tabú að halda uppi málefnalegum vangaveltum og spyrja gagnrýnna spurninga gagnvart þeim sem hafa sett loftslagsvísindin á stall. Þessi fundur varð því eintóna og því í „nýakademískum“ anda.

Arnhildur sagðist hafa fundið loftslagskvíða sínum farveg í dagskrárgerð sinni en hún setti meðal annars saman þáttaröðina Loftslagsþerapían sem var á dagskrá Rásar 1 fyrir þremur árum. Hlaut hún fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sem hún tók úr hendi Guðmundar Inga Guðbrandssonar, þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra, og fyrrverandi framkvæmdastjóra Landverndar. Fyrir vikið verður efnið og pólitíkin ekki aðskilin, það er gjaldið fyrir að gerast hirðmaður loftslagskirkjunnar.loft3

Dómsdagskvíði

Arnhildur var þarna mætt sem fréttamaður sem er heltekin af loftslagskvíða og vitnaði til rannsókna er birst hefðu í læknaritinu Lancet um að 60% mannkyns væru haldin slíkum kvíða. Hún sagðist meira að segjast fyllast kvíða ef það væri gott veður og skortur á aðgerðum ylli henni stöðugri angist. Hún ræddi nokkur hugtök sem gætu náð utan um þessa líðan, svo sem reiði, vonleysi, visthryggð, vistfræðilegan einmannaleika og dómsdagskvíða.

Það var auðvitað dapurt að hlusta á þetta og sorglegt að einhver skuli lifa við slíkan kvíða. Það gæti hjálpað þessu fólki að reyna að hleypa inn nýjum röddum sem nálgast loftslagsumræðuna með öðrum hætti. Eins og fyrr var nefnt hefur mannkynið áður dvalið við kvíðavænlega hluti en hugsanlega við aðra umfjöllun og fjölmiðlun.

Gallinn við þessa umræðu sem fór fram í stofu 101 í gær er að hún er hvorki upplýsandi né lausnamiðuð og því alls ekki innlegg í vísindalega umræðu. Þess í stað er henni ætlað að kasta spreki á bál áframhaldandi kvíðaástands sem svo er nýtt til að hafa áhrif á stjórnmálaumræðuna. Þannig er reynt að tryggja fjárstreymi til réttra aðila. Ég hef einnig gagnrýnt afleiðingar svona tals þegar kemur að ungum börnum. Þar ættu fjölmiðlar að fara sérstaklega varlega. Það barst lítillega í tal í gær og sálfræðingur háskólans mælti fram varfærnisleg viðvörunarorð þar. Það hlýtur að vera áskorun fyrir alla, hvort sem þeir eru haldnir loftslagskvíða eða ekki, að láta börn landsins ekki þurfa að hlusta á dómsdagspár dægrin löng.