c

Pistlar:

8. febrúar 2023 kl. 17:00

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Rís og fall bílaborgarinnar Detroit

Því er haldið fram að Rómarborg hafi á hátindi sínum haft eina milljón manna innan borgarmarkanna. Þegar hnignun borgarinnar var sem mest fór fjöldinn niður í um 30 þúsund manns. Hinar myrku miðaldir birtust að hluta til í hnignandi borgarmenningu, einfaldlega vegna þess að þær gátu ekki lengur tryggt öryggi íbúa sinna. Auðvitað er mannkynsagan full af sögum um glæsilegar borgir sem leystust upp vegna innrásaherja eða íbúarnir fluttu burt af öðrum orsökum. Þetta er heldur ekki óþekkt í nútímasamfélaginu.detroit2

Hér hefur áður verið vikið að bílaborginni miklu, Detroit sem lýsti sjálfa sig gjaldþrota árið 2013 en fjármálakreppan fimm árum áður kippti endanlega fótunum undan fjárhagsstöðu borgarinnar. Húsnæðismarkaður borgarinnar hrundi 2008.

Ris og fall bílaborgarinnar segir mikla sögu. Þar má lesa breytingu í atvinnuháttum en bílaiðnaður Bandaríkjanna átti þar sitt heimilisfesti en á tímabili þurfti bílaiðnaðurinn á miklum fjölda vinnandi mann að halda og borgin kölluð Motor City (eða Motown). Henry Ford reisti verksmiðjur sínar þarna og hinar gríðarstóru verksmiðjur veittu ófaglærðu sem faglærðu fólki mikla vinnu. Bílaiðnaðurinn laðaði að sér þúsundir blökkumanna frá Suðurríkjunum. Borgin átti sína gullöld og glæsibyggingar risu og borgarbúar létu nánast allt eftir sér. Listalíf var fjörugt og borgin þekkt fyrir mikinn fjölda tónlistarmanna.

En olíukreppan hjó í bandaríska bílaiðnaðinn og síðar samkeppni við nýja framleiðendur og síðustu áratugi hefur iðnaðurinn stöðugt gefið eftir. Bandarísku bílarisarnir eru í dag ekki nema svipur hjá sjón og Tesla, nýjasti stórframleiðandinn í Bandaríkjunum, lætur sér ekki detta í hug að hefja framleiðslu þar enda framleiðslueiningar þeirra byggðar upp með allt öðrum hætti en tíðkaðist í bílaborginni.detroit3

Herinn sendur inn til að skakka leikinn

Um leið og bílaiðnaðinum hnignaði jukust stéttandstæðurnar og félagslegur ójöfnuður tók að birtast með skýrum hætti sem um leið jók á spennuna. Kynþættirnir skýrðu línurnar og blökkumenn upplifðu sig sem útundan og töldu sig þurfa að þola órétt og ofbeldi af hálfu yfirvalda. Smám saman fór aðgreining kynþáttanna að verða meira áberandi og hverfi blökkumanna urðu að uppsprettu ofbeldis, fátæktar og félagslegra vandamál. Þjóðfélagsátökin birtust strax á sjöunda áratugnum, á tíma Lyndon B. Johnson sem forseta, sem sá sig knúinn til að senda herinn á vettvang árið 1967 til að ná aftur yfirráðum í sumum hverfum borgarinnar þegar lögreglan var ráðþrota. Að endingu lágu 43 í valnum og yfir 400 særðust í átökum sem stóðu yfir í fimm daga. Eru þetta taldar einhverjar verstu kynþáttaóeirðir sem orðið hafa í Bandaríkjunum.

Á efnisveitu Stöðvar 2 má finna athyglisverðan þátt, Inside Detroit, þar sem sjónvarpsmaðurinn Ben Fogle heimsækir borgina og skoðar ástand hennar og rýnir í söguna. Borgin nær yfir um 360 ferkílómetra eða þrisvar sinnum það svæði sem San Francisco tekur undir sig. Í myndinni kemur fram að Detroit var talin ríkast borg Bandaríkjanna á sjöunda áratugnum en síðan hefur um ein milljón íbúa yfirgefið hana. Í myndinni er talað um exodus eða flóttann mikla og borgin er víða eins draugabær enda mjög gisin í úthverfunum. Í miðbænum má finna nýtískulega skýjakljúfa en úthverfin töpuðu. Þegar fólkið fór var ómögulegt að halda uppi þjónustu, svo sem að halda við innviðum og tryggja löggæslu og brunavarnir.detroit1

Fogle skoðar hverfi ríkmannlegra húsa með heimamanni en mörg voru yfirgefin fyrir innan við 10 árum en láta nú stórlega á sjá. Var þannig dapurt að sjá ástand heilu hverfanna. Einnig heimsótti hann gagnfræðaskóla sem hafði verið með þrjú þúsund nemendur og hafði augljóslega verið byggður af miklum efnum. Nú er hann yfirgefin sem og um hundrað aðrir skólar af líkum ástæðum og er þetta örugglega helsta skýring þess að í sumum blökkumannahverfum er helmingur íbúa ólæsir.

Krakk og manndráp

Glæpatíðni rauk upp samhliða hnignun borgarinnar og byssueign jókst mjög. Árið 1974 voru um 800 manns drepnir í borginni og krakkkókaín flæddi um stræti og torg. Glæpagengi tóku yfir heilu hverfin og átök milli þeirra gerðu götur og leikvelli að stórhættulegum svæðum, hræðilegir glæpir voru framdir og yfirvöld stóðu ráðalaus. Upp úr 1970 fór Djöflanóttin (Devel’s night) að fara úr böndunum en hún hafði lengi tengst Hrekkjavöku. Þá voru um 1000 íkveikjur víða um borgina og ekki var við neitt ráðið. Rapparinn Esham sendi frá sér lagið „Devil's Night“ árið 1993 þar sem hann fjallar um þessa atburði og það birtist í kvikmyndinni The Crow frá árinu 1994.detroit4

Það var upphaflega hvítt fólk sem tók að flytja í burtu, það hafði bestu möguleikana á að koma sér fyrir annars staðar og er talað um „hvíta flóttann“.

En Fogle reynir að finna einhverja jákvæða þætti og sumstaðar má sjá tilraunir til að berjast gegn strauminum. Sumir íbúar hafa myndað með sér samtök og reynt með sjálfboðaliðastarfi að bæta ástandið en allt er það heldur vanmáttugt. Yfirgefin hús og auðar lóðir hafa gefið sumum færi á að hefja einhverskonar búskap en það er rekið sem hugsjónastarf og virðist ekki líklegt til að skapa mörg störf þó það verði að teljast ánægjulegt að sjá. Detroit má sannarlega muna fífil sinn fegri.