c

Pistlar:

27. febrúar 2023 kl. 19:55

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Heita Ísland og lág laun

Fyrir skömmu heimsótti ég baðstaðinn Sky Lagoon í fyrsta sinn. Mér fannst verðlagið hátt en það var einstaklega vel að öllu staðið þarna og merkilegt að velta fyrir sér uppbyggingu og rekstri baðstaðarins. Það dylst engum að þarna er um að ræða gríðarmikla fjárfestingu en fremst á Kársnesinu í Kópavogi er nú risin manngerð „náttúrusmíði“ sem virðist njóta mikilla vinsælda ef marka má aðsóknina daginn sem ég kom þarna. Nú þegar staðurinn er í fullum rekstri má ætla að hann hafi traustar fjárhagslegar undirstöður en ekki var að sjá annað en að hann væri þéttsetin allan daginn og sé horft til þess að ætla má að gestir skilji að meðaltali eftir um 10 til 15 þúsund krónur í heimsókn þá ættu eigendur að geta brosað.sky la

Erlendir fjárfestar

Mitt í umræðu um lág laun í ferðaþjónustu er áhugavert að velta fyrir sér fjárfrekum verkefnum af sama tagi og Sky Lagoon er en erlendir fjárfestar eiga um 80% í fyrirtækinu. Fjárfestingar af þessu tagi virðast geta skilað mikilli arðsemi og geta án efa borgað ágæt laun á sumum sviðum. Skýrasta dæmið er auðvitað Bláa Lónið sem hefur skilað gríðarlegri arðsemi undanfarin áratug og byggt upp eitt verðmætasta vörumerki landsins. Arðsemi og geta til að greiða há laun mótast að nokkru leyti af gerð fjárfestinga og umfangi þeirra. Við höfum séð undanfarin ár að að það hefur verið fjárfest í dýrum hótelum og fjölbreyttri afþreyingu. Fimm stjörnu hótel eru að verða algengari hér en áður en þau greiða hærri laun en önnur og kalla á nýja tegund ferðamanna.

Í Fljótunum fyrir norðan er risið hótel sem er ætlað ferðamönnum með aðra og meiri greiðslugetu en við eigum að venjast. Inni í Eyjafirði, náðartiltekið við Grenivík, er að rísa annað hótel af líku tagi. Bæði þessi verkefni styðjast við erlenda fjárfesta, rétt eins og á við um Sky Lagoon og Marriott hótelið við höfnina. Allar þessar framkvæmdir eru til marks um ákveðnar breytingar sem eru að verða hér á landi. Um leið er verið að þróa afþreyingu sem byggist ekki eingöngu á náttúru landsins, svo sem svifbraut við Hveragerði og íshellir í Langjökli. Verkefni af því tagi byggjast á aðkomu öflugra fjárfesta.sky2

Heita vatnið er auðlind

En heita vatnið er sem fyrr mesta auðlindin. Eins og orkuverð er orðið í Evrópu er ljóst að heitt vatn verður að fara sparlega með. Þess meira undur er að komast í íslenskt bað eins og ég sá af viðbrögðum gesta í Sky Lagoon. Þeir undruðust auðvitað allt það magn af heitu vatni sem rann í gegnum kerfið og satt best að segja undraðist ég það sjálfur, heimamaðurinn, að þetta væri hægt að gera þarna yst á Kársnesinu. En virðist vel heppnað að öllu leyti, meðal annars vegna góðs skipulags. Þegar brú verður komin á milli Kársnesins og Reykjavíkurflugvallar verður en auðveldara að selja þjónustuna. Það er auðvitað heppilegt ef hægt er að selja mikla afþreyingu hér á höfuðborgarsvæðinu.

Heit böð eru víða á dagskrá en nú þegar eru að finna slík við Húsavík, í Eyjafirði, við Egilsstaði, í Borgarfirði, á Laugarvatni og Flúðum fyrir utan þau sem hafa verið nefnd hér að framan. Auk þess eru uppi áform um böð í Önundarfirði, á Reykjanesi og inni í Þjórsárdal. Sjálfsagt er ég að gleyma einhverjum verkefnum en öll þessi áform sýna þau tækifæri sem eru fyrir hendi hér á landi til að fjárfesta í ferðatengdri þjónustu og þá greiða um leið hærri laun.