c

Pistlar:

3. mars 2023 kl. 17:01

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Óhreini þvotturinn

Í íslenskri samfélagsumræðu hefur undanfarin misseri verið mikil umræða um svokallað Samherjamál sem er reyndar kennt við Fishrot suður í Namibíu þar sem það er upprunnið. Málið hefur undið upp á sig með margvíslegum hætti og einn angi þess tengist meintri byrlun á hendur Páli Steingrímssyni skipstjóra á Akureyri og hefur verið til rannsóknar hjá lögreglunni um alllangt skeið. Vegna þess máls sérstaklega eru að minnsta kosti fjórir fjölmiðlamenn með stöðu sakbornings þótt það mál tengist ekki efnislega upphaflegu ávirðingunum eins og þær komu frá Namibíu.

Á meðan málin hafa verið til rannsóknar hafa verið allskonar fregnir af því og nú síðast var það til umfjöllunar í fjölmiðlum í Noregi og Englandi sem hefur meðal annars haft í för með sér einstaka og niðurlægjandi afsökunarbeiðni frá norska blaðinu Aftenposten til handa Samherja og starfsmönnum fyrirtækisins. Tveimur sólarhringum frá því afsökunarbeiðnin var birt í Aftenposten höfðu aðeins Morgunblaðið og bloggarinn Páll Vilhjálmsson fjallað um hana hér á landi. Umræddur Páll varð vel að merkja að verja sig fyrir meiðyrðamáli tveggja blaðamanna úr sakborningahópnum fyrir dómi fyrr í vikunni en hann hefur fjallað mikið um þetta mál. Það sýnir hve víða angar málsins teigja sig. Nú síðdegis á föstudegi er umfjöllun um málið á Vísi, byggð á frétt á heimasíðu Samherja.aftenposten_insikt_mars2023_650

Einn höfuðgalli þessa Samherjamáls, út frá sjónarmiðum upplýstrar umræðu og blaðmennskunnar, er að þeir sem eiga í hlut eru sjálfir að flytja fréttir af málinu. Oftar en ekki hafa viðkomandi fjölmiðlamenn og þeirra samstarfsmenn fjallað einir um málið. Því miður hafa aðrir fjölmiðlar veigrað sér við að skoða málið sjálfstætt og umræða um það því orðið á forsendum viðkomandi sakborninga, sem vel að merkja hafa sjálfir í jafnan amast við því að menn með slíka stöðu séu virtir viðlits. Sumir blaðamenn hafa nálgast málið eins og um það verði að fjalla á forsendum einhverskonar stéttarvitundar, að þetta snúist um samstöðu blaðamanna.

Það hlýtur að vera umdeild nálgun sé horft til hagsmuna almennings sem hlýtur fyrst og fremst að eiga rétt á sannleikanum í málinu og engu öðru. Það sem gerðist á ritstjórn Aftenposten er merkilegt vegna þess að þar reyndust menn hæfir til að líta á efnisatriði málsins og byggðu að lokum afsökunarbeiðni á þeim staðreyndum sem lágu fyrir. Skipti engu þó það væri sársaukafullt fyrir blaðið sem taldi allar starfsreglur hefðu verið brotnar við umfjöllunina og hefur nú beðist afsökunar á því. Afsökunarbeiðni Aftenpostens sýnir styrk miðilsins, þegar honum verður á, þá bregst hann við. 

Ákall um umfjöllun

En það virðist eftirspurn eftir upplýstri umræðu um málið hér á Íslandi, hver svo sem svarar því ákalli. Hér skulu rakin nokkur ummæli úr samfélagsumræðunni síðasta sólarhringinn sem sýna vel að margir eru hugsi yfir vendingum þess:

Björn Bjarnason fyrrverandi menntamálaráðherra:
„Það er ótrúlegt að vandað blað eins og Aftenposten detti í þennan forarpytt. Að fjölmiðlamenn hér telji sér sæma að mata erlendan blaðamann á röngum upplýsingum af þessu tagi er aðeins enn eitt sorglega dæmið sem tengist þessu máli öllu, áfellismáli fyrir íslenska fjölmiðla. Líklega hefur átt að fá þetta birt í virðulegu norrænu blaði til að réttlæta það sem um Samherja hefur verið sagt í fréttum hér, meðal annars í sjálfu ríkisútvarpinu. Það er margt í þessa veru og fylgir birtingu gjarnan oflæti frekar en afsökun. Á dögunum birti BBC World Service frásögn af Fishrot hneykslinu í Namibíu (hér á landi kallað Samherjamálið) og þar var Samherja frekar lýst sem leiksoppi en geranda í einhverju mesta pólitíska spillingarmáli í sögu Namibíu.“

Magnús Þór Hafsteinsson rithöfundur og fyrrverandi alþingismaður: 
„Ja hérna hér. Þetta er einn mesti blaðamennskuskandall sem ég man eftir í norskri fjölmiðlun - ef ekki sá mesti. ... Það hljóta að fjúka hausar eftir þetta á ritstjórninni hjá þeim. Norskir miðlar eru ekki vanir að gera í bólið sitt með þessum hætti og allra síst Aftenposten sem er mjög virtur miðill.“

Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður:
„Skítt hjá Lasse Skytte! Lasse Skytte sjálfstætt starfandi blaðamaður fékk birta í Aftenposten í Noregi grein um spillingu á Íslandi. Greinina byggði Lasse Skytte á spjalli við Þórð Snæ blaðamann og annan ritstjóra Heimildarinnar, og félagsmann í Blaðmannafélagi Íslands, formann þess félags, Sigríði Dögg Auðunsdóttir, Atla Þór Fanndal framkvæmdastjóra Transparency International á Íslandi og Jóhannes Stefánsson uppljóstrara. 
Lasse Skytte dró þá ályktun af spjalli sínu við þetta ábyrga fólk að Ísland væri spilltast Norðurlanda. 
Nú hefur ritstjóri Aftenposten beðist afsökunar á þessum skrifum Lasse Skytte og kveðst hafa brugðist, þar sem ekki hafi verið farið eftir venjum um góða starfshætti við birtinguna.
Þórður Snær, sem vill hefta tjáningarfrelsi Páls Vilhjálmssonar bloggara, lagði bút úr greininni fram fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur, til að styðja kröfu sína um að tiltekin ummæli Páls um hann verði dæmd dauð og ómerk. 
Páll setti ummæli sín um Þórð Snæ fram í skrifum um blaðamenn og umgengni þeirra um eigin siðareglur. Kannski voru skrif Kjarnans og Stundarinnar um ,,Skæruliðadeild Samherja” að því er virðist að undirlagi RÚV jafn skít og skrif Skytte um spillingu á Íslandi.“

Ingunn Björnsdóttir lyfjafræðingur og háskólakennari: 
„Innsikt Aftenpostens þennan mánuðinn var áhugavert, í ljósi þess hver forsíðufrétt síðasta mánaðar var. Ritstjóri Innsikt á skilið hrós fyrir að axla myndarlega ábyrgð á því að hafa farið á svig við eigin vinnureglur. Hún biðst í Innsikt þessa mánaðar svo einlæglega afsökunar að enginn þarf að velkjast í vafa um að þessi afsökunarbeiðni er sett fram af heilum hug.“

Ólafur Adolfsson lyfsali á Akranesi svarar Ingunni:
„Ingunn Björnsdóttir verður áhugavert að sjá viðbrögð blaðamannafélagsins og pennavina þinna á heimildinni og RUV.“

Gunnlaugur Auðunn Júlíusson, fyrrverandi sveitarstjóri og leiðsögumaður:
„Að mínu mati er þetta engin smáfrétt. Aftenposten er ekkert lítið héraðsfréttablað. Það er einn af stærstu fjölmiðlum Noregs. Hvað skyldu þeir gera, sem vitnuðu í febrúargreinina sem dæmi um erlenda umfjöllun um spillingu á Íslandi, og sönnun á að hún væri mikil og víða að finna?“

Það er því ekki nema von að margir líti á þetta mál sem prófstein fyrir blaðamennsku á Íslandi en hún hefur legið undir ámælum um að vera pólariseruð og á valdi pólitísks aktívisma, fremur en að hún sé stunduð með sannleikann að leiðarljósi. Til að ná áttum verða menn að temja sér hógværð og auðmýkt fyrir því þegar mistök eru gerð eins og á við um ritstjórn Aftenpostens.