c

Pistlar:

11. mars 2023 kl. 9:27

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Alþingi og grunngildi blaðamennskunnar

Í vikunni var efnt til umræðu um fjölmiðla á Alþingi að frumkvæði Jódísar Skúladóttur, þingmanns Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í norðausturkjördæmis. Jódís spurði menntamálaráðherra eftirfarandi spurningar: „Hver er geta fjölmiðlanna til að verja fjölmiðlafólk sem fjallar um erfið mál fyrir áreiti og/eða hótunum sökum vinnu sinnar, sér í lagi þegar efnisdrög snúa að valdamiklum einstaklingum eða fyrirtækjum sem nota skoðanamyndandi aðferðir til að hafa áhrif á samfélagsumræðuna eins og nýleg dæmi sýna?“ Að baki spurningunni ríkir sú sannfæring að blaðamenn séu fyrst og fremst tæki í stéttabaráttunni. Jódís hlýtur Því að gleðjast yfir nýjustu jurtinni á akri fjölmiðlanna, Samstöðin, sem er í eigu Alþýðufélagsins ehf. Sem enginn veit hver á, allra síst Fjölmiðlanefnd.

Fimmtán þingmenn úr flestum flokkum tóku til máls í umræðunni og þar á meðal menntamálaráðherra sem upplýsti að í ráðuneytinu væri nú unnið að nýrri fjölmiðlastefnu. Svo vill til að 30. mars fyrir ári síðan var efnt til keimlíkrar umræðu eins og var fjallað um hér í pistli á þeim tíma. Sumir þingmenn virtust endurflytja ræður sínar, að hluta eða í heild, enda er umræða sem þessi nokkuð fyrirsjáanleg, allir draga að borðinu áherslupunkta sína og blanda síðan inn ræður sína einhverju úr dægurumræðunni. Allir virtust þingmennirnir hafa áhyggjur af þróuninni enda flestir ræðumenn teknir að eldast. Rétt eins og fyrir ári síðan var gert mikið úr því að staða fjölmiðla á Íslandi væri verri en á hinum Norðurlöndunum sem er fullyrðing sem byggist á umdeildri aðferðafræði eins og undirritaður fór rækilega yfir í þremur pistlum síðasta haust. Þingmenn virðast lítt hafa áhuga á að kynna sér slíkar vangaveltur. Þar taka skoðanir þekkingu fram.blöd

Falsfréttir og upplýsingaóreiða

Þegar rætt er um fjölmiðla er margt undir, almenn sýn á tjáningarfrelsi og mannréttindi en þar eru fjölmiðlar óumdeilanlega mikilvæg verkfæri til að tryggja þessa grunnstoðir samfélagsins. Um leið blasir við að fara yfir starfsumhverfi fjölmiðla og lagaumgjörð í umræðu sem þessari. Píratar vildu ræða samskipti fjölmiðla og lögreglu sem er nokkuð fyrirsjáanlegt og Sjálfstæðismenn haka í boxið og víkja að stöðu Ríkisútvarpsins. Að sjálfsögðu eru falsfréttir og upplýsingaóreiða nefnd en allir virðast vera sammála um þau fyrirbæri séu stöðugt að aukast! Skyldi það á einhvern hátt tengjast þjóðfélagi sem er skautaðra og deilir meira nú en áður um ýmis grunngildi samfélagsins?

Það dylst engum að rekstrarstaða fjölmiðla er erfið og hefur verið lengi. Samfélagsmiðlar nútímans hafa steypt undan tekjumódelum þeirra um leið og yngra fólk er ekki tilbúið að ganga inn í fjölmiðlaneyslu þeirra eldri. Þetta á við um fjölmiðla sem og aðra afþreyingar- og skemmtimiðla. Að sumu leyti virðast tæknibreytingar móta starfsumhverfi fjölmiðla meira en annarra stétta. Við sem náðum að upplifa innkomu tölvutækninnar í þennan heim munum áhrif þess á nokkrar starfsgreinar prentara. Stétt setjara þurrkaðist til dæmis út þegar blaðamenn tóku að slá sjálfir inn efni sitt.

Að varðveita grunngildi blaðamennskunnar

Þegar litið er yfir umræðuna á Alþingi er ekki hægt annað en að undrast að sumu leyti þekkingarleysi þingmanna á hreyfiafli og breytingum í umhverfi fjölmiðla og ekki síður á þeim málum sem skjóta upp kollinum. Þannig gat málshefjandi ekki farið rétt með mál sem tengt var „skæruliðadeild“ Samherja og kallaði hana að sjálfsögðu „skrímsladeild“ (svo!). Fyrir utan að hún skyldi augljóslega ekki þá undirliggjandi þætti sem eru að verki í málinu og lúta að ýmsum grunngildum blaðamennsku og starfsaðferðum blaðamanna.aftenposten_insikt_mars2023_650

Við vorum rækilega minnt á það þegar úttekt norska blaðsins Aftenposten birtist fyrir stuttu þar sem blaðið baðst afsökunar á umfjöllun sinni um íslensk málefni en ekki síður vinnubrögðum eins og vikið var að hér í pistli. Meðhöndlun Aftenpostens á málinu sýnir að þar hafa menn skilning á grunngildum blaðamennsku, þar sem frumskyldan er að segja satt og rétt frá en ekki blanda fréttum inn í einhverskonar samfélagsfrásagnir þar sem sjónarhorn sögumannsins skiptir eitt máli. Þögn íslenskra fjölmiðla og fjölmiðlamanna um málið er einnig sláandi en enginn áhugi virðist vera meðal þeirra að kafa ofaní hvað fór úrskeiðis þrátt fyrir að margir af fyrirferðamestu fjölmiðlamönnum landsins hafi komið að málinu. Auk þess berast fréttir að umræddur blaðamaður, Lasse Skytt, starfi héðan frá Íslandi sem gerir málið enn forvitnilegra.

Eftir að hafa starfað við fjölmiðla í bráðum 40 ár er maður hættur að undrast umræðu um fjölmiðla á hinu háa Alþingi. Málshefjandi virtist ekki vera búin að hugsa djúpt um þessi mál en kaus að baða sig í sviðsljósinu enda vitað að fjölmiðlar segja frá málinu. En spyrja má hvort almenningi sé gerður einhver greiði með slíkum málfundaæfingum?