c

Pistlar:

22. mars 2023 kl. 20:22

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ókyrrð hjá Icelandair - Pétur J. segir frá

Þessa daganna virðast ákvarðanir teknar í sölum Evrópusambandsins sem geta haft áhrif á flug til og frá Íslandi. Það er sérkennilegt til þess að hugsa að svo mikilvægt mál sé ekki á okkar eigin forræði en samgöngur fólks til og frá landinu byggjast nánast eingöngu á flugi. Ljóst er að öll takmörkun eða kostnaðaraukning á því getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir efnahag og sjálfstæði landsins. Flugið er okkar lífæð og mikilvægi flugsins fyrir eyþjóð eins og okkur hefur margoft verið rakið hér í pistlum. Flugið er undirstaða ferðaþjónustunnar, okkar stærstu útflutningsgreinar í dag og því eðlilegt að hafa áhyggjur af því ef einhverjar breytingar verða þar á.Flug-i-okyrru-lofti-frontur_HQ-1000x1536

Bók Péturs J. Eiríkssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá Icelandair, „Flug í ókyrru lofti“ er merkileg heimild um flugrekstur okkar síðustu 40 árin eða svo en Pétur hóf störf í flugrekstri upp úr 1980 og gegndi ýmsum stjórnunarstöðum hjá Flugleiðum, FL Group og hjá Icelandair Group á 28 ára ferli. Lengst af var hann einn af æðstu mönnum félagsins og lykilmaður við stefnumótun þess. Undirtitill bókarinnar er „Eindrægni, ólga og leið Icelandair áfram.“ Það vísar til þess að í bókinni er greint frá ólgu og átökum innanhús og hvernig nýjar hugmyndir vekja upp andstæð sjónarmið svo að oft hriktir í stoðunum. Um leið segir Pétur frá aðkomu nýrra eigenda sem hann gagnrýnir fyrir að hafa komið stefnulausa að félaginu og þannig skapað óstöðugleika og ýtt frá góðum stjórnarháttum. Þannig rekur Pétur á nokkuð hreinskilin hátt hvernig staðið hefur verið að lykilákvörðunum í sögu félagsins og rekur skilmerkilega hvernig til þeirra var stofnað. Hann segir þannig kost og löst á mönnum og hvernig þeir komu að ákvörðunum og hvaða sjónarmið tókust á.

Bók Péturs er áhugaverð lesning og hlýtur að vera fagfólki í flugrekstri ómetanleg úttekt á hvernig staðið hefur verið að rekstri Icelandair og hvernig félaginu hefur tekist til við að takast á við síbreytnilegan veruleika flugrekstrar. Pétur heldur sig algerlega við flugheiminn og skoðar hann út frá þeim ákvörðunum og áskorunum sem hafa steðjað að Icelandair í gegnum tíðina. Pétur var markaðsmegin í tilverunni og rekur ágætlega hvernig slík sýn getur rekist á við önnur sjónarmið og ekki er annað hægt en að fallast á rök Péturs um að farsælast sé að horfa á rekstur út frá þörfum neytandans.

Boeing-félag

Sumum kann að þykja frásögn Pétur smásmuguleg á köflum en hann rekur ítarlega ýmsar stöður sem komu upp í rekstrinum, sérstaklega þegar kom að breytingu á flugvélaflota félagsins. Sumt í þessum lýsingum er aðeins fyrir innvígða og hefur kannski ekki mikla almenna skírskotun. En það styrkir hins vegar upplýsingagildi bókarinnar fyrir þá sem hafa áhuga á stjórnun og stefnumótun í þessum rekstri enda hvarflaði að manni að hún ætti að geta nýst sem kennslurit í slíkum fræðum. Vangaveltur Péturs eru yfirleitt vel rökstuddar enda maður sem hefur notið mikillar virðingar í flugheiminum og valist til margvíslegra trúnaðarstarfa.

Það er óhætt að segja að fátt hafi meiri áhrif á rekstur flugfélags en stýring á flugflota þess. Icelandair hefur í gegnum tíðina verið traust Boeing-félag og nánast eingöngu notast við vélar þaðan á starfsskeiði Péturs. Það var þó síður en svo sjálfgefið og Pétur upplýsir fyrirætlanir sem hann var búinn að leggja fyrir stjórn félagsins um að taka Airbus-vélar inn í fraktflugsflota þess. Það varð ekki og telur Pétur það augljóslega mistök. Enn í dag munu stjórnendur Icelandair vera með höfuðverk vegna framtíðarskipan flugflotans sem þarf að taka ákvörðun um á eins til tveggja áratuga fresti þó 737 Max-kaupin hafi að lokum leysts þokkalega farsællega.

Einnig fer Pétur vandlega yfir uppbyggingu leiðarkerfis félagsins og hvernig það hefur tekið breytingum í gegnum tíðina. Flugvélakosturinn verður að falla að leiðarkerfinu og þarna á milli eru flókin og oft á tíðum vandasömu atriði sem þarf að horfa til. Pétur ver miklu plássi í að útskýra það.peturj

Endalausar áskoranir

Flugrekstur býr við endalausar áskoranir og margir telja að það séu aðeins áhættusæknustu fjárfestarnir sem sækja þangað inn. Það er hins vegar merkilegt hvernig þó hefur tekist til við að halda þokkalegri samfellu í rekstri Icelandair og forvera þess. Það var aðeins í kringum bankahrunið sem lánadrottnar gengu að félaginu. Pétur telur ekki að annað hafi verið hægt þar sem þáverandi hluthafar gátu ekki stutt við reksturinn en í ljósi þess að nýir eigendur (bankarnir og slitabú þeirra) komu ekki inn með mikið nýtt hlutafé þá verður ekki séð að það hafi verið með fullu sanngjarnt að taka félagið af þáverandi eigendum. Það hefur verið þrálát saga að þáverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon hafi krafist þess að það yrði gert.

Pétur rifjar upp orð Harðar Sigurgestssonar, stjórnarformanns Icelandairs og fyrrverandi fjármálastjóra félagsins, sem spurði stjórnendur félagsins gjarnan hvað þeir ætluðu að gera þegar kreppan kæmi þegar þeir lýstu útrásaráformum sínum. Lokakafli bókarinnar heitir enda „Þegar kreppan kemur.“ Það á vel við en Pétur rekur með skýrum hætti hvað þarf að horfa til þegar teknar eru ákvarðanir um vöxt á starfsemi flugfélags. Augljóslega hafa stjórnendur félagsins haft mestan áhuga á innri vexti en síðar þegar nýir eigendur og nýjar stjórnir komu að félaginu þá var frekar farið að horfa til ytri vaxtar með oft heldur lítt ígrunduðum uppkaupum sem því miður sköðuðu fjárhag félagsins til lengri tíma.

Sumum kanna að þykja forvitnilegast að lesa lýsingar á þeim átökum sem urðu í kringum innkomu Hannesar Smárasonar og þegar félagið varð að leiksoppi í viðskiptaflækjum þeim sem urðu í aðdraganda bankahrunsins þegar sjónarmiðum rekstrarmanna var vikið til hliðar vegna endalausra viðskiptaflétta sem áttu að skila miklum peningalegum hagnaði en gerðu það ekki þegar upp var staðið.

Lokaorð Páls eru líklega sláandi við baráttuna og það sem að var stefnt með endalausum skipulagsbreytingum samkvæmt því sem hann rekur svo nákvæmlega í bók sinni: „Í fluginu byggist vöxtur oft á óraunhæfum metnaði og draumsýn. Þannig vöxtur er brothættur. Það höfum við séð á Íslandi og víðar. Hér byggist hann á raunverulegum styrkleikum félagsins. Við réðum yfir einstöku leiðakerfi sem fáir gátu hermt eftir, við bjuggum yfir virkri tekjustýringu sem hámarkaði tekjur hvort sem var á selt sæti eða brottför, við höfðum starfsfólk með breiða þekkingu og nú nutum við þess sem við höfðum svo lengi stefnt að - hagkvæmni stærðarinnar.“


Flug í ókyrru lofti (Eindrægni, ólga og leið Icelandair áfram)
Höfundur: Pétur J. Eiríksson
Útgefandi: Almenna bókafélagið
Útgáfuár: 2022
432 bls.