c

Pistlar:

24. mars 2023 kl. 11:28

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Flóttamannakrísa Breta

Hvernig stendur á því að forsætisráðherra Breta, Rishi Sunak, sem sjálfur er komin af innflytjendum, berst nú fyrir hertum aðgerðum í innflytjendamálum? Svona hljóma spurningar margra í heldur ráðvilltri umræðu um innflytjendamál í þessu fyrrum heimsveldi. Bretland hefur síðustu 50 ár eða svo stefnt hröðum skrefum að því að verða fjölmenningarlegt land, byggt fólki úr öllum kimum heimsveldisins, regnbogaríki ef því er að skipta og menning landsins nýtur á margan hátt góðs af því. Það er pistlaskrifara minnistætt þegar hann kom fyrst til London 1985 og undraðist mannhafið og samsetningu þess. Það var áhugaverð og skemmtileg upplifun.flótti

En núna finnst mörgum Bretum nóg komið og telja að stemma verði stigum við ólöglegum innflytjendum og að ná verði tökum á flóttamannastraumi til landsins. Fyrir ári síðan kynnti Boris Johnson, þáverandi forsætisráðherra, samstarfi við stjórn Rúanda í Afríku um móttöku flóttamanna. Átti samstarfið að felst í því að hælisleitendur, sem koma til Bretlands sem laumufarþegar í vörubílum eða á litlum bátum, yrðu fluttir til Rúanda. Þar áttu þeir að dvelja á meðan hælisumsóknir þeirra væru teknar til meðferðar. Þessari áætlun var harðlega mótmælt og hefur ekki komið til framkvæmda frekar en líkar áætlanir í Danmörku. En um leið hefur streymi flóttamanna aukist og vandinn við móttöku þeirra líka.

En áhyggjurnar eru ekki bara í þessum löndum, í Þýskalandi sýndi nýleg könnun að 59% landsmanna telja landið ekki geta hýst fleiri flóttamenn. Kannanir sýna að margir óttast að tilheyra brátt minnihluta í eigin landi. Hollenski félagsfræðingurinn Maurice Crul sagði í samtali við dagblaðið Der Welt nýlega að það væri einmitt það sem væri að gerast í Þýskalandi og víðar en taldi það ekki svo slæmt sem er auðvitað umdeild fullyrðing. Þó augljóslega séu hlutirnir að breytast hratt óttast margir að þeir séu að gerast of hratt og efasemdir um stefnu einstakra landa og Evrópu alls í innflytjendamálum aukast.uk-map-europe-english-channel

Öll hótel full

Kostnaðurinn af móttöku flóttamanna og hælisleitenda eykst stöðugt. Talið er að í Bretlandi sé nú 50.000 hælisleitendur sem dveljast á 400 breskum hótelum. Þessi hópur hefur þrefaldast þremur árum. Spár eru um að hælisleitendafjöldinn fari upp í 70.000 á þessu ári. Því er það svo að margir Bretar spyrja; stjórnum við í raun okkar landamærum sem var ein af forsendum fyrir úrsögn Breta úr ESB. Hún átti meðal annars að auðvelda skjóta og sanngjarna afgreiðslu hælisumsókna. Allt annað hefur gerst segja leiðarahöfundar í Bretlandi. Mótsögnin er að það vantar vinnandi hendur í Bretlandi en stjórnvöld telja ekki að flóttamenn leysi þann vanda í bráð.

Það hefur reynst erfitt heima fyrir og erlendis að koma í gegn breytingum á ástandinu. Rishi Sunak hefur lent í átökum við ESB eftir að háttsettur framkvæmdastjóri varaði við því að hið umdeilda nýja fólksflutningafrumvarp hans myndi brjóta í bága við mannréttindalög. Sunak hefur sagt að það sé eitt af forgangsverkefnum hans að leysa flóttamannakrísuna, en Suella Braverman, innanríkisráðherra, hefur fullyrt að nýju lögin - sem miða að því að refsa, halda og vísa flóttamönnum úr landi - falli undir mannréttindalöggjöf. „Kerfið er bilað,“ sagði Braverman við breska þingið í haust. „Ólöglegir fólksflutningar eru stjórnlausir.“ Um málið hafa verið hörð átök heima fyrir.

Í framhaldinu átti Sunak fund með Emmanuel Macron Frakklandsforseta, þar sem tekist var á um hver ætti að greiða fyrir að stöðva báta sem flytja hælisleitendur yfir Ermarsundið. Frakkar eru á sama hátt með vaxandi vanda vegna flóttamannastraumsins sín megin en í kringum hafnarborgina Calais hafa verið flóttamannabúðir síðan á tíunda áratug síðustu aldar. Fólkið hefur hreiðrað um sig þar með Bretland sem áfangastað en skapað mikla óánægju og oft átök í nærumhverfinu.irsk

Írar reyna að stöðva strauminn í gegnum Twitter

Ekki er langt síðan írsk stjórnvöld hófu að höfða til hælisleitenda í gegnum samfélagsmiðilinn Twitter um að koma ekki, landið væri fullt. Augljóslega höfðu írsk stjórnvöld (sem fylgja stefnu ESB um opin landamæri) gefist upp á að finna húsnæði fyrir hælisleitendur, þeir eru einfaldlega of margir. Skömmu síðar sendi írska stjórnin út skilaboð á Twitter til hælisleitenda um að koma ekki, það væri ekkert húsnæði í boði. Einnig mátti lesa á RTÉ fréttasíðunni að fullorðnir og barnlausir umsækjendur um alþjóðlega vernd myndu lenda á vergangi ef og þegar þeir kæmu. Aðrir töldu að það myndi breyta borgarlandslaginu í Dublin þegar ríflega 300 hælisleitendur/útigangsmenn bættust við í hverri viku. Þeim sem eru að flýja stríðið í Úkraínu mun þó vera útvegað húsnæði.

Á árinu 2022 tóku Írar við 70.000 flóttamönnum frá Úkraínu en að auki sóttu 13.319 um alþjóðlega vernd, samkvæmt tölum sem Dublin Live hefur eftir írska dómsmálaráðuneytinu og Ingibjörg Gísladóttir þjóðfélagsrýnir hefur fjallað um á Facebook síðu sinni. Þetta eru hæstu tölur frá því að slík skráning hófst. Írar hafa kvartað yfir að margir þeirra er sækja um hæli komi ekki frá stríðshrjáðum löndum. Þannig sagði Irish Times frá því í sumar sem leið að fleiri en 1.100 íbúar Georgíu hefðu sótt um hæli á fyrstu sex mánuðum ársins. Ingibjörg rifjar upp að bæði við og Danir hættum að afgreiða umsóknir þaðan fyrir nokkrum árum, því þær voru taldar tilhæfulausar. Stöðugt fleiri koma líka skilríkjalausir með flugi sem tefur að sjálfsögðu afgreiðslu umsókna.bátur

Mótmæla opnum landamærum

Írar hafa mótmælt stefnu ríkisstjórnarinnar um opin landamæri á götum úti frá því nóvember á síðasta ári, en hún bitnar meðal annars á möguleikum þeirra til að sækja sér heilbrigðisþjónustu. Einnig mótmæla íbúar að þeir séu ekki hafðir með í ráðum þegar hælismiðstöðvar séu opnaðar í nærumhverfi þeirra. Þeir sem komi séu nær eingöngu karlmenn á besta aldri og efast menn um að yfirvöld hafi kannað bakgrunn þeirra nægilega vel og óttast um öryggi sitt og sinna. Ekki dró frétt um alvarlega kynferðislega árás sem maður einn í Belfast varð fyrir af hendi þriggja ókunnra manna er hann var úti á göngu snemma morguns fyrr á árinu úr þeim áhyggjum. Telja menn nær útilokað að þar hafi innfæddir gerendur verið á ferð. Svona atvik geta kynnt undir átök sé ekki varlega farið.

Þeir sem mótmæla ástandinu benda á að eðlilega séu takmörk fyrir öllu og góður vilji ekki alltaf nóg. Innviðir fyrir móttöku flóttamanna og aðlögun þeirra verði að vera fyrir hendi. Þá verði að vera samþykki íbúa eða einhverskonar sátt. Það komi í bakið á mönnum síðar ef stefnubreyting í flóttamannamálum breyttir samsetningu samfélagsins of hratt. Um það eru mörg dæmi, bæði í sögu og nútíð.