c

Pistlar:

29. mars 2023 kl. 21:21

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Katrín, Dostojevskí og rússneska ógnin

„Við höfum alltaf þurft að berjast við Rússa. Þeir hafa alltaf reynt að eigna sér mitt land. Rússneska keisaraveldið, Sovétríkin og svo núna," segir úkraínskur hermaður í þjálfun í Bretlandi. Þetta er sagan í hnotskurn, ógnin í Austur-Evrópu kemur úr austri og Rússland hefur verið skelfilegur nágranni í gegnum árin. En Rússland á sér merka sögu og oft á tíðum mikilfenglega menningu sem brúar að sumu leyti austur og vestur. Fyrir stuttu las ég tvær bækur á sama tíma sem veita ólíka sýn á þetta mikla land, bæði í tíma en ekki síður þegar kemur að sýn á hugmyndir og hugsjónir. Í dag höfum við nýjan áhuga á sögu Rússlands í framhaldi af framferði Rússa í Úkraínu.dost

Dr. Jón Þ. Þór sagnfræðingur gaf út bók sína um Katrínu miklu árið 2018 sem er samantekt hans á þróun Rússlands á 18. öld þegar Katrín mikla kemur til valda en hún ríkti í 34 ár, til ársins 1796. Á síðasta ári kom síðan út þýðing á bók Alex Christofi sem er nokkurskonar ævisaga skáldsins Fjodor Míkhajlovítsj Dostojevskí (1821-1881) með hans eigin orðum. Þau Katrín og Dostojevskí lifa sitthvora öldina í Rússlandi en lífshlaup þeirra veita áhugaverða sýn á sögu og þróun þessarar miklu þjóðar. Rússland er jaðarríki vestrænnar menningar en bæði Katrín og Dostojevsk tengjast menningu Vestur-Evrópu sterkum böndum og færa hana þannig inn í hina sérstöku menningu Rússlands og móta sögu landsins þó á ólíkan hátt sé.

Óvissar feðranir Rómanova

Katrín mikla er prússnesk prinsessa sem fær það hlutverk að viðhalda Rómanov ætt Péturs mikla og tryggja völd hennar. Sem er dálítið mótsagnakennt því ef marka má frásagnir Jóns Þ. Þórs þá er fullkomin óvissa um hvort nokkur í erfðaröðinni hafi verið rétt feðraður á sínum tíma. Að lokum virtust hæfileikar ráða meiru en erfðaröð þó hún hafi skapað formið fyrir valdaskiptum. Þetta er líklega dálítið mótsagnakennt en bókin útskýrir þessa faðernisóvissu með ágætum enda Jón nákvæmur á frásagnir um hirðlífið í Pétursborg.KAtrin-mikla-800x1270

Sagan hefur stundum farið háðulegum orðum um þessa óvenjulegu konu en Jón réttir hlut hennar í bókinni. Katrín teygir sig inn í upplýsinguna og tekur að sér að verða hinn menntaði einvaldur, móðir rússnesku þjóðarinnar og er umhugað að leiða þjóð sína áfram. Í þessu formi er ekkert pláss fyrir lýðræði og þjóðin er upp á náð og miskunn hinnar miklu móður komin enda samset af þegnum en ekki borgurum. Katrín uppfyllir öll skilyrði hins menntaða einvalds, víðlesin með mörg tungumál á valdi sínu og sinnir valdastöðu sinni af ábyrgð. Velur sér ráðgjafa af ábyrgð og elskhuga af ástríðu! Katrín var í persónulegum samskiptum við skáldið og hugsuðinn Voltaire og Denis Diderot, aðalritsstjóra franska alfræðiritsins og eins af jöfrum upplýsingastefnunnar. Hún studdi þá með peningagjöfum og keypti bókasöfn þeirra til varðveislu.

Katrín kom á talsverðum umbótum í rússneska keisaradæminu og vann mikla sigra í utanríkismálum segir Jón. Pétur mikli hafði opnað landið til vesturs (sem er önnur leið við að lýsa yfirgangssemi hans) og á sama hátt opnaði Katrín Rússum leið suður að Svartahafi á kostnað veikari stöðu Ottómanveldisins. Þannig færði hún út landamæri ríkisins og gerði það að evrópsku stórveldi þar sem það lék stórt hlutverk í þeirri refskák sem stunduð var næstu tvær aldir eða svo.

Landamæri og mannsandinn

Alex Christofi segir í formála bókar sinnar að Dostojevskí hafi verið svo mótsagnakenndur að bæði frjálslindir vinstrisinnar og afturhaldssamir hægrimenn hafi alla tíð talið hann á bandi óvinarins. Hann hafi aðhyllst rétttrúnað af mikilli sannfæringu þó hann hafi skrifað af djúpum skilningi um trúarlegan efa. Burtséð frá verkum Dostojevskí þá var ævi hans ansi viðburðarík en Alex Christofi fer þá leið að setja konurnar í lífi Dostojevskí í öndvegi. Það er vissulega góð leið til að skilja lífshlaup skáldsins sem var tilfinningaríkur með afbrigðum. Hann var flogaveikur spilafíkill og alltaf barmi gjaldþrots og líkamlegs áfalls og varða að þola miklar sorgir í sínu persónulega lífi. Hann fæðist inn í yfirstétt en sem ungur maður var hann dæmdur til dauða sem sósíalískur byltingasinni. Dómnum var á síðustu stundu breytt í útlegðardóm. Þegar Dostojevskí dó fylgdu tugþúsundir manna kistu hans til grafar. Fólk hélt spjöldum á lofti þar sem sagt var, „Til hins mikla læriföður“, eða „Til vinar sannleikans.“ Ekkja hans fékk lífeyri frá ríkinu. Svona hafði auðvitað ekki alltaf verið stemmningin í kringum Dostojevskí sem varð að þola hungur og fátæk með reglulegu millibili.dosti3

Á meðan Katrín mótaði og breytti landamærum ríkis síns má segja að Dostojevskí hafi haft meiri áhrif á hugsun mannsandans. Alex Christofi bendir á í eftirmála bókarinnar að á nýrri öld, þegar módernisminn hafi kollvarpað fyrri listastefnum, hafi myndast rými fyrir Dostojevskí og nýjar kynslóðir sótt í hann, bæði sem skáldsagnahöfundar en ekki síður vegna áhrifa hans á heimspeki og trúmál. Höfundar eins og Virkinía Wolf og James Joyce tóku að hampa honum og Joyce sagði að sprengikraftur Dostojevskí hefði splundrað skáldsögu Viktoríutímans.

Boðberi Rússlands

Ekki skipti síður máli áhrif Dostojevskí á aðra hugsuði. Alex Christofi segir að Sigmund Freud hafi haft mikinn áhuga á ævi og verkum Dostojevskí og látið hafa eftir sér að Karamazov-bræðurnir væri „stórkostlegasta skáldsaga sem nokkurn tíma hefði verið samin.“ Verkið kom fyrst út í tímaritinu Rússneska sendiboðanum á árunum 1879 og 1880. Karamazov-bræðurnir var síðasta skáldsaga Dostojevskís, sem hann skrifaði í kjölfar sonarmissis, en sjálfur andaðist hann einungis fjórum mánuðum eftir að hafa lokið við ritun hennar. Hann skrifaði í kapphlaupi við dauðann og var sér meðvitaður um það. Tengslin við heimspekinginn Friedrich Nietzsche eru síðan augljós en Dostojevskí hafði skrifað „að ef enginn Guð er til er allt leyfilegt“ og Nietzsche bætti við að „Guð væri dauður.“ Tilvistarheimspekin var að hluta til hönnuð af þessum mönnum og sögur Dostojevskí eiga sér jafnt sess innan heimspekinnar sem bókmenntanna.

Dostojevskí verður auðvitað ekki skilin frá bókmenntaarfi Rússa og það er magnað til þess að hugsa að tímaritið Boðberi Rússlands í Pétursborg birti á sama tíma skáldsögur þeirra Dostojevskí og Tolstoj, Glæp og refsingu og Stríð og frið. Annars vegar sálstríð Dostojevskí og hins vegar samfélagsstríð Tolstoj. Áskrifendur fengu sannarlega eitthvað fyrir aura sína. Dostojevskí skapaði harmrænar persónur og hélt því sjálfur fram að fjölskyldur Tolstojs væru allar eins á meðan fjölskyldur Dostojevskí væru allar óhamingjusamar, þó hver á sinn hátt. Skáldagallerí Rússlands er einstakt.

Hér hafa sögur þessar tveggja einstaklinga sem svo hafa mótað sögu Rússlands verið raktar saman í von um að veita betri innsýn í sögu Rússlands. Um 90 ár skildu á milli dánardægra þeirra en hlutirnir breyttust hægt í þjóðfélagsgerðinni á þeim tíma. Hugsanlega má segja að Dostojevskí hafi verið boðberi Rússlands á meðan Katrín mikla var upplýsandi Rússlands. Við vonum að Rússland nái aftur stöðu sinni meðal siðaðra þjóða.


Katrín mikla
Höfundur: Jón Þ. Þór
Útgefandi: Urður bókafélag
Útgáfuár: 2018
239 bls.

Dostojevskí og ástin (ævisaga með hans eigin orðum)
Höfundur: Alex Christofi
Þýðandi: Áslaug Agnarsdóttir
Útgefandi: Ugla útgáfa
416 bls.