c

Pistlar:

18. apríl 2023 kl. 15:04

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Skammsýni Þjóðverja í orkumálum

Þjóðverjar hafa ekki tekið skynsamar ákvarðanir í orkumálum sínum undanfarið. Um helgina lokuðu þeir síðustu kjarnorkuverum sínum og luku þar með 60 ára nýtingasögu kjarnorku í landinu. Saga sem hefur verið farsæl í alla staði og átt sinn þátt í að byggja upp lífskjör Þjóðverja. Ákall hafði verið um að fresta lokuninni og halda þessum síðustu þremur verum opnum til ársins 2033 og að opna aðra þrjá kjarnaofna aftur sem hafði verið lokað 2021. Allt kom fyrir ekki og þýsk stjórnvöld ákváðu að halda sig við áætlunina sem Angela Merkel, fyrrverandi Þýskalandskanslari, tilkynnti um þremur dögum eftir Fukushima slysið árið 2011. Á sama tíma hafa Finnar opnað 1.600 MW kjarnorkuver og telja sig þar með hafa komið orkumálum landsins á beinu brautina um leið og þeir geti uppfyllt markmið í loftslagsmálum. Líklega verða nágranar Þjóðverja og vinir að halda áfram að bjarga þeim fyrir horn í orkumálum en Frakkar efla nú kjarnorkuiðnað sinn.skynews-nuclear-power-germany_6122794

Angela Merkel hafði treyst á að gas frá Rússlandi myndi bjarga málum fyrir Þjóðverja en þeir vöknuðu upp við vondan draum þar sem þeir höfðu gert sjálfan sig háðan óvininum um lífsbjargir. Vel tókst til við að bregðast við og útvega gas síðasta vetur sem var til þess að gera mildur. Einnig skipti miklu að Bandaríkjamenn veittu þeim mikla aðstoð með því að senda jarðgas í tankskipum. Gas sem Bandaríkjamenn afla sér meðal annars með bergbroti sem er aðferð sem Þjóðverjar eru andsnúnir. Allt hefur þetta leitt til þess að Þjóðverjar treysta nú meira á kol og kolaorkuver. Verst er að brúnkolanotkun þeirra hefur aukist en þau hafa mest áhrif á koldíoxíðmagn í umhverfinu. Minnst kemur frá jarðgasinu sem bergbrotið gefur af sér. Allt sýnir þetta skammsýni sem leidd er af „hugsjónafólki“ eins og græningjum sem eiga án efa mestan þátt í að móta þessa stefnu.

Vindur og sól duga ekki

Alls hefur sextán kjarnorkuverum verið lokað í Þýskalandi frá árinu 2003. Síðustu þrjú verin framleiddu um 6% af raforkuþörf landsins á síðasta ári en um aldamótin voru 31% af raforku í Þýskalandi framleidd í kjarnorkuverum eins og kom fram í fréttaskýringu í Morgunblaðinu um helgina. Á sama tíma hefur nýting endurnýjanlegra orkugjafa, svo sem vindorku og sólarorku, aukist umtalsvert og uppfyllir nú um 46% af raforkuþörf landsins. Hvað síðan gerist þegar sólin skín ekki og vindurinn blæs ekki er óráðið.

Í fréttaskýringu Morgunblaðsins kom fram að sú þróun er ekki nægilega hröð ef Þjóðverjum á að takast að standa við markmið sín í orkumálum. Það gerir málið enn erfiðara að til stendur að loka öllum kolaorkuverum í landinu fyrir árið 2038. Nú er um þriðjungur rafmagns í Þýskalandi framleiddur í kolaorkuverum og var sú framleiðsla raunar aukin um 8% á síðasta ári til að mæta minnkandi gasinnflutningi frá Rússlandi.kjarnoirka

Verða að treysta á aðra

Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, hefur sagt að taka verði fjórar til fimm vindmyllur í notkun daglega á næstu árum til að uppfylla orkuþörfina. Það virðist ekki raunhæft markmið í ljósi þess að 551 vindmylla var tekin í notkun á síðasta ári. Þá þurfa Þjóðverjar að tvöfalda framleiðslu á sólarsellum að mati sérfræðinga. Til að reyna að liðka til hefur verið slakað á skipulagskröfum fyrir uppsetningu vindmylla en nú tekur að jafnaði 4-5 ár að undirbúa og heimila uppsetningu þeirra.

Leiðarahöfundur Morgunblaðsins vitnar í viðtal þýska blaðsins Der Spiegel Dieter Helm, prófessor í hagfræði við Oxford-háskóla. Þar segir hann: „Þjóðverjar eru ekki heiðarlegir við sjálfa sig. Þeir munu ítrekað þurfa að flytja inn kjarnorku frá Frakklandi, Belgíu eða Tékklandi. Og verði slys í grannríkjunum er enginn öruggur í Þýskalandi.“ Tveir þriðju aðspurðra í Þýskalandi vildu fresta lokuninni núna.

En nú er semsagt búið að slökkva á reykturnum Isar II, Emsland og Neckarwestheim II kjarnaofnanna að eilífu og stjórnvöld í Berlín keyra áfram á áætlun sinni um að fullu endurnýjanlega raforkuframleiðslu fyrir árið 2035. Hver trúir því að svo verði?