c

Pistlar:

20. maí 2023 kl. 16:35

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Listamenn eða pólitískir óvitar?

Sú skilgreining sem felst í orðunum „list er það sem listamaðurinn gerir“ er skemmtilegt dæmi um þær mótsagnir sem birtast umræðu um list og listamenn. Oft birtist list sem hluti menningar og sögu hvers samfélags en um leið telja listamenn að þeir séu staddir í annarri tilveru og á því tilverustigi sjái þeir glöggar hvað er að gerast í kringum okkur. Þannig afhjúpi listamaðurinn á sínum bestu augnablikum sannleikann bak við „blekkinguna“. Fyrir vikið telja sumir listamenn að þeir séu staddir í einhverskonar háborg mannkynsins og geti sent dauðlegum samborgurum sínum leiðbeiningar um hvernig á að komast úr völundarhúsi því sem þekkingarskortur þeirra og hugsanavilla skapar, þá oftar en ekki vegna neysluhyggju markaðshagkerfis nútímans. moðirin 

Auðvitað fellur stundum á þessa mynd sannleiksleitandans. Oft birtast listamenn okkur sem pólitískir navíistar, uppfullir af nauðhyggjutúlkun á efnahagslegri tilveru þeirra. 
Saga okkar geymir mörg dæmi um slíkt og á þeim tíma þegar listamenn sóttu hvað mest í marxískar hugmyndir, þá var allt leyfilegt í upplýsingaóreiðu þess tíma. Þekkt er hvernig íslenskir stalínistar tóku til varnar þegar fréttir bárust af hungursneyðinni í Úkraínu á síðustu öld. Í október 1934 andmælti Halldór Kiljan Laxness skrifum Morgunblaðsins í tímaritinu Sovétvininum og skrifaði svo eftirminnilega: „Ég ferðaðist um Ukraine þvert og endilángt í „hungursneyðinni“ 1932. Það var yndisleg húngursneyð. Hvar sem maður kom, var alt í uppgángi.“ Síðar átti Laxness raunar eftir að biðjast afsökunar á þessum ummælum í bók sinni Skáldatíma.

Það má segja að það hafi verið einhverskonar söguleg gráglettni að til þess að gera ný verðlaun, Alþjóðleg bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness, skyldu hafa fallið úkraínska rithöfundinum Andrej Kúrkov í skaut. Nú má spyrja, vissi verðlaunahafinn af virðingarleysi því sem Nóbels skáldið sýndi löndum hans á myrkustu stund þjóðarinnar?

Sextíu kíló af ábyrgðarleysi

Nú birtist okkur nýtt dæmi um sjálfsréttlætingu og sjálfsupphafningu listamanna og enn leikur Úkraínu mikilsvert hlutverk. Rússar há blóðugt árásarstríð gegn Úkraínu og hafa gert óbreytta borgara að skotmörkum með ólýsanlegum þjáningum. Evrópa og stór hluti þjóða heims fordæmir árásarstríðið og hefur sett viðskipta- og samskiptabann á Rússland, í von um að fá þá til að hugsa sinn gang. Það er erfitt að mynda samstöðu um að einangra Rússa en mikilvægt að reyna.helgas

Íslendinga hlýtur því að reka í rogastans þegar fréttir berast af markaðssókn eins okkar kunnasta rithöfundar, Hallgríms Helgasonar, inn á Rússland. Fyrir nokkrum dögum var greint frá bókakynningu í Moskvu, í bókabúðinni „Háa C-ið“ við Trubnayagötu 21. Þar ræddu Elena Dorofeeva frá Gorodets forlaginu og þýðandinn Olga Markelowa við Hallgrím um Skype, þar sem höfundurinn var staddur í Reykjavík, eins og meðfylgjandi mynd sýnir. Fulltrúi íslenska sendiráðsins í Moskvu tók þátt spjallinu. Umræðuefnið var bókin „Sextíu kíló af sólskini” sem nýlega kom út í Rússlandi og hefur að sögn fengið góðar viðtökur þar. Hallgrímur virðist þó átta sig á því tvöfalda siðgæði sem fylgir þessari útgáfu í Rússlandi og kynningu henni samfara. Hann skrifar til aðdáenda sinna: „Maður spurði sig eðlilega hvort rétt væri að gefa út bók í landi Pútíns en eftir samtöl við kollega og fleiri var niðurstaðan sú að bókmenntasamskipti væru af hinu góða, í gegnum þau forlög sem óháð eru stjórnvöldum.“ Áður hefur hann gagnrýnt samskipti sem hann virðist nú telja í lagi.

Ef að allir hugsuðu svona þá væri auðvitað tómt mál að reyna viðskiptabann á Rússa. Það þarf ekki að taka fram að áðurnefndu viðskipta- og samskiptabanni fylgja viðurlög, jafnvel þótt það sé framið af gáleysi eins og kemur fram í lögum nr. 93 frá 2008 um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða. Augljóst er að skáldið telur að refsiaðgerðir gegn Rússum nái ekki til hans. Á sama tíma berast fréttir af því að körfuknattleiksfólk okkar hafi gengið út af fundi Evrópuþings alþjóða körfuknattleikssambandsins til að mótmæla samskiptum við Rússa. Má segja að siðferði íþróttamannanna sé sýnu hærra en skáldsins.

Hin rasíska hvíta móðir

Nú er háð einhverskonar nýmarxísk hugmyndabarátta í hinum vestræna heimi og hefur hún rækilega grafið um sig í menntastofnunum og fjölmiðlum. Í þessari hugmyndabaráttu telja margir listamenn sér allt leyfilegt, list er jú það sem listamaðurinn gerir! Á síðasta ári birtist þessi hugmyndafræði meðal annars í stórfurðulegu ráni og skemmdaverki á bronsstyttu eftir Ásmund Sveinsson sem stóð á Snæfellsnesi. Marga rak í rogastans yfir verknaðinum en fljótlega kom í ljós að tvær lítt kunnar listakonur nýttu hina stolnu styttu í sitt eigið listaverk. Þær töldu ránið fullkomlega réttlætanlegt. Styttunni var komið fyrir á áberandi stað í Reykjavík þar sem fólki var ætlað að hugleiða rasíska undirtóna verks Ásmundar en það var af Guðríði Þorbjarnardóttur og nefnist Fyrsta hvíta móðirin í Ameríku. 

Flestum var verknaðurinn óskiljanlegur og hin hugmyndafræðilegu rök sem listakonurnar tefldu fram voru barnaleg enda gengur pólitískur navíismi í endurnýjun lífdaga með woke-ismanum. Fyrir þá sem sækjast eftir fagurfræði var verknaðurinn sjónræn martröð, handverk og útfærsla listakvennanna tveggja var með slíkum ósköpum að það blæddi í augu. Það kom í hlut dómstóla að tukta þær stöllur til.

Listformið „menningarbrenglun“

Nýjasta dæmið úr þessari hugmyndasmiðju nýmarxismans er útskriftarverk Odds Eysteins Friðrikssonar, sem gengur undir listamannsnafninu Odee. Það er stundum erfitt að taka glettur og sprell námsmanna alvarlega en akademían hefur þó gefið sig út fyrir að hafa litla þolinmæði fyrir óheiðarleika, falsi og hugmynda- eða ritstuldi. Allt þetta virðist Odee hafa náð að tileinka sér áður en hann útskrifast. Hver er ábyrgð leiðbeinenda hans, og rétt að spyrja hvort að hægt sé yfir höfuð að útskrifa hann vegna þess sem að ofan er nefnt?Folsud_Samherjasida.max-1200x900

Odee er rétt eins og aðrir á undan honum í leit að frægð og útskriftarverkefnið reyndist vera fölsuð afsökunarbeiðni í nafni Samherja. Verkið sem ber titilinn We're Sorry er hluti af lokaverkefni listanemans í B.A.-námi hans við Listaháskóla Íslands og verður til sýnis í Listasafni Reykjavíkur segir í frétt Ríkisútvarpsins, sem vitaskuld er spennt fyrir þessum listamanni. Tíu metra breið veggmynd með áletruninni er þar hluti af verkinu, en í heild er það sagt vera hugmynda- og gjörningaverk þar sem listformið „menningarbrenglun“ er notuð. Það er auðvitað með ólíkindum að viðkomandi skólayfirvöld skrifi upp á vinnubrögð sem þessi.

Eðlilegt er að sýna einhverja þolinmæði gagnvart barnaskap listamanna. Stundum gerist það þó að þeir verða leiksoppar fjölmiðlaumfjöllunar eins og á við nú í tilviki Odee. Það er ekki sjálfgefið að menn horfi í gegnum fingur sér varðandi svona verk þegar þau beinlínis eru hluti af áróðursstríði fréttamiðla þar sem aukaatriði eru gerða að aðalatriðum til þess að villa um fyrir almenningi eins og sést glögglega í umfjöllun um verkið.

Rauðu varðliðar woke-ismans

Það má hugsanlega ljúka þessari samantekt með smá hugmyndasögulegri greiningu. Hún segir okkur að áðurnefnd dæmi draga fram með ákveðnum einföldunum að frjálslyndi og gagnrýnin hugsun á forsendum borgaralegrar rökhyggju eru á undanhaldi. Nýmarxisminn felur það í sér að sagan endurtekur sig með þeim hætti að hinir vökulu (e. woke) hafa tekið að sér hlutverk rauðu varðliðanna í síðpóstmódernískum heimi þar sem afstæðishyggja hefur skorað sannleikshugtakið á hólm. 

Allt er þetta forvitnilegt í ljósi greiningar hins fyrirlitlega heimspekings Foucault á drottnun, eða því sem mætti skilgreina sem nokkurskonar orðræðuvald. Þá eins og það birtist sem vald yfir hugtakanotkun og dagskrármálum innan tiltekinna umræðuhefða, í gervi þess sem okkur eru seld sem „óvefengjanleg“ sannindi. Þetta birtist að hluta til í rétti ofurborgaranna til að móðgast í sínum eigin orðræðuheimi og skilja útskýringuna og afsökunina eftir á borði „gerendanna“, hvaða nafni sem þeir nefnast. Þannig verður myndhöggvarinn Ásmundur sannarlega rasískur og sjávarútvegsfyrirtækinu Samherja hefur um leið mistekist að sanna sakleysi sitt. Þess vegna verður Odee að biðjast afsökunar fyrir þeirra hönd undir formerkjum „menningarbrenglunar“. Sönnunarbyrðinni er snúið við og lykilþáttur í þessu er að stýra umræðunni. Eins og vanalega gegnir Ríkisútvarpið og þóknanlegir álitsgjafar þess lykilhlutverki í þessu leikriti öllu saman.