c

Pistlar:

24. maí 2023 kl. 13:00

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Tesla og ný lögmál á bílamarkaði

Bílaframleiðandinn Tesla fagnar 20 ára afmæli sínu á þessu ári en fyrirtækið var sett á stofn árið 2003 af verkfræðingunum Martin Eberhard og Marc Tarpenning. Fljótlega við fjármögnun félagsins kom Elon Musk inn í félagið og hefur verið andlit þess og forstjóri síðan. Um Teslu og Elon Musk hefur verið fjallað alloft hér í pistlum.

Árið 2008 kom fyrsti bíllinn, Roadster sportbíll, í sölu undir merki félagsins. Þar á eftir koma Model S fólksbíllinn, sem kom á markað árið 2012, og Model X jepplingurinn, sem kom á markað árið 2015. Roadster var framleiddur til ársins 2012 og er nú safngripur en metnaður frumkvöðlanna náði ekki til meira en að framleiða sportbíl en margir þekktir framleiðendur hafa byrjað sinn framleiðsluferil með þeim hætti. Elon Musk kom inn í fyrirtækið árið 2004 og sá aðra möguleika í stöðunni en hann lagði þá félaginu til 30 milljónir dala. Óhætt er að segja að enginn bílaframleiðandi hafi sömu áhrif á markaðinn og Tesla í dag og er þá ekki verið að ræða þá staðreynd að félagið er lang verðmætasta vörumerkið í bílaiðnaðinum og það þrátt fyrir verulegar lækkanir frá því gengi bréfa félagsins reis sem hæst í 1,2 trilljón dala.musk 2

Við þurfum ekki að horfa lengra en til Íslands til að sjá sterka markaðsstöðu fyrirtækisins um leið og rafmagnsbílar eru að taka yfir. Velta Teslu á Íslandi, dótturfélags Tesla International B.V, nam tæpum 11 milljörðum króna á síðasta ári samanborið við 8 milljarða króna veltu árið áður. Aukin velta skýrist einkum af tvöfalt meiri sölu félagsins á Model Y bílnum á milli ára. Tesla á og rekur sjálft umboðsfélög sín og eyðir litlu sem engu í auglýsingar. Þessi aukning í sölu er ekki bundin við Ísland. 

Rafhlöður og sjálfsstýring

Þegar árshlutauppgjör Teslu birtist fyrir mánuði síðan var upplýst um áframhaldandi gríðarlega uppbyggingu í rafhlöðum en Tesla hefur lagt mikla áherslu á að vera í fararbroddi þróunar þar. Félagið hyggst opna lithium rafhlöðuverksmiðju í Texas og ætla sér ár til að koma verksmiðjunni í full afköst en henni er ætlað að lækka framleiðslukostnað á rafhlöðum um 30%.

Sjálfsstýrisbúnaður hefur verið eitt af forgangsverkefnum Tesla en fyrir sex árum var fjallað um áform félagsins hér. Útfærsla þeirra, FSD (Full Self Driving), er komið svo langt að næsta útgáfa verður sú tólfta. Byggðar hafa verið upp væntingar um að hægt sé að nota hana á vegum úti og Musk hefur staðhæft að 12. útgáfan sé lokaútgáfa, að þá verði búnaðurinn tilbúinn. Vitaskuld verður haldið áfram að þróa búnaðinn en Tesla hyggst sækja um leyfi fyrir akstri án ökumanns í fjölda landa á grundvelli þess að Teslan ómönnuð sé mun öruggari en mannaður bíll. Musk fullyrðir að þeir séu tilbúnir að standast ýtrustu prófanir.

Talið er að til þess að leyfi fáist verði prófanir að sýna tölvan sé betri í öllum tilvikum en ökumaður. Greinendur telja að Tesla láti ekki reyna á prófunina fyrr en búnaðurinn sé tilbúinn.musk tesla

En það er mikið í húfi og sjálfsstýribúnaðurinn getur haft veruleg áhrif á tekjumódel Teslu. Hefur verið áætlað að hagnaður af sölu FSD búnaðarins geti verið um 20 milljarðar dollara á ári. Tesla treystir á það í tekjumódeli sínu að selja búnað og uppfærslur til eigenda Tesla-bíla eftir að þeir hafa keypt bílinn. Því sé mikilvægt að geta boðið nýjar lausnir.

Ný lögmál á bílamarkaði

Menn geta horft á Teslu með persónu Elon Musk í huga en nóg er að gerast hjá félaginu sjálfu og margt af því getur valdið stórfeldum breytingum í bílaiðnaðinum en áform eru um fleiri tegundir. Bílasala á heimsvísu er líka að taka miklum breytingum. Kína er í dag stærsti bílamarkaður heims en þar seljast nú 27 milljónir bíla á ári. Til samanburðar þá seljast um 15 milljónir bíla í Bandaríkjunum sem lengstum hefur verið langstærsti bílamarkaðurinn. Um 12 milljónir bíla seljast í Evrópu.

Þegar til þessa er litið þá skiptir miklu að í Kína eru nú 30% af öllum nýjum seldum bílum rafmagnsbílar. Þar hefur orðið veldisvöxtur á sölu rafbíla en Kínverjar sjálfir hafa verið að byggja upp rafbílamerki á meðan gömlu framleiðendurnir í Bandaríkjunum og Evrópu eru að reyna að ná tökum á markaðinum.

Samkeppnishæfni rafmagnsbíla gagnvart jarðefnaeldsneytisbílum eykst stöðugt. Í apríl síðastliðnum seldist 44% meira af rafmagnsbílum en ári áður í Evrópu. Til samanburðar má nefna að sala á Toyota Rav4 (árið 2022 best seldi ICE (internal-combustion-engine vehicles) bíll í Evrópu) féll um 46% á sama tíma. Nýir tímar eru innan seilingar í Evrópu.