c

Pistlar:

25. maí 2023 kl. 21:37

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Áliðnaðurinn stendur traustum fótum

Áliðnaðurinn skiptir íslenskt hagkerfi miklu en hann byggist á þremur fyrirtækjum sem reka jafn mörg álver. Sameiginlegur vettvangur iðnaðarins eru Samtök álfyrirtækja (Samál) sem hélt ársfund sinn í morgun í Hörpunni. Fundurinn var ágætlega sóttur og þar hélt Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, ræðu og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, tók þátt í umræðu.

Yfirskrift fundarins var „Hring eftir hring eftir hring“, með vísan í hringrásarhagkerfið. Fundurinn var með afslöppuðu fyrirkomulagi enda árar vel í áliðnaðinum og meiri sátt ríkir um hann en oft áður. Því var það svo að umræða um nýsköpun og mikilvægi hennar fyrir umhverfismál yfirtók annað en þessi atvinnugrein er af mörgum hér á landi talin helsti óvinur umhverfisins. Sérstaklega var áhugavert að hlusta á Sunnu Ólafs­dótt­ur Wal­levik, stofn­anda og fram­kvæmda­stjóra Gerosi­on, kynna hugmyndir sínar. Mbl.is hefur gert þessu ágæt skil í fréttum í dag. Á næsta ári verða liðin 55 ár síðan áliðnaður náði fótfestu hér á landi og af fundinum að ráða stendur hann traustum fótum hér á landi sem áður og vænta má áframhaldandi breytinga og þróunar á honum og vonandi skapist þá meiri sátt við þessa mikilvægu starfsgrein.áliðnaður

400 milljarða útflutningur

Áliðnaðurinn notar mikla orku en er síður mannaflsfrekur. Þekking almennings á starfsgreininni er mótuð af því. Nokkrar lykiltölur voru kynntar á fundinum sem vert er að hafa í huga. Á síðasta ári nam útflutningur okkar Íslendinga á áli um 400 milljörðum króna, eða tæpum fjórðungi af heildarútflutningi þjóðarbúsins. 2015 voru þessar útflutningstekjur 237 milljarðar króna. Innlendur kostnaður álveranna nam 174 milljörðum króna, samanborið við 123 milljarða árið 2021.

Af innlendum kostnaði álveranna á síðasta ári er áætlað að raforkukaup hafi numið um 85 milljörðum króna, eða um 37% meira en árið 2021. Aukin raforkukaup álvera, sem og annarra stórnotenda, áttu án efa sinn þátt í að Landsvirkjun skilaði sinni bestu afkomu frá upphafi og greiðir 20 milljarða til ríkisins í formi arðgreiðslu.

Mikilvægi álveranna sést vel af því að ríflega 61 milljarður af innlendum kostnaði þeirra fór í aðkeypta vöru og þjónustu frá hundruðum innlendra fyrirtækja en það er aukning um 74%
milli ára. Laun og launatengd gjöld hérlendis námu 23,4 milljörðum og jukust lítillega milli ára. Stöðugildi í álverum voru að meðaltali 1.570 á árinu, en auk þess unnu 400 manns dagleg störf á vegum verktaka. Opinber gjöld námu 4,6 milljörðum króna samanborið við 3,4 milljarða árið á undan og reiknað er með að þau hækki enn frekar á þessu ári þar sem Alcoa-Fjarðaál greiðir nú tekjuskatt í fyrsta skipti.al2

Ísland er næst stærsti álframleiðandi Evrópu

Áliðnaðurinn hefur ekki farið varhluta af röskunum á aðfangakeðjum í heiminum, verðbólgu og samdrætti í álfunni vegna Úkraínustríðsins. Þetta hefur leitt til þess að álframleiðsla hefur dregist saman um 50% í Evrópu á undanförnum tveimur árum, einkum hjá álverum sem ekki voru með orkusamninga til langs tíma og því óvarin fyrir sveiflum í orkuverði eins og rakið var í Morgunblaðinu í dag.

Ísland kemur næst á eftir Noregi í framleiðslu áls í Evrópu en framleiðslan nam alls 840 þúsund tonnum í fyrra. Sé horft til framleiðslu steypuskála jókst hún um 25 þúsund tonn og var 865 þúsund tonn. Þar munar því að steypuskálarnir gera álverunum kleift að taka meira af virðiskeðjunni til sín með málmblöndum og mæta með því flóknari þörfum framleiðenda í áframvinnslunni. Í þessum efnum er Norðurál að taka frekari skref með 17 milljarða fjárfestingu í nýjum steypuskála sem áframvinnur álið og Alcoa-Fjarðaál vinnur að undirbúningi stækkunar steypuskála. Árlega er því veruleg fjárfesting í greininni þó ólíklegt verði að telja að fleiri álver rísi hér á landi.

Eftir erfið ár byrjaði álmarkaðurinn að taka við sér árið 2021, ári áður en stríðið hófst. Það er ekki síst rakið til þess að verulega hægði á gegndarlausum framleiðnivexti í Kína,
meðal annars vegna sóttvarnalokana og orkuskorts þar í landi. Þetta hefur stutt við framleiðslu utan Kína sem framleiðir meira en helming alls frumframleidds áls í heiminum.

Hringrás í forgrunni

Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, sagði í ræðu sinni að styrking hringrásar álsins sé viðfangsefni framtíðarinnar, hvort sem litið er til sjálfbærni eða loftslagsmála. Verkefnið væri að breyta úrgangi í hráefni, jafnvel koldíoxíð getur nýst sem efniviður í slíku ferli. Vert er að hafa í huga að flúor er endurunninn í framleiðsluferlinu hér á landi sem veitir Íslandi forskot. Með bættum kerstýringum hefur verið dregið úr losun CO2-ígilda um 75% á hvert framleitt tonn af áli frá árinu 1990 (sem þýðir að eingin breyting hefur orðið síðan 2019). En hringrásin á ekki bara við um framleiðslu áls, heldur einnig notkun áls, þar sem endurvinna má ál aftur og aftur án þess það tapi eiginleikum sínum. Og stóra áskorunin í álframleiðslu á heimsvísu er að orkan sé endurnýjanleg. Yfir helmingur alls áls er framleitt með kolaorku og það tífaldar losunina miðað við framleiðslu á Íslandi.