c

Pistlar:

6. júní 2023 kl. 20:33

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Færeyjar sóttar heim

Samskipti Íslendinga og Færeyinga hafa ávallt verið mikil og þeir eru okkar næstu nágrannar. Frændur segjum við gjarnan enda blóðblöndun milli þjóðanna mikil og sótt í störf þar sem þau bjóðast best hverju sinni. Þegar á reynir hafa þjóðirnar staðið saman og enginn Íslendingur gleymir endurtekinni rausn Færeyinga þegar á bjátar. En eins og á við um stórlinda ættingja þá er gjarnan þráttað og þar eru deilur þjóðanna um fiskveiðar fyrirferðamestar. Sjálfsagt líta sumir Íslendingar stórt á sig þegar Færeyjar ber á góma enda Íslendingar sjö sinnum fjölmennari og Færeyjar aðeins minni en Reykjanesið að stærð eða tæplega 1.400 ferkílómetrar.hofn1

Merki eru um að munkar hafi dvalið í Færeyjum allt frá sjöundu öld en föst búseta norrænna manna hafist þar fljótlega eftir 800 eða nokkru á undan landnámi Íslands. Staðsetning eyjanna gerir það að verkum að sjálfsagt hafa menn byrjað allsnemma að sækja þangað í ver þó ekki hafi komið til föst búseta. Talið er að þjóðþing Færeyinga, Tínganes, sé að minnsta kosti fimm árum eldra en Alþingi og því mögulega elsta starfandi þjóðþing í heimi þó okkur Íslendingum sé ekki tamt að halda því á lofti. Þinghúsið sjálft er lítið timburhús en við þess hefur verið gert stórt og nútímalegt þjónustuhús.

Færeyjar samanstanda af klasa 18 eyja í Atlantshafinu á milli Skotlands og Íslands og eru allar í byggð nema Lítla Dímun. Jarðfræði eyjanna er ólík þeirri íslensku, engar megineldstöðvar finnast nálægt eyjunum og uppruni þeirra að einhverju leyti á huldu. Jarðfræðingur sem pistlaskrifari átti spjall við sagði að þegar breskir jarðfræðingar voru búnir að kortleggja jarðsöguna á heimaslóðum hafi þeir tekið að venja komur sínar til Íslands upp úr 1950 en sleppt Færeyjum. Bergið í Færeyjum er einsleitt basaltberg án innskota og þar skortir algerlega móberg og hraun.Færeyjar

Einu sönnu fjáreyjarnar

Eyjarnar eru grasivaxnar upp í topp en nánast engir skógar finnst þar og heldur engar heimildir um að landið hafi verið skógi vaxið milli fjalls og fjöru. Því er ómögulegt að segja hvort landnámið hafi spillt skógi þar eins og hér á Íslandi. Hafa má í huga að nafnið þýðir fjáreyjar og eru þær því kenndar við sauðfé sem er áberandi í landslaginu. Um 70 þúsund fjár eru á eyjunum og Færeyingar stoltir af sínu lambakjöti og hægeldað læri í bjórseiði reyndist hinn besti matur. Vegna tíðarfarsins getur sauðfé gengið úti mest allt árið og lítið sést af fjárhúsum eða yfir höfuð bændabýlum eins og við þekkjum á Íslandi. Engar kýr sáust í ferð um eyjarnar en þó var okkur sagt að nautakjötið sem snætt var hafi verið heimaalið. Færeyski hesturinn er í útrýmingarhættu, smávaxinn og hefur lifað í Færeyjum í hundruð ára. Hann er smágerður, 120-132 cm á hæð, og helst skyldur Hjaltlandshestinum en allir deila þeir sameiginlegum forföður með þeim íslenska. Hlutverk hans var að draga vagna og plóg og bera klyfjar. Hann hefur fjórar gangtegundir eins og íslenski hesturinn (þar með talið tölt) og er með fjölda litaafbrigða. Færeyingar hafa flutt inn íslenska hesta og hestamennska er nokkur í höfuðstaðnum Þórshöfn en hesthúsin eru rétt fyrir utan bæjinn, á stað sem margir vildu nýta sem flugvöll en ekki náðist samstaða um að flytja hann.

Vilja ekki of miklar flugsamgöngur

Í Færeyjum er einn millilandaflugvöllur, Vogaflugvöllur um 2 km austan við Sørvág á eynni Vogum. Þar eru höfuðbækistöðvar færeyska flugfélagsins Atlantic Airways, auk þess sem flogið er þaðan með þyrlum til nokkurra áfangastaða innan eyjanna. Atlantic Airways notar nýlegar Airbus vélar og situr nánast eitt að flugi til eyjanna.

Rétt eins og átti við með flugvöllinn í Reykjavík var það verkfræðideild breska hersins sem lagði Vogaflugvöll í síðari heimsstyrjöldinni. Að stríðinu loknu komst hann í umsjá dönsku flugmálastjórnarinnar. Það var þó ekki fyrr en um 1960 sem reglubundið áætlunarflug til Færeyja hófst. Upphaflega var flugbrautin aðeins 1250 metrar á lengd og gátu því aðeins flugvélar sem þurfa tiltölulega stutta braut til flugtaks og lendingar notað hann. 2011 var flugbrautin lengd í 1799 metra og 2014 var reist ný flugstöð sem nú er talin vera orðin of lítil.hofn2

Árið 2007 var flugvöllurinn afhentur Færeyingum. Lengst af sigldi ferja milli Voga og Þórshafnar en árið 2002 voru opnuð jarðgöng yfir til Straumeyjar og er því hægt að aka á milli Þórshafnar og flugvallarins. Áætlunarflug er nú meðal annars til Kaupmannahafnar, Reykjavíkur, Aberdeen, London, Óslóar, Stafangurs og Narsarsuaq á Grænlandi. Flugmenn sem lenda á Vogaflugvelli verða að fá sérstaka þjálfun og leiðsögumaður okkar sagði að Færeyingar vildu helst ekki lengja völlinn yfir 1800 metra því þá yrði að ráðast í miklar breytingar. Vegna þessara aðstæðna treysta lággjaldaflugfélög sér ekki til að fljúga til Færeyja og heimamenn sáttir við það. Veðurfar er síbreytilegt og oft lágskýjað og þoka. Því getur brugðið til beggja vona með lendingar og þá skiptir vindur einnig miklu. Leiðsögumaður okkar sagði vel mögulegt að leggja hliðarbraut til að sigrast á þessu en undirlendi er ekki mikið og hluti brautarinnar eins og hún er núna hækkaður í landslaginu.

Barist gegn fólksfækkun

Færeyingar hafa kynnst örri fólksfækkun og áhrifum þess en um 17 þúsund manns fluttu í burtu þegar kreppan skall á Færeyjar á níunda áratug síðustu aldar. Því miður komu margir ekki aftur eins og það hefur tekið langan tíma fyrri eyjaskeggja að ná fyrri íbúafjölda. Mjög fámennt er á sumum stöðum en íbúafjöldi í Færeyjum 1. mars 2022 taldist vera 53.792 einstaklingar. Færeyingar fara sér hægt þegar kemur að breytingum og innflytjendur fáir. Til að fá að kaupa hús eða land þarf viðkomandi að hafa búið í landinu í sjö ár en íbúar í danska konungsveldinu eru þó undanskildir því ákvæði. Færeyingar hafa sterka tilfinningu fyrir fámenninu, sérstöðu sinni og vilja stýra þróuninni.hofn3

Vegna fámennis hafa Færeyingar, líkt og Íslendingar, slegið mörg heimsmet þegar miðað er við höfðatölu. Raunar slá þeir einnig nokkur met sem stundum hafa verið eignuð Íslendingum á heimsvísu og nú eru þeir fámennasta þjóð Evrópu til að fara með landslið í lokaúrslit Evrópumótsins í handknattleik. Handbolti og knattspyrna eru áberandi í Færeyjum og leikmenn gjarnan farið á milli Færeyja og Íslands. Margir færeyskir landsliðsmenn hafa spilað á Íslandi og styrkt lið sín mikið, duglegir og baráttuglaðir leikmenn. Vel er staðið að uppbyggingu íþróttamannvirkja.