Sundabraut hefur í hugum margra orðið að skipulagslegum ómöguleika, að sumu leyti eins og bygging nýs Landspítala. Báðar framkvæmdirnar hafa dregist von úr viti og hafa sýnt að þegar kemur að stórum verkum reynist pólitíska valdinu ómögulegt að leiða þau farsællega til lykta. Íslendingar eru ekki einir um slíkt stjórnarfar en það er sláandi þegar tíminn rennur úr höndum manna og möguleikarnir á farsælli lausn þverra. Sundabraut er dæmi um þetta en það mun reynast mjög erfitt og kostnaðarsamt þegar upp er staðið að hafa ekki gripið heppilegustu leiðina þegar hún gafst. Einnig skiptir máli að vera ekki að þróa íbúabyggð í heppilegasta vegstæðinu eins og virðist örla á uppi í Gufunesi. En það er liðin tíð, nú er að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér.
Eins og sagt er frá í Morgunblaðinu í dag hefur borgarráð samþykkti verklýsingu vegna breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur til ársins 2040 sem snýr að Sundabraut. Kannski ekki stór áfangi nú þegar þessi þjóðvegur, milli Sundahafnar og Kjalarness, hefur verið á hugmyndastigi í hálfa öld og hefur fyrir löngu fengið hæstu einkunn arðsemi. En Morgunblaðið telur að nú hillir undir að verkefnið fari loksins á skrið. Verkefnastjóri, fyrsti fasti starfsmaðurinn, hóf störf hjá Vegagerðinni á þessu ári en sá sem starfaði fyrst við verkið hvarf á braut og nýr ráðinn. Það eitt og sér hefur án efa tafið verkið en auðvitað er ekki mikið undir á meðan aðeins einn starfsmaður sinnir þessu mikla verkefni.
Þriggja kjörtímabila stopp
Óhætt er að segja að síðustu þrjú kjörtímabil í Reykjavík hafi haft í för með sér algera stöðvun á verkefninu og sumir fulltrúar meirihlutans í Reykjavík hafa talað og unnið gegn því. Skiptir litlu nýjar upplýsingar og skýrslur um þjóðhagslegt mikilvægi verkefnisins eins og margoft hefur verið vikið að hér í pistlum.
Mikilvægast af öllu er að hugsa verkið sem eitt stórt skipulagslegt átak, ekki síður en sem umferðarmannvirki. Miklu skiptir að huga að þeirri byggðaþróun sem verkefnið gefur færi á, þróun sem ekki verður síður mikilvæg í ljósi eldsumbrota á Reykjanesskaganum og hve nálægt byggð þau eru. Þá er Sundabraut gríðarlega mikilvæg vegna öryggissjónarmiða eins og margoft hefur verið fjallað um hér í pistlum.
Matsáætlun vegna verksins hefur nú verið birt almenningi en í samningi ríkisins og Reykjavíkurborgar frá júlí 2021 er gengið út frá því að framkvæmdir geti hafist árið 2026og þeim verði lokið 2031. Það blasir við að þær dagsetningar munu ekki standast sem er mjög slæmt. Þegar verkið fer af stað er mikilvægt að vinna það allt í einum áfanga svo að nýting fjármuna sé sem best.
Einkaframkvæmd?
Ljóst er að þetta verður flókin og umfangsmikil framkvæmd, enda brautin löng og liggur yfir nes og sund. Arðsemi framkvæmdarinnar hefur vakið athygli fjárfesta og í raun væri hægt að framkvæma þetta verk framhjá samgönguáætlun eins og átti við um Hvalfjarðargöngin á sínum tíma. Til að það sé unnt þarf hins vegar vandaðan undirbúning án þess að ferlið verði yfirtekið af umhverfismatinu. Slíkt mat er orðið skálkaskjól þess sem vill tefja eins og reyndin var með veginn um Teigsskóg sem nú hillir undir. Sá vegur hefði þurft að vera ein samfeld framkvæmd til að arðsemi hennar komi fram sem fyrst, svo því sé haldið til haga.
Í traustum og góðum farvegi!
Borgarráðsfulltrúar meirihlutaflokkanna; Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar, lögðu fram bókun við afgreiðslu verklýsingarinnar eins og Morgunblaðið greinir frá. Bókunin afhjúpar þær ógöngur sem umhverfismat sem pólitískt leikfang getur sett málið í. Bókunin er svona. „Með samkomulagi Reykjavíkurborgar og samgönguráðherra árið 2021 komst Sundabrautarmálið í traustan og góðan farveg [sic!]. Ljóst er að með verklýsingu skipulagsgerðar og umhverfismats næst mikilvægur áfangi í framgangi verkefnisins. Með verklýsingunni eru boðaðar breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 (AR2040) sem varða legu og útfærslu Sundabrautar og jafnframt er lögð fram áætlun um hvernig standa skuli að umhverfismati breytinganna. Umhverfismatið og samráð við íbúa og hagsmunaaðila beggja vegna Kleppsvíkur verður lykilatriði þegar kemur að útfærslu á Sundabraut. Þá liggur einnig fyrir að hagsmunir almenningssamgangna, gangandi og hjólandi verða teknir inn í myndina, ásamt hafnarstarfsemi.“
Þessi bókun ber með sér að þessir aðilar skilja ekki mikilvægi Sundabrautar og þau miklu tækifæri sem henni fylgja.