Hver er lykillinn að friðsömum samfélögum og eru þau yfirleitt til? Mannkynssagan er endalaus saga átaka og styrjalda þar sem hinn sterki verður ofan á. Grikkir sögðu að sá sterkari hlyti að ráða en sá veikari að lúta. Rómverja muldu nýjar þjóðir undir sig og Pax Romana eða Rómarfriðurinn var friður hins sterka og þeir sem lutu honum ekki fengu sömu örlög og Karþagóbúar þar sem borg og ríki var jafnað við jörðu. Okkur Vesturlandabúum er tamt að horfa á sögu okkar heimshluta sem einstaka en þegar upp er staðið gerast áþekkir hlutir um allan heim. Herir Gengis Khans voru eins og engisprettufaraldur sem engu eirði. Mið- og Austur-Asía logaði stafna á milli þegar herkonungar tókust á og í Mið-Ameríku reistu Aztekar veldi sitt á mannfórnum sem stóðu svo vikum skipti.
Helför seinni heimsstyrjaldarinnar var ekki eins einstök og margir töldu þó skilvirkni nútímans og aukinn mannfjöldi hækkaði fjölda fórnarlamba. Það sló hins vegar marga að slíkt skyldi geta gerst í landi sem fóstraði Heine, Goethe, Bach og Beethoven. Blóðfórnir nýlendustefnu Evrópuríkjanna voru þá flestum ennþá huldar. Á svipuðum tíma og nasistar unnu illvirki sín átti sér stað kerfisbundin útrýming fólks undir merkjum kommúnismans í Sovétríkjunum og Kína. Svartbók Kommúnismans skrifar dauða 100 milljóna manna á framkvæmd stefnu undir hugmyndafræði kommúnismans. Hvernig verður slík helstefna skilin?
Samviska nasista
Í bók sinni Samviska nasista (The Nazi Conscience) reynir bandaríski sagnfræðingurinn Claudia Koonz að setja framferði nasista í samhengi við hvernig þeir ræddu eigið siðferði og athafnir. Henni finnst sér þó skylt að taka fram að hugmyndin um að nasistar hefðu yfir höfuð samvisku sé ekki mótsögn í sjálfu sér. Það virkar vitaskuld ósannfærandi að tala um að fjöldamorðingjar hafi unnið eftir einhverskonar siðfræði eða haft einhverja siðlega leiðsögn. Saga Þriðja ríkisins bendi þó til þess. Staðreyndin er sú að notkun andgyðinglegra slagorða og skipulagning þjóðarmorðs virtist vera tengt siðlegum forsendum byggðum á heimspekilegum hugtökum. En í því var holur hljómur og eins og veraldarhyggjumenn nútímans þá neituðu þeir tilvist guðlegra siðareglna eða meðfæddrar siðferðilegrar forsendu.
Koonz bendir á að í stað þess að tala um siðferðilegra altæk sannindi virtust nasistar telja eðlilegt að fella siðleg gildi að þörfum hins aríska samfélags. Og andstætt siðferðisumræðu 20. aldar heimspekinga, sem sáu menningarlega fjölbreytni sem rök fyrir umburðarlindi, þá drógu hugmyndafræðingar nasista gagnstæðar ályktanir. Þeir töldu að menningarleg fjölbreytni stuðlaði að fjandskap eða óvild. Þeir fullyrtu að þeirra eigin samfélagsgildi stæðu öðrum framar. Stolt af eigin þjóðerni eða sögu varð að rembingi. Að sama skapi varð alþjóðahyggja kommúnismans að nauðhyggju sem kramdi frjálsan vilja og framtakssemi mannanna undir fótum sér.
Á heljarþröm
Illvirki og þjóðarmorð eru því miður ekki eingöngu sagnfræðileg sannindi og nýlegir atburðir á Balkanskaga, Rúanda og í Sýrlandi sýna að kerfisbundin dráp fólks á nágrönum sínum getur sprottið fram af litlu tilefni. Af fréttum líðandi stundar virðist heimurinn oftar en ekki á heljarþröm og skiptir litlu hvort við horfum til voðaverka í Úkraínu, Nagorno-Karabakh eða niðri í Afríku. Margir taka þetta svo inn á sig að þeir fyllast kvíða fyrir framtíðinni og sumir segjast ekki geta fætt börn inn í þennan heim. Þrátt fyrir það virðist hvert ár skila framförum og nýjum tækifærum fyrir mannkynið, kjósi menn að líta svo á málin. Ef þróunin snýst til verri vegar er það vegna rangra ákvarðanna og mistaka í framkvæmd.
„Hafi ein lög og einn sið“
Það má víða finna þá skoðun að lykilinn að því að menn sameinist í friðvænlegum samfélögum sé fólginn í því að þeir játi sömu kennisetningarnar um hvað sé gott og vont, rétt og rangt og að íbúarnir séu tilbúnir til að lúta sömu lögum og reglum. Einhverskonar löghyggja einkennir vestræn samfélög en engin lög og né regluverk duga til að hemja fólk sem fylgir ekki þeim óskrifuðu siðaboðum sem samfélög manna hvíla á.
Þegar kristni var lögfest á Alþingi árið 1000 bjó að baki sú hugsun að allir landsmenn „hafi ein lög og einn sið“ og því skyldu allir menn „kristnir vera og skírn taka“. Þetta orðaði Þorgeir Ljósvetningagoði með eftirfarandi hætti: „En nú þykir mér það ráð að vér látum og eigi þá ráða, er mest vilja í gegn gangast, og miðlum svo mál á milli þeirra, að hvortveggju hafi nokkuð til síns máls, og höfum allir ein lög og einn sið. Það mun verða satt, er vér slítum í sundur lögin, að vér munum slíta og friðinn.“ Sömu hugsun má finna í Jónsbók, fyrstu lögbók okkar Íslendinga, en þar segir að „því að með lögum skal land vort byggja en eigi með ólögum eyða.“
Þegar ríki fellur
Hér hefur áður verið vikið að Rómarveldi sem stóð í um þúsund ár. Það var lengi vel vinsælt meðal sagnfræðinga að velta fyrir sér falli þess og hvað orsakaði það. Um það hafa verið margar kenningar sem ýmist leituðu til ytri eða innri orsakavalda. Ef við viljum skoða innri orsakir er vinsælt að horfa til kenninga sagnfræðingsins Edward Gibbon (1737-1794) en hann taldi að Rómverjar hefðu glatað borgaralegu siðferði sínu; þeir hafi orðið of latir og feitir til að verja ríki sitt falli eins og Stefán Gunnar Einarsson sagnfræðingur bendir á í ágætu svari á Vísindavefnum. Því til stuðnings bendir Gibbon á að varnir ríkisins voru í síauknum mæli faldar erlendum málaliðum og að þetta hafi skapað þeim greiða leið til að taka yfir veldið. Einnig má vera að kristnitaka Rómarveldis hafi ráðið nokkru en það skapaði önnur viðhorf en áður höfðu ríkt. Ágústus kirkjufaðir reyndi sitt besta til að berjast gegn þeirri kenningu að kristnin hefði orsakað fall Rómarveldis en sumum kann að finnast fánýtt að velta því fyrir sér í dag.
Rómantísk hugsun þá og nú
Segja má að þjóðríkið varðveiti þessa hugsun en það er afrakstur rómantísku stefnunnar um að fólk á afmörkuðum stað í veröldinni geti haft meira sameiginlegt en skilur það að. Það sem sameini sé siður, tunga og saga, þrenninguna einu, eins og Snorri Hjartarson skáld talaði um. Við getum nefnt sem dæmi að enginn hefur lagt meira til skoskrar þjóðernisstefnu en þjóðskáldið Robert Burns (1759-1796). Hann orti á skosku og er talinn frumherji rómantíkurinnar en eftir andlát hans nýttu stjórnmálamenn verk Burns til innblásturs og eflingar þjóðernislegra viðhorfa. Því er það svo að eftir hans dag hafa áhrif Burns á skoskar menningu og stjórnmál verið töluverð. Árið 2009 kusu Skotar hann stórkostlegasta Skota allra tíma og afmælisdagur hans (Burnsnótt) er óopinber þjóðhátíðardagur Skotlands. Burns er skýrasta dæmi um áhrif rómantísks skálds á hugmyndina um þjóð en sögu sem þessa má finna um alla Evrópu.
Sigurður Nordal taldi að á bak við allar athafnir mannsins stæði ákveðin hugmyndafræði og heimspeki. Hann horfði á lífið af stalli menntamannsins. Hugsanlega stýrir einnig annað för eins og við erum stöðugt minnt á í ólgusjó nútímans þar sem allir hafa nú rödd, þökk sé samfélagsmiðlum.
Það má rifja upp að ekki er langt síðan íslenskir sagnfræðingar voru að reyna að skilgreina fyrir hvað þeir stæðu. Kom þá upp að sögukennsla og söguleg vitund ætti að snúast um að fólk væri eins alla tíð: Það finnur til, elskar, hatar, öfundar, þráir, vonar, þraukar. Úr þessu spratt áhugi á hversdagssögu, kistill förukonunnar varð jafn mikilvægur og skatthol efnakonunnar. Þannig varð nútímasagan smættuð, hugsanlega til að gefa okkur tilfinningu um að við stöndum öll fyrir eitthvað í sögu þjóðar okkar. Hröð þróun nútímans í átt að innflytjendasamfélögum setja hins vegar nýjar áskoranir á samfélögin og hvað yfir höfuð bindur þau saman þegar siðirnir eru orðnir margir.
Okkar fyrsti ráðherra, Hannes Hafsteinn, lifði á mörkum rómantíkur og raunsæis og orti í Aldarmótaljóði sínu hvatningu þess tíma sem sumum fannst lýsa mikilli framsýni. Það er kannski viðeigandi að ljúka þessum hugleiðingum með lokahendingunni:
Þá mun sá guð, sem veitti frægð til forna,
fósturjörð vora reisa endurborna.
Þá munu bætast harmasár þess horfna,
hugsjónir rætast. Þá mun aftur morgna.