Í gær var kynnt vinningstillaga sænsku arkitektastofunnar FOJAB sem bar sigur úr býtum í alþjóðlegri samkeppni um þróun Keldnalands. Vinningstillagan byggir meðal annars á tengingu við borgarlínu og borgarlínustöðvar og hverfiskjarna og þannig er Keldnalandinu ætlað að uppfylla þá skyldu sína að vera lykill að uppbyggingu borgarlínunnar. Ekki aðeins á sala landsins að fjármagna stóran hluta hennar heldur verður borgarlínan rauði þráður Keldnalandsins. Í tilkynningu vegna línunnar segir að í vinningstillögunni sé lögð áhersla á að einfalt sé fyrir íbúa að lifa sjálfbæru og heilbrigðu hversdagslífi vegna nálægðar við náttúruna, með grænum svæðum, hverfisgörðum og torgum. Allt eins og í draumalandinu.
Innviðagjald á Keldnalandið?
Myndir með tillögunni sýna fallegt og náttúrlegt umhverfi eins og er gjarnan í slíkum tillögum. Við vitum ekkert um það hvort tillagan þjónar kröfum Reykjavíkurborgar um þéttleika byggðar og hverfið eins og það lítur út á myndum ansi ólíkt þeim veruleika sem birtist í tveimur nýjustu hverfum Reykjavíkur sem eru mjög þéttbyggð, annars vegar Vogahverfi og hins vegar Hlíðarendi við flugvöllinn. Þar eru hús byggð mjög þétt og í Vogabyggð var innheimt sérstakt innviðagjald sem hækkaði íbúðaverð verulega. Slíkt gjald verður einnig innheimt í Keldnalandi en ein forsenda fyrir innheimtu slíks gjalds er að neðsta hæðin sé frátekin fyrir verslun og atvinnustarfsemi. Sú áhersla byggir á ákveðinni sýn eða að smáþjónusta sé í nálægð við íbúðir en mjög erfiðlega hefur gengið að koma þessum rýmum í tilskylda notkun og það hefur óhjákvæmilega áhrif á annað íbúðarverð. Þá hefur eftirspurn eftir verslunarhúsnæði verið að dragast saman á heimsvísu í kjölfar þess að stöðugt meira af verslun færist á netið. Víða í borgum Evrópu stendur nú verslunarhúsnæði autt sem áður iðaði af lífi.
Uppbyggingin við Suðurlandsbraut
Við sjáum við Suðlandsbraut að þar eru þrjú mjög stór þéttingarverkefni í gangi. Inni í Skeifu er þegar risið mikið húsnæði, 6 til 7 hæðir, á horni Grensásvegar og Suðurlandsbrautar. Hinum megin við hornið, á svokölluðum Orkuhúsreiti, er byrjað á framkvæmdum en þar eiga að rísa um 460 íbúðir. Þarna á horninu gætu því verið að rísa um 600 til 700 íbúðir en enginn skóli er nálægt. Ef börn þar fara í skóla er það líklega í Langholtsskóla og þá er yfir Suðurlandsbraut að fara. Á Heklureitnum svokallaða er nú komin stærsta hola höfuðborgarsvæðisins en þar eiga að rísa hátt í 500 íbúðir auk skrifstofu- og verslunarhúsnæðis. Þessir þrír reitir á ásnum Laugavegur/Suðurlandsbraut gætu verið að skila á milli 1000 til 1500 íbúðum á næstu árum. Ætlunin er að halda áfram uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Skeifunni og í raun ómögulegt að segja hve mikið verður byggt þar á þessari stundu.
Bílastæðishús í Keldnalandi?
Í Keldnalandi er gert ráð fyrir sérstökum bílastæðahúsum og margir orðið til að lýsa efasemdum sínum um það. Mörgum finnst ekki gott að fara þá leið í stað þess að hafa bílakjallara í íbúðahúsunum. Það spari í landrými og um leið geta íbúar þá gengið beint upp í sínar íbúðir og þurfa fyrir vikið ekki að rogast með innkaupapoka, vörur og annað úr bílastæðahúsum í alls konar veðrum.
„Arkitektúrinn í tillögu okkar miðast við mannlegan skala – þrjár til fimm hæðir – en er á sama tíma nógu þéttur og vel tengdur til að skapa lifandi borgarumhverfi,“ er haft eftir Magdalenu Hedman, arkitekt og verkefnisstjóra tillögunnar hjá FOJAB í tilkynningu Reykjavíkurborgar. Það verður fróðlegt að rýna í þessar tillögur í framhaldinu og hvernig þær endurspeglast í núverandi verkefnum í borginni, sem sum hver hafa verið rakin hér.