c

Pistlar:

29. september 2023 kl. 15:56

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Svartur september í Svíþjóð

Sú ofbeldisalda sem nú gengur yfir Svíþjóð er helsta fréttaefni norrænna fjölmiðla um þessar mundir enda ekkert lát á frásögnum af skotárásum og sprengjum. Sænsku blöðin birta svartar forsíður og tala um svartan september en nú er talið að 12 manns séu látnir í mánuðinum í borgum og bæjum Svíþjóðar vegna átaka glæpagengja.svi1

Yfirvöld standa ráðþrota og formaður sænskra sósíaldemókrata sér það helst til ráða að kalla út herinn, sem væri fordæmalaus aðgerð í Svíþjóð. Rifja nú margir upp fyrri orð stjórnmálamanna á vinstri vængnum sem til þessa hafa hundsað öll teikn um þróun mála en það þarf að fara áratugi aftur í tímann til að skilja orsakir og áhrifaþætti þess ástands sem nú ríkir. Eins og margoft hefur verið bent á hér í pistlum hefur orðið grunnbreyting á sænsku þjóðfélagsgerðinni í kjölfar þess að um 20% landsmanna eru innflytjendur og 10% eru múslimir. Þó að flestir séu komnir til Svíþjóðar til að bæta hag sinn þá hefur aðlögun stórra hópa mistekist. Ofbeldisaldan nú sækir fóður sitt í unga menn af innflytjendaættum sem vilja frekar starfa í glæpagengjum en ganga í gegnum samfélagsmótun sænska velferðarkerfisins, hafði þeir á annað borð eitthvert val.

Forsætisráðherra ávarpar þjóðina

Helgin er framundan og ekkert bendi til þess að glæpagengin slái af enda tekist á um leiðtogahlutverkið þar með öllum þeim gæðum sem því fylgja. Sænski herinn, lögreglan og ríkisstjórnin munu fara yfir stöðuna í dag og reyna að finna lausnir um hvaða leiðir henti best til að berjast gegn þessari skálmöld. Þetta tilkynnti Ulf Kristersson forsætisráðherra í fordæmalausu ávarpi til sænsku þjóðarinnar í gærkvöldi á tímum sem taldir eru þeir háskalegustu í landinu síðan árið 1945. „Þessi staða hefur aldrei áður verið upp í Svíþjóð. Hvergi í álfunni er staðan þessi,“ sagði Kristersson en ríkisstjórnin var að hluta til ætlað að taka innflytjendamálum og Kristersson hefur skellt skuldinni á stefnuleysi fyrri ríkisstjórna í málaflokknum.sverge

Magdalena Anderson, formaður Sósíaldemókrata, sagði í viðtali á sænsku útvarpsstöðinni SR í gær að Svíar þyrftu að huga að því hvort leita yrði til hersins til að koma böndum á ofbeldið. Gunnar Strömmer dómsmálaráðherra sagðist við sama tækifæri ekki vera viss um hvort það væri besta leiðin en tók fram að nú yrði að hlusta á öll sjónarmið allra flokka og finna lausnir eins og kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Í gær birtist ágæt fréttaskýring á mbl.is um einn helsta geranda glæpastríðsins en um hann hefur einnig verið fjallað hér í pistli.

Svíþjóðardemókratar í sókn

Kannanir sýna að fylgi Svíþjóðardemókratanna hefur verið að aukast en þeir hafa hingað til verið harðastir í málefnum innflytjenda. Svíþjóðardemókratarnir hafa verið meðhöndlaðir sem óstjórntækir og eru utan ríkisstjórnarinnar en styðja hana. „Er það virkilega einhver sem vill láta taka sig alvarlega sem getur haldið því fram að öfgafullt gengjaofbeldi, sem hefur fengið að vaxa í Svíþjóð undanfarna áratugi, hafi ekki orðið til vegna óábyrgar innflytjendastefnu?“ spyr Jimmie Åkesson, leiðtogi Svíþjóðardemókratanna, í aðsendri grein í dagblaðið Expressen fyrir tveimur dögum. Í fjárlögum ríkisstjórnarinnar sem birtust 20. september voru framlög til lögreglu og ofbeldisvarna aukin verulega.

Fyrr í vikunni lagði dómsmálaráðherrann Strömmer til að refsingin fyrir að hafa undir höndum sprengiefni án heimildar væri aukin í fimm ár úr þremur árum. Leiðtogi Vinstri flokksins, Nooshi Dadgostar, sagði að ofbeldinu yrði að linna strax en er að öðru leyti ráðalítill enda flokkurinn verið í hlutverki íslensku píratanna í útlendingamálum.sviþj

Sláandi tölfræði í ofbeldi

Anders Thornberg, ríkislögreglustjóri Svíþjóðar, sagði á blaðamannafundi í morgun að ofbeldisalda af áður óþekktri stærðargráðu gangi nú yfir landið og allar líkur séu á að fréttir muni berast af nýjum árásum á næstu dögum og vikum. Það sem af er ári hafi þrjú hundruð manns, sem eru taldir tengjast glæpagengjunum, verið hrepptir í gæsluvarðhald vegna vopnalagabrota.

Árið 2022 létust 62 vegna skotárása í Svíþjóð, en 45 árið 2021 sem eru hlutfallslega hærri tölur en hjá flestum Evrópuþjóðum og sexfaldar tölur á við nágrannalöndin Noreg, Finnland og Danmörku segir í frétt Morgunblaðsins. Mikil aukning hefur orðið í dómum unglinga á aldrinum 15-17 ára sem tengjast alvarlegum glæpum eins og manndrápum eða tilraunum til manndráps. Á þessu ári hafa verið 84 saksóttir sem falla í þennan hóp, en á sama tímabili í fyrra var talan 53 og ef farið er tíu ár til baka til ársins 2013 þá voru 8 unglingar saksóttir fyrir svona alvarlega glæpi. Aukningin er gríðarleg.