c

Pistlar:

18. október 2023 kl. 16:53

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Byggðastofnun finnur 8588 ríkisstarfsmenn

Stöðugildi á vegum ríkisins voru 27.694 þann 31. desember 2022, þar af voru 18.015 (65%) skipuð af konum og 9.679 (35%) af körlum. Á árinu 2022 fjölgaði stöðugildum á vegum ríkisins um 788 á landsvísu eða 2,9%. Árið áður hafði þeim fjölgað um 1.341 sem var 5,2% fjölgun. Landsmönnum fjölgaði um 3,1% á síðasta ári og því má segja að fjölgun starfa hjá hinu opinbera haldist í við fjölgun landsmanna. Fjölgun landsmanna skýrist hins vegar að mestu leyti af innfluttu fólki sem síður fer til starfa hjá ríkinu.starfs

Þessar upplýsingar um fjölgun starfsmanna ríkisins koma fram í könnun Byggðastofnunar á staðsetningu starfa á vegum ríkisins. Þessa könnun hefur hefur Byggðastofnun gert árlega frá áramótum 2013/2014 með það að markmiði að sýna hvar opinber störf verða til. Það vekur óneitanlega athygli að þessar tölur Byggðastofnunar koma ekki heim og saman við tölur Fjársýslu ríkisins en þaðan koma samt launagreiðslurnar, svo mjög að það má segja að Byggðastofnun hafi fundið 8.588 ríkisstarfsmenn.

Til viðbótar þessum 27.694 stöðugildum koma 22.000 störf hjá sveitarfélögum. Alls voru um 229.300 einstaklingar starfandi á íslenskum vinnumarkaði í júlí 2023 samkvæmt nýjum tölum Hagstofunnar. Hefur þeim fjölgað um tæplega 8 þúsund milli ára. Það getur verið vandasamt að ná utan um hinn opinbera vinnumarkað eins og við sjáum nú og áður hefur verið fjallað um hér.

Fékk Diljá rétt svar?

Eins og lesendur pistla hérna gætu munað eftir var fjallað um fjölda opinberra starfa hér apríl síðastliðnum. Það var í kjölfar svars fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Diljá Mist Einarsdóttur, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, um fjölda stöðugilda hjá ríkinu. Diljá spurði hver væri fjöldi stöðugilda hjá ríkinu, þ.e. þar sem Fjársýsla ríkisins er launagreiðandi, ár hvert á tímabilinu 2011–2021, sundurliðað eftir landshlutum og störfum.

Í svarinu sem Diljá fékk kom fram að það væru 19.106 stöðugildi hjá ríkinu og að þau hefðu aldrei verið fleiri. En þarna munar 8.588 störfum á svari því sem Diljá fékk og tölum þeim sem Byggðastofnun birtir núna. Veit Fjársýslan ekki hverjum þeir greiða laun eða sagði fjármálaráðherra ósatt í svari sínu til flokkssystur sinnar? Það þarf kannski ekki að dramatísera þetta en það er samt freistandi að halda að svar Byggðastofnunar sé nákvæmara meðal annars af því að það er ríkið sem greiðir að endingu laun þeirra 8.588 hlaupaliða ríkisins sem Byggðastofnun finnur aukalega.fundur-i-dag-samstodufundur-i-fyrramalid

Byggðastofnun grefur dýpra

Munurinn liggur í því að Byggðastofnun fer einnig í undirstofnanir, sem eru á fjárlögum og þó að Fjársýsla ríkisins sé ekki launagreiðandi með beinum hætti í öllum tilvikum koma launin að endingu úr sjóðum ríkisins. Stór hluti þessara starfsmanna sem Fjársýsla ríkisins tínir ekki til vinna við margvíslega hjúkrun og ummönnun um allt land og eru undir merkjum stofnanna sem eru á fjárlögum þó sumar geti haft sjálfstæða tekjustofna. Því verður ekki annað séð en að aðferð Byggðastofnunar sé rétt og fullkomlega marktæk. Eins og tekið var fram hér í áðurnefndum pistli eru starfsmenn sveitarfélaga ekki inni í þessum tölum.

Það væri kannski ástæða til að taka saman með óyggjandi hætti hve hátt hlutfall landsmanna þiggur laun sem eiga uppruna sinn hjá skattgreiðendum landsins. Stjórnmálafræðingar ættu í það minnsta að hafa áhuga á því þar sem fólk hefur tilhneigingu til að kjósa með hagsmunum sínum. Og vel að merkja, flestir stjórnmálafræðingar þiggja laun sín frá ríkinu.

Ríkisstarfsmenn á höfuðborgarsvæðinu

Samkvæmt úttekt Byggðastofnunar eru flest stöðugildi á vegum ríkisins staðsett á höfuðborgarsvæðinu, enda er meirihluti landsmanna búsettur þar. Hins vegar er hlutfall stöðugilda á höfuðborgarsvæðinu (70%) hærra en hlutfall landsmanna sem þar býr (64%).

Mest hlutfallsleg fjölgun stöðugilda varð á Suðurnesjum 10,7% og næst mest á Suðurlandi 9,1%. Skýring á fjölgun á Suðurnesjum byggist á aukningu hjá ISAVIA og lögreglunni á Suðurnesjum sem má eflaust rekja til upprisu ferðaþjónustunnar eftir heimsfaraldur og nokkur fjölgun varð hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Á Suðurlandi fjölgaði meðal annars hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands og þjóðgarðinum á Þingvöllum. Breytingarnar sjást glögglega í meðfylgjandi töflu. tafla

Konur fjölmennastar hjá ríkinu

Eins og áður segir eru konur langfjölmennastar hjá ríkinu en stöðugildum kvenna fjölgaði um 669 (3,9%) árið 2022 en stöðugildum karla fjölgaði aðeins um 119 (1,2%). Munurinn heldur því áfram að aukast. Stöðugildum karla fjölgaði mest hjá ISAVIA og Landspítala en þeim fjölgaði einnig hjá Hrafnistu, Háskóla Íslands, Listaháskóla Íslands og Lögreglustjóranum á Suðurnesjum. Stöðugildum kvenna fjölgaði mest hjá Landspítala, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Hrafnistu, ISAVIA og Háskóla Íslands.