c

Pistlar:

28. júlí 2024 kl. 15:06

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Uppgjör við nýlendustríðið í Alsír

Í janúar 2020 skilaði franski sagnfræðingurinn Benjamin Stora frá sér langþráðri skýrslu um nýlendutíma Frakka í Alsír. Heiti skýrslunnar rammar væntanlega inn verkefnið, „Minningar um franska nýlendustefnu og stríðið í Alsír.“ Stora er af alsírskum uppruna og með skýrslunni var ætlunin að ná ákveðinni sátt um þá sameiginlegu reynslu sem þjóðirnar deila. Hafi menn vænst þess að skýrslan myndi sætta sjónarmið milli landanna tveggja þá brugðust þær vonir. Bæði í Frakklandi og ekki síður í Alsír brugðust menn illa við og hefur mönnum verið heitt í hamsi. Því hefur það farið svo að helsta niðurstaða skýrslunnar er að draga fram að það er síður en svo gróið um heilt milli landanna enda margir enn á lífi sem tóku þátt í átökunum.alsirfrakk

Alsír varð hluti af Frakklandi árið 1848 en nokkrum árum eftir heimsstyrjöldina síðari hófst frelsisstríð Alsírbúa sem lauk þann 1. júlí 1962 þegar boðað var til atkvæðagreiðslu um sjálfstæði landsins. Meirihluti fólks kaus með sjálfstæði og Alsír varð sjálfstætt ríki þann 3. júlí sama ár. Segja má að æ síðan hafi verið deilt um nýlendutíma Frakka og yfirráð þeirra í landinu og ekki síður það sem gerðist í stríðinu. Alsírskir sagnfræðingar hafa talið að um 1,5 milljón heimamanna hafi fallið í þessu stríði á meðan franskir kollegar þeirra telja að mannfallið hafi verið nálægt 400 þúsund og þá úr röðum beggja þjóða.

Hástemmdur Macron

Það var í aðdraganda 60 ár afmælis endaloka stríðsins árið 2022 að Emmanúel Macron, forseti Frakklands, fékk Stora til þess að taka saman umrædda skýrslu. Eins og áður sagði átti hún að búa til sameiginlega sýn á atburðarásina í aðdraganda sjálfstæðis Alsírs en hún hefur mótað samskipti þjóðanna. Til að hafa sem mesta sátt um verkið hafði Macron samráð við Abdelmadjid Tebboune, forseta Alsír, áður en Stora hófst handa en hann er óumdeilanlega sá sagnfræðingur sem best þekkir sögu Alsírs.

Sumir franskir stjórnmálaskýrendur segja að Macron hafi heldur persónulega sýn á sögulegt mikilvægi sitt og skýrslan var hugsanlega annað og meira en bara að gera upp við stríðið í Alsír, sem er þó ærið verk. Macron lýsti gerð skýrslunnar sem merki um „vilja til að stuðla að sáttum milli frönsku og alsírsku þjóðarinnar“. Það kom heim og saman við fyrra frumkvæði hans frá því í febrúar 2017 en þá vísaði hann til nýlendukerfisins sem glæps gegn mannkyninu. Sumarið 2018 viðurkenndi hann að frönsk stjórnvöld bæru ábyrgð á dauða stærðfræðingsins Maurice Audin í orrustunni við Algeirsborg en hann var með náin tengsl við Þjóðfrelsisfylkinguna Front de libération nationale (FLN).alsfrakk

Franski forsetinn, líkt og alsírskur starfsbróðir hans og skýrsluhöfundur, töldu að atvik sem stafa af sameiginlegum minningum landanna tveggja um Alsírstríðið og hernámið þurfi að fá opinskáa umræðu til að sáttum verði komið á.

Þurfa Frakkar að iðrast?

Í Alsír eru margir sem beina því reglulega til fyrrum nýlenduveldisins að „sýna iðrun“. Um leið eru margir í Frakklandi sem leggja áherslu á „jákvæðu hliðar nýlendutímans“ og telja að Frakkland hafi fært íbúum Alsír nútímann. Af þessu sést að þarna eru margar hindranirnar sem er ekki auðvelt að sigrast á. Hin öflugu alsírsku samtök: Veterans og the War of liberation (ONM) hafa algerlega hafnað því sem þeir kalla tilraun til að hylma yfir þá glæpi sem áttu sér stað í Alsírstríðinu.

Stora sjálfur telur að hægt sé að bæta fyrir hið liðna, sérstaklega ef gripið er til röð áþreifanlegra aðgerða sem mælt var með í skýrslu hans. Þær aðgerðir áttu að sýna fram á að báðir aðilar hygðust halda áfram í þágu borgara sinna og að bæði löndin gætu vikið til hliðar eldri vandamálum með framtíðarvelferð borgara sinna að leiðarljósi.

Því var það svo að í stað þess að einblína á „örin, langvarandi arfleifð og afleiðingar minningarinnar um landnám og Alsírstríðið á franskt samfélag“, þá lagði skýrslan fram röð nýrra aðgerða sem Frakkar gætu innleitt til að ryðja brautina fyrir sátt. Þó að verk Stora skoði líka hlið Alsír á sögunni, er mikilvægt að hafa í huga að frönsk stjórnvöld bera ábyrgð á skýrslunni.

„Alsír er órjúfanlegur hluti Frakklands“

Endir nýlendusögu Frakka var ekkert sérlega glæsilegur frekar en hjá öðrum nýlenduveldum Evrópu og enn eru sum lönd að greiða fyrir hryllinginn sem þau kölluðu yfir íbúa nýlendanna. Skemmst er að minnast þess að þýsk yfirvöld samþykktu fyrir nokkrum árum að greiða skaðabætur til íbúa Namibíu vegna atburða fyrir 100 árum.

Það sýnir betur en margt virðingarleysi Frakka við Alsír að þeir kusu að gera fyrstu kjarnorkusprengjutilraunir sínar í landinu. „Gerboise Bleue“ var sprengd í febrúar 1960 og þar með urðu Frakkar fjórða kjarnorkuveldið. Nokkrar sprengjur til viðbótar voru sprengdar á næstu árum og sjálfsagt hafa Korsíkumenn andað léttar því á tímabili var hugmynd um að gera tilraunirnar á eyjunni.

Framþróun stríðsins í Víetnam hafði áhrif á sjálfstæðisbaráttu Alsír og skæruliðar hófu að sprengja í borgum og úti á landi. Frönsk yfirvöld brugðust við með því að senda aukið herlið til landsins. François Mitterrand, þáverandi dómsmálaráðherra, sagði að einu samningaviðræðurnar sem ættu við væru stríð og bætti við: „Alsír er órjúfanlegur hluti Frakklands.“allsfrak

Menningarlegar rætur

Stríðið var mjög sársaukafullt en menntastéttin í Alsír talaði frönsku og var mjög tengd Frakklandi. Um ein milljón íbúa Alsír voru með rætur í Evrópu og ofbeldið beindist meðal annars að þeim. Um 15 milljónir í Alsír tala frönsku og því hefur staða frönskunnar og franskrar menningar því ávallt verið umdeild í landinu eins og birtist síðar þegar ný ofbeldisalda hófst í Alsír á tíunda áratug 20. aldar.

Þá voru heimamenn að gera tilraunir á sviði lýðræðis en uppskáru blóðbað í tengslum við þingkosningarnar árið 1991. Þetta var í raun fyrsta lýðræðistilraunin í Alsír frá því að landið fékk sjálfstæði, enda hafði stjórnarflokkurinn, Þjóðfrelsisfylkingin, verið eini löglegi flokkurinn allt til ársins 1989. Stór hluti kjósenda ákvað að sýna óánægju sína með stjórn Þjóðfrelsisfylkingarinnar með því að styðja íslamskan flokk (Front Islamique du Salut, FIS) í fyrri umferð kosninganna. Þegar allt benti til þess að sá flokkur næði völdum var ákveðið að fella niður seinni umferð kosninganna. FIS var bannaður og leiðtogar hans fangelsaðir. Þetta leiddi til mikillar þjóðfélagsólgu og síðan borgarastríðs.

Íslamskir hópar vígvæddust og lýstu yfir stríði á hendur Hizb-Fransa (Franska flokksins), þ.e. frönskumælandi menntamönnum, blaðamönnum, útlendingum og öllum sem þeir töldu hafa unnið með stjórnvöldum gegn íslamska flokknum. Í kjölfarið var fjöldi menntamanna myrtur, og hugtakið „menntamorð“ hefur verið notað um þessa atburði. Stríðið gegn menntamönnum í Alsír var vitaskuld áfall fyrir alsírska menningu og sérstaklega bókmenntirnar, þar sem raddir rithöfunda voru að stórum hluta þaggaðar niður. Margir urðu landflótta og ófáir voru myrtir.

Viðkvæm samskipti

Á síðasta ári mátti ekki miklu muna að upp úr syði milli landanna þegar Abdelmadjid Tebboune ásakaði Frakka fyrir að aðstoða alsírska stjórnarandstæðinginn Amira Bouraoui við að forðast framsali til Alsír frá Túnis. Bouraoui, sem einnig er með franskt vegabréf, hafði komið ólöglega inn í Túnis þremur dögum áður til að leita skjóls.

Atvikið kom í kjölfar þess að samskiptum landanna höfðu verið að batna mikið mánuðina á undan sem sumir töldu þrátt fyrir allt diplómatískt afrek. Heimsókn Emmanuel Macron Frakklandsforseta til Algeirsborg seint í ágúst 2022 skipti miklu sem og heimsókn Elisabeth Borne forsætisráðherra sex vikum síðar í fylgd með tugum ráðherra. Þessu var tekið sem trúverðugri tilraun franska forsetans til að endurvekja tengsl landanna sem ná fimm aldir aftur í tímann.