c

Pistlar:

30. júlí 2024 kl. 12:17

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sósíalistar og sanngjarnar kosningar

Segðu mér hverjir vinir þínir eru og ég skal segja þér hver þú ert! Það sést þegar kveðjur til , Nicolás Maduro í kjölfar forsetakosninganna í Venesúela eru skoðaðar. Fremstir ættu að vera fylgjendur Sósíalistaflokks Íslands sem hafa varið stjórn Maduros með oddi og egg undanfarin ár hér á íslenskum samfélagsmiðlum, enda fastir við uppgjör við fortíðina sem byggist á einhverskonar allsherjar misskilningi um framvindu sögunnar. Sósíalistar hafa hins vegar alltaf verið svagir fyrir mönnum sem skreyta sig réttu slagorðunum. Meira að segja hinn geðþekki verkamaður og rithöfundur, Tryggvi Emilsson, hafði uppi mynd af Stalín í betristofu sinni fram í andlátið 1993.maduro

En látum það vera. Róttækur sósíalismi býður ekki upp á lýðræði og í Venesúela höfum við fengið að fylgjast með hinni sósíalísku leið til helvítis. Það virðist hafið yfir vafa að Maduro er búinn að stela kosningunum eina ferðina ennþá og nú keppast bandamenn hans við að óska honum til hamingju með úrslitin. Vladimír Pútín Rússlandsforseti leitar að samstarfsmönnum og Maduro er þar gagnlegur. Pútín sagði að samskipti ríkjanna bæru með sér yfirbragð bandalags og að hann væri fullviss um að Maduro myndi efla þau og þroska áfram. Þá væri Maduro ávallt velkominn til Rússlands. Kínversk stjórnvöld óskuðu Maduro einnig til hamingju, og sögðu þau ríkin tvö vera „góða vini og bandamenn sem styddu hvor annan“, en Kínverjar eru helstu lánardrottnar Venesúela.

Morgunblaðið greinir frá því í dag að Miguel Diaz-Canel, forseti kommúnistastjórnarinnar á Kúbu, hafi talað við „bróður“ sinn, Maduro, til þess að óska honum innilega til hamingju „fyrir hönd flokksins, ríkisstjórnarinnar og kúbversku þjóðarinnar fyrir hinn sögulega kosningasigur sem hann náði“, enda þykir sósíalistum mörgum að þarna hafi vígið verið vari. Þá fékk Maduro einnig heillaóskir frá stjórnvöldum í Níkaragva, Bólivíu og Hondúras, sem öll líta á Maduro sem bandamann sinn. Það er sammerkt þessum löndum að stjórnarfar þar er sósíalískt, ólýðræðislegt og bágborið.maduro2

Vinátta við Rússland Pútíns

Rússland og Venesúela hafa átt í langvarandi fjárhagslegu, pólitísku og diplómatísku samstarfi. Þrátt fyrir ákveðna viðskiptaáhættu hélt Rússland lengst af áfram að starfa sem lánveitandi til þrautavara, aðstoða Venesúela við að sniðganga olíuþvinganir, kynda undir óupplýsingaóreiðu og útvega Maduro-stjórninni hergögn. Rússneska sendiráðið í Caracas fimmfaldaðist að stærð á 15 ára tímabili til 2020. Gera má þó ráð fyrir að Rússar eigi örðugt um vik með að aðstoða Maduro-stjórnina með hergögn núna.

Venesúela skuldar Kína að minnsta kosti 20 milljarða dollara í lánum sem stofnað var til fyrir árið 2017. Kínversk stjórnvöld hafa haldið áfram að vera öflugur, en að vísu nokkuð hljóðlátur, stuðningsmaður Maduro-stjórnarinnar en hafa dregið verulega úr sókn sinni í viðskipi við Venesúela á undanförnum árum.maduro3

Samherjar í einangrun

Íran og Venesúela hafa átt í táknrænu og oft innilegu samstarfi frá fyrstu árum stjórnar Hugo Chávez. Seinni ár hafa þau reynt að endurvekja samstarf sitt og fundið sameiginlegan grunn í því sem tvö ríki sem eru djúpt einangruð á alþjóðavettvangi.

Kúba er tilvistarlega háð Venesúela en heldur einnig áfram að hafa gríðarleg áhrif á njósnakerfi Maduro-stjórnarinnar, her Venesúela og hugmyndafræðilegu orðræðu stjórnarinnar. Hugmyndafræðileg tengsl milli landanna eru djúp og komu fram í upphafi stjórnar Chávez.

Tyrkland tók að birtast á gestalista Maduros fyrir nokkrum árum og hefur liðsinnt við ólögleg gullviðskipti Venesúela. Þetta samstarf er það óvenjulegasta af þeim fimm sem hér hafa verið rakin í ljósi þess að Tyrkir halda uppbyggilegum diplómatískum samskiptum við Bandaríkin. Hvort augljós fölsun á kosningaúrslitum nú hefur afleiðingar fyrir Maduro-stjórnina skal ósagt látið en næstu dagar gætu orðið örlagaríkir.