Þau Hamed Abdel-Samad, Seyran Ates og Ayaan Hirsi Ali hafa öll verið lýst réttdræp, þeim hótað lífláti og þeim jafnvel verið sýnt banatilræði. Þó að þau lifi og búi á Vesturlöndum eiga þau erfitt með að sinna daglegum störfum án lögregluverndar. Allt stafar það af því að þau hafa birt greiningar sínar og skoðanir á íslam sem hafa vakið fræðilega eftirtekt en um leið trúarlega andúð íslamista. Staða þremenninganna og tilvera er sumu leyti dæmigerð fyrir þau áhrif sem íslam hefur á Vesturlöndum en öll eiga þau Hamed Abdel-Samad, Seyran Ates og Ayaan Hirsi Ali rætur í íslam og hafa lýst yfir efasemdum sínu. Hér hefur talsvert verið fjallað um Ayaan Hirsi Ali í pistlum en hún hefur gengið af trúnni.
Dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson fjallar um fræðimennsku þremenninganna í grein sinni Birtingarmyndir íslams í samfélagsumræðunni - Vitund Vesturlandabúa um íslam sem birtist í vorhefti Skírnis 2016. Í grein sinni rekur Sigurjón Árni fræðilega umræðu um íslam á vesturlöndum í tengslum við vaxandi fjölda múslimskra innflytjenda. Umræðuefni sem hér hefur oft verið til umfjöllunar í pistlum. Sigurjón Árni talar þýsku og grein hans er gott yfirlit yfir nálgun þessa málaflokks í Þýskalandi. Hann bendir meðal annars á að: „Í Þýskalandi er sú rödd líka áberandi að varast beri að túlka og meta íslamskt samfélag og trúararfleifð í gegnum gleraugu íslamista. Um þessa hættu hafa verið haldin fjölmörg málþing og bækur ritaðar til að draga upp margbreytilegri mynd af íslam innan hins vestræna heims.“
Því er það að þá þegar, árið 2016, var farin af stað mikil umræða um stöðu íslam í vestrænum samfélögum og hvernig öfgafullir íslamistar hafa í hótunum við fólk sem tjáir sig með gagnrýnum hætti um íslam. Um leið hljóta Vesturlandabúar að íhuga hvernig hugmyndaheimur íslam getur aðlagast vestrænum gildum nú þegar múslimum fjölgar ár frá ári á Vesturlöndum.
Ólík sýn á ramadan
Alvarlegast er að það er langur listi fólks sem þarf að búa við líflátshótanir á Vesturlöndum vegna íslamista en vikið hefur verið að þessu áður hér í pistli. Hér mætti nefna til viðbótar rithöfundinn og aðgerðarsinnann Kacem El Ghazzali sem fæddist í múslimafjölskyldu í Marokkó en birtist sem trúleysingi árið 2010. Í kjölfar fjölda líflátshótana og opinberra mótmæla flúði hann til Sviss árið 2011, þar sem hann hefur síðan vakið athygli fyrir mannréttindabaráttu sína. Árið 2017 útnefndi dagblaðið Basler Zeitung El Ghazzali einn af 15 mikilvægustu menntamönnum Sviss. „Þó að Vesturlönd segist hafa aukið skilning sinn á ofsóknir, allt frá notkun rangra fornafna til líkamsárása, virðist þolinmæði þeirra vera furðu mikil þegar kemur að íslam,“ skrifar Kacem El Ghazzali í hæðnistóni í Berlinske Tidene í mars síðastliðnum. Greinin var skrifuð í tilefni þess að ramadan gekk í garð, hinn heilagi mánuður íslams, sem margir múslimar telja fallegasta tíma ársins.
„Fjölmiðlar og stjórnmálamenn á Vesturlöndum fara fram úr hver öðrum með því að lýsa ramadan sem gleðilegri hátíð. En þessi barnalega rómantík hunsar erfiða þætti ramadan. Fyrir trúarlega minnihlutahópa í íslamska heiminum þýðir föstumánuðurinn eitt umfram allt: aukna kúgun og ofsóknir,“ skrifar El Ghazzali.
Þessi túlkun á ramadan, sem El Ghazzali gagnrýnir, sást til dæmis ágætlega í frétt sem Ólöf Ragnarsdóttir, fréttamaður Ríkisútvarpsins og fyrrverandi íbúi í Palestínu, var með fyrir ári síðan um ramadan þar sem hún ræddi við Redouane Adam Anbari, talsmann Stórmoskunnar á Íslandi. Hann sagði að ramadan sé eins og sumarfrí fyrir magann.
Ramadan er mánuður jihad
El Ghazzali fjallar með öðrum hætti um ramadan eins og áður sagði en hann þekkir vel hvernig hugmyndir dreifast um hinn múslimska heim. Í grein sinni bendir hann á að IslamWeb, áberandi íslömsk vefsíða sem rekin er af trúarmálaráðuneyti Katar, lýsi ramadan sem mánuði jihad. „Jihad í þessum blessaða mánuði er áminning um glæsilega fortíð sem við verðum að stefna að til að komast út úr kreppunni,“ segir á vefsíðunni.
El Ghazzali bendir á að í stað þess að skilgreina jihad sem innri baráttu, eins og sumir á Vesturlöndum vilja, þá bendi vefsíðan á mikilvægi mánaðarins fyrir íslamskan hernað í sögulegu tilliti. Þar er sérstaklega vísað til orrustunar við Badr (624 e. Kr.) og töku Mekka (630 e. Kr.), en hvoru tveggja var undir forystu spámannsins Múhameðs og áttu sér stað á ramadan.
El Ghazzali segir að vefsíðan hvetji fólk beinlínis til að lifa á ramadan eins og spámaðurinn lifði, þar sem „niðurlæging múslima“ er ein af ástæðunum fyrir „vanrækslu þeirra á jihad“.
Ramadan og mikilvægi yfirráða íslam
Þegar Abdul Malik al-Houthi, leiðtogi Houthi-hreyfingarinnar, sem er hvað stækust í gyðingahatri sínu, ávarpaði íslamska fræðimenn og hermenn, lýsti hann ramadan sem mánuð jihad. Um leið minnti hann áheyrendur sína á bardaga spámannsins gegn vantrúuðum á þessum heilaga tíma.
Þrátt fyrir hátíðarstemminguna sem einkennir ramadan ár hvert og birtist í hedonískum veislum, þá er mánuðurinn í huga múslimasamfélagsins tíminn þegar trúaðir búa sig undir að draumurinn um yfirráð íslams verði að veruleika.
Það er mánuðurinn sem maður reynir að lifa eftir kenningum íslams í sinni íhaldssömustu mynd, skrifar El Ghazzali og bætir við: „Dagblöð helga nokkrar blaðsíður dýrð íslams og yfirburði trúarsamfélags íslams yfir aðrar siðmenningar, sem og minningu um bardaga sem múslimar hafa háð gegn vantrúuðum. Jafnvel barnateiknimyndir vegsama hernað spámannsins.“
Segir íslam halda múslimalöndunum í hlekkjum
Hvert og eitt land þarf að ganga í gegnum sína útgáfu af uppgjöri við íslamska trúaraðlögun. Í Danmörku vaknaði upp slík umræða um síðustu aldamót. Einn af upphafsmönnum þessarar umræðu var Naser Khader sem flutti til Kaupmannahafnar frá Damaskus, höfuðborgar Sýrlands, ásamt fjölskyldu sinni þegar hann var 11 ára. Hann hefur gefið út nokkrar bækur og verið ötull talsmaður uppgjörs við íslam. Þannig lýsir hann vel hve ólíkt það var að koma úr kóranskóla þar sem staglast var á Kóraninum daginn út og inn og í danskan skóla. Khader var góður námsmaður og fór í menntaskóla og síðan í háskóla og lærði félagsvísindi. Khader þurfti margoft að endurskoða afstöðu sína til mikilvægra mála í ljósi nýrrar lífsreynslu og gagnrýnnar hugsunar sem hann lærði í Danmörku. Hann fór í pólitík og var borgarfulltrúi í Kaupmannahöfn en settist síðan á þing og sat meðal annars í utanríkismálanefnd þjóðþingsins.