Þegar fréttir berast af vinnuslysi gera flestir ráð fyrir því að þar sé um erlendan starfsmann að ræða. Þannig er Ísland í dag, stór hluti erfiðisvinnustarfa hér á landi er unninn af erlendum starfsmönnum sem hingað koma tímabundið. Flestir sem hafa þurft að kaupa sér vinnu iðnaðarmanna þekkja þetta, stundum er samið við íslenskan fagmann en verkin síðan unnin af útlendingum. Íslensk bygginga- og verktakastarfsemi reiðir sig á erlent vinnuafl og sama má segja um ýmsar aðrar starfsgreinar. Erlent vinnuafl knýr áfram íslenskt hagkerfi og í raun er atvinnulífið búið að aðlaga sig þessu fyrirkomulagi.
Það segir sig sjálft að samkeppni um láglaunastörf mótast af þessum innflutta vinnuafli og fólk sem er komið til að vinna í skamman tíma sættir sig við aðrar aðstæður en innfæddir, horfir frekar á heildartekjurnar en tímakaupið. Við þekkjum þetta sjálf úr okkar lífi að ef farið var í vinnutörn frá heimili, hvort sem það var til sjós eða lands, þá sættu menn sig við annan aðbúnað en þeir áttu að venjast í von um að það yrði til skamms tíma. Það var gjarnan kallað að komast í uppgrip og margir þeir útlendingar sem hér hafa unnið breyttu fjárhagsaðstæðum sínum verulega. Pistlaskrifari heyrði af röskleikamanni frá Rúmeníu sem var búinn að setja niður fyrir sér að starfa hér í átta til tíu ár og taka þannig inn ævitekjur í heimalandinu. Ung stúlka frá Ítalíu var búin að koma undir sig fótunum með nokkurra ára starfi í íslenskri ferðaþjónustu. Auðvitað eru sögurnar eins mismunandi og þær eru margar.
Almenn vanþekking
Það er vitað að flest slys verða vegna ókunnugleika, skorts á þjálfun og áhættumati og almennrar vanþekkingar á aðstæðum. Við Íslendingar náðum gríðarlegum árangri til sjós þegar kvótakerfið var tekið upp og þjálfun sjómanna jókst. Margt breyttist með kvótakerfinu, sjómannastarfið varð meira að starfsferli en tilfallandi vinnu, tekið var á agamálum samhliða því að starfsmannavelta snarminnkaði. Um leið var auðveldara að þjálfa sjómenn sem höfðu meiri þekkingu og væntingar til starfsins. Aðbúnaður batnaði og skilvirkni jókst. Við sjáum því miður að slys verða frekar hjá fólki sem er nýtt á vinnustað eða skilur ekki aðstæður eða leiðbeiningar til fullnustu. Þetta er áskorun fyrir okkar samfélag því við verðum að tryggja öryggi allra sem hér vinna en íslenski vinnumarkaðurinn hefur augljóslega breyst mikið.
Þjóðfélag leikja og lista
En ef Íslendingar eru ekki að starfa þarna, hvað eru þeir þá að gera? Margt hefur breyst á íslenskum vinnumarkaði síðustu áratugi. Atvinnuþátttaka kvenna hefur aukist og störfum í opinberum geira fjölgað. Við fullyrðum fullum fetum að við séum á leiðinni að verða þekkingarþjóðfélag en er ekki nær að segja að við séum að hverfa til leikja og lista?
Hvað er átt við með því? Jú, samfara aukinni landsframleiðslu og auknum kaupmætti hafa fleiri og fleiri kosið að gera íþróttir og listir að lífsferli. Pistlaskrifari getur fullyrt að frá því hans jafnaldrar voru að ákveða menntun og ævistarf hefur margt breyst. Mun hærra hlutfall úr hverjum árgangi sækir listaskóla og reynir að skapa sér starf í kringum listina. Þar eins og annars staðar eru margir kallaðir og fáir útvaldir. Þó að listamönnum sé þvert um geð að tala um fjármál eða hvernig þeir ætla að sjá sér farborða þá er óhætt að fullyrða að meðaltekjur séu þar mun lægri en gengur og gerist. Auðvitað ná sumir listamenn að taka inn góðar tekjur en það er fátítt, flestir búa við talsvert hark. Hér var reyndar í pistli fjallað um hreinskilnislega umræðu listamannsins Tolla um það hvernig hann bjó til verðmætaskapandi vinnuferla í kringum list sína.
Sama á við um íþróttir en á síðustu tveimur áratugum eða svo hefur atvinnumönnum eða hálfatvinnumönnum í íþróttum fjölgað mjög. Stærstu deildir í fótbolta, handbolta og körfubolta halda úti ótilgreindum fjölda atvinnumanna, svo að ætla má að mörg hundruð manns hafi lifibrauð sitt af íþróttaiðkun.
Íslenska endurreisnin
Allt segir þetta okkur sögu mikilla breytinga á Íslandi hvað svo sem menn vilja nákvæmlega lesa í þetta. Við getum hugsanlega leitað til orsaka ítölsku endurreisnarinnar en þá blómguðust listir svo mjög að sjaldan hefur eitt tímabil átt jafn ágæta listamenn í flestum listgreinum. Fjöldi sagnfræðinga hefur spreytt sig á að rekja ástæðurnar fyrir þessu fyrirbrigði, endurreisninni. Þar má horfa til margra hluta en mestu skiptir þó aðstaðan á Ítalíu á 14. og 15. öld. Það var hún sem gerði þetta endurreisnartímabil svo fjölskrúðugt en Ítalía var þá það svæði í Evrópu þar sem mestur auður safnaðist saman. Miðjarðarhafið var þjóðleið arðmestu verslunarinnar fram að landafundum og þessi verslun er blómlegust í ítölsku borgunum þar sem listalífið var fjörugast.
Auðvitað getum við farið enn lengra aftur, eða til rómverska keisaradæmisins þar sem brauð, leikir og listir voru borin upp af aðfluttum þrælum. En hugsanlega fellur ekki öllum sú samlíking.