c

Pistlar:

9. september 2024 kl. 11:08

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sumarauki í Kaupmannahöfn

Jónshús í Kaupmannahöfn verður bráðlega miðpunktur í heimsókn Höllu Tómasdóttur forseta Íslands til Danmerkur. Eins og hefðin segir til um er fyrsta heimsókn nýs forseta til Danmerkur, svona sem áminning um sterk og söguleg tengsl landanna. Svo vill til að þessi heimsókn verður einnig fyrsta opinbera þjóðhöfðingjamóttaka Friðriks tíunda sem varð konungur í Danmörku í byrjun árs þegar móðir hans, Margrét Þórhildur, afsalaði sér krúnunni eftir 52 ár á valdastóli. Heimsóknin er því nokkur tíðindi fyrir báða þjóðhöfðingjana.jonshus-2018

Í skipulagi heimsóknarinnar er gert ráð fyrir að Halla og Friðrik hittist í Jónshúsi sem er áhugavert og sýnir líklega vel hlutverk hússins í dag sem helsti samkomustaður Íslendinga í Kaupmannahöfn. Árið 1966 var húsið í eigu Carls og Johanne Sæmundsen, en einmitt það ár gáfu þau Alþingi húsið í minningu Jóns Sigurðssonar og Ingibjargar konu hans. Carl var kaupmaður og hafði efnast vel en húsið var í niðurníðslu á þeim tíma.

Jónshús og efnahagur Íslendinga

Í raun má sjá efnahagssögu Íslands í hnotskurn síðan húsið var gefið en á þeim tíma var efnahagur landsins í molum eftir að síldin hvarf og þar með 25% af útflutningstekjum landsmanna. Ekkert var gert við húsið fyrstu árin og það var ekki fyrr en hústökufólk fór að venja komur sínar þangað að menn urðu að bregðast við til að varðveita eignina. Við athöfn 12. september 1970 var húsið því formlega tekið í notkun sem félagsmiðstöð Íslendinga í Kaupmannahöfn, innréttuð var fræðimannsíbúð á 2. hæð og jafnframt sett upp sýning um Jón og Ingibjörgu á þriðju hæðinni.

Í dag er mikill sómi að húsinu, það er hvítmálað, reisulegt, í góðu viðhaldi og ríkulegri notkun. Bekkur er kominn við húsgaflinn þar sem áður var inngangur að hjólreiðaverkstæði. Þrjár íbúðir eru í húsinu, þar af tvær fyrir fræðimenn og svo umsjónarmann hússins. Þá skiptir miklu að íbúð Ingibjargar og Jóns hefur verið sett í fyrra horf en það var gert árið 2018 en húsið er á ábyrgð Alþingis Íslendinga. Þar er mjög skemmtileg sýning með góðum upplýsingaskiltum. Gripirnir sem eru í íbúðinni eru reyndar ekki upprunalegir, þeir voru fluttir til Íslands eftir dauða Jóns og Ingibjargar og eru í geymslum Þjóðminjasafnsins. Því var keypt inn í íbúðina að bestu manna yfirsýn en þó fyndist manni að eitthvað mætti vera þar frá upprunalegu eigendunum.

Á Kaupmannahafnarsvæðinu búa alla jafna þúsundir Íslendinga og í húsinu er mikið starf þeim tengt. Utan um starfsemi Jónshúss er rekin ágæt heimasíða þar sem allar helstu upplýsingar er að finna.khöfn

Sumarauki í Kaupmannahöfn

Það var gaman að heimsækja Kaupmannahöfn í blíðunni undanfarna daga en hitamet voru slegin og hiti í kringum 30 stig, sem er heldur óvenjulegt miðað við árstíma. Óhætt er að bæjarlífið hafi blómstrað við þessar aðstæður og fólk gat setið úti við léttklætt fram á kvöld.

Margt er vel gert í Kaupmannahöfn en fyrst hljótum við að staðnæmast við samgöngumálin. Jarðlestarkerfið borgarinnar er nú komið að fullu í notkun og í júní síðastliðnum voru nýjar stöðvar opnaðar en fjórar línur eru nú auk hringlínunnar. Þannig komst maður frá Kastrup flugvelli á Ráðhústorgið á um hálftíma með einni skiptingu. Afskaplega þægilegt fyrirkomulag en um 123 milljónir farþega fóru um jarðlestakerfið á síðasta ári. Árið 2030 eiga enn nýjar stöðvar að komast í notkun.

Því má segja að jarðlestin og reiðhjól séu nú kjarninn í samgöngum borgarinnar en í miðbænum fer um helmingur íbúa til og frá vinnu á hjóli. Eiginlega hjóla allir sinna ferða enda sléttlendi og hagstætt veðurfar. En þetta hefur gríðarleg áhrif á borgarlífið, bílar eru sjaldséðir og nánast enginn umferðarhávaði. Þetta hefur sem vonlegt er mikil áhrif á lífsgæði borgarbúa.

Kaupmannahöfn er vinsælasti ferðamannastaður Norðurlandanna og skyldi engan undra eftir að hafa notið borgarinnar í blíðu undanfarinna daga. Að baki liggur löng saga og að endingu hafa íbúar náð að taka skynsamar ákvarðanir í uppbyggingu samfélagsins sem er til eftirbreytni.