c

Pistlar:

18. september 2024 kl. 16:58

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Af hverju styðja Íslendingar eingöngu demókrata?

Í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup mældist Kamala Harris, frambjóðandi Demókrataflokksins, með 91% fylgi meðal Íslendinga. Mótframbjóðandi hennar, Donald Trump, mælist aðeins með 9% fylgi. Fleiri konur en karlar styðja Harris en hvorki fleiri né færri en 96% íslenskra kvenna segjast myndu kjósa Harris en 85% karla. Þetta er í takt við aðrar slíkar kannanir á afstöðu íslenskra kjósenda til bandarískra stjórnmála. Á sínum tíma þegar Barack Obama atti kappi við Mitt Romney, forsetaefni Repúblikana, kom í ljós að hvergi í heiminum fannst meiri stuðningur við Obama en á Íslandi en þá sögðust 98% aðspurðra ætla að kjósa hann.harris-trump

Eðlileg staða?

Auðvitað kýs fólk á Íslandi ekki forseta Bandaríkjanna. Það er hins vegar fróðlegt að velta því fyrir sér af hverju fulltrúar Demókrata, og þá sérstaklega Obama þá og Harris núna, njóti slíks yfirburðastuðnings hér á landi. Sérstaklega þegar horft er til þess að í Bandaríkjunum skiptast atkvæði mjög jafnt á milli þessara forsetaframbjóðendanna. Þeir sem skrifa fréttir um þennan mikla mun virðast lítið kippa sér upp við það. Ef til vill telja íslenskir blaðamenn að þetta sé eðlileg niðurstaða. Enginn virðist spyrja hinnar augljósu spurningar: Hvað veldur þessum ótrúlega mun á frambjóðendunum?

Getur verið að svarið liggi einmitt hjá þessum sömu fréttamönnum? Að þessar niðurstöður komi algerlega heim og saman við þeirra eigin skoðanir og heimssýn? Er þetta ekki sönnun þess að ennþá geti hefðbundnir fjölmiðlar haft talsverð áhrif við að móta skoðanir almennings.

Bergmálshellir meginstraumsmiðla

Nú í seinni tíð höfum við vanist umræðu um að skoðanamyndandi áhrif hefðbundinna fjölmiðla (meginstraumsmiðla eins og þeir eru stundum kallaðir) séu þverrandi. Fólk leiti sér frekar upplýsinga á samfélagsmiðlum eða minni persónulegum miðlum, svo sem hlaðvörpum. Út af þessu hafa menn óttast að það verði til bergmálshellar, fólki sé eiginlegt að leita til þeirra sem deili með því sameiginlegri lífssýn og skoðunum. Fyrir vikið verði umræðan fátæklegri og meira eintóna. Einhverjir myndu jafnvel segja að þetta gæti ógnað lýðræðislegri umræðu.

En getur þá verið að íslenskum fjölmiðlum hafi tekist að búa sér til sinn eigin bergmálshelli þegar kemur að bandarískum stjórnmálum? Ríkisútvarpið er með drottnandi stöðu á fjölmiðlamarkaði. Óhætt er að segja að umræðan þar um bandarísk stjórnmál sé heldur eintóna. Hefur einhver heyrt eða séð Ríkisútvarpið flytja frétt út frá sjónarhóli Repúblikanaflokksins? Þar virðist sem allar fréttir komi beint frá kosningavél Demókrata. Í því ljósi er 91% stuðningur við frambjóðendur Demókrata skiljanlegur (þótt líklega sé hann 100% á Fréttastofu Ríkisútvarpsins).harris trump

Frásögn demókrata ræður

Verra er að einkamiðillinn Vísir er eins og útibú frá Ríkisútvarpinu þegar kemur að fréttaflutningi af bandarískum stjórnmálum. Þar eru allar fréttir um Trump byggðar á kosningataktík og hagsmunum demókrata sem meðal annars gengur út á að láta þá Donald Trump og J.D. Vance, varaforsetaefni hans, líta út sem skrítna (weird) en Tim Walz, varaforsetaefni Kamala Harris, hefur verið sérstaklega áhugasamur um að heyja þannig baráttu. Vissulega er þetta gamalkunn taktík sem byggist á að geta stýrt sögunni eða frásögninni (narrative) um pólitíska andstæðinga. Íslenskir álitsgjafar í fjölmiðlum um Bandaríkin virðast vera valdir til þess að styðja við þessa frásögn demókrata. Þau þrjú fyrirferðamestu eru Silja Bára Ómarsdóttir, Friðjón Friðjónsson og Sigríður Rut Júlíusdóttir. Öll eru þau harðir stuðningsmenn Demókrataflokksins eins og hefur verið vikið að hér áður.

Fremur en fyrri daginn virðast Íslendingar ekki geta reitt sig á hlutlausan fréttaflutning af bandarískum stjórnmálum. Það áhugaverða er að líklega finnst engum á Vísi og Ríkisútvarpinu sú vera raunin. Þar sé þetta bara barátta milli hins góða og hins illa, og auðvitað stöndum við með hinu góða.