c

Pistlar:

19. maí 2025 kl. 14:21

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sjávarútvegurinn hvarf af gjaldþrotaleiðinni

Það ferðalag sem hefur verið í íslenskum sjávarútvegi undanfarin 30 til 40 ár er merkilegt og hefur á flestan hátt heppnast vel. Það er ekki sjálfgefið að hér sé rekinn arðbær, skilvirkur, framsækinn og umhverfisvænn sjávarútvegur. Flestir fræðimenn sem um sjávarútveginn fjalla eru sammála þessu eins og hefur margoft verið vakin athygli á í pistlum hérna.villi

Það var því áhugavert að lesa bók Vilhjálms Egilssonar, fyrrverandi alþingismanns og rektors, Vegferð til farsældar – sýn sjálfstæðismanns til 60 ára. Í bók sinni fjallar hann um þróun íslensks samfélags undanfarna áratugi og rekur sýn sína á ýmis viðfangsefni sem fram undan eru. Í kafl­an­um „Sjáv­ar­út­veg­ur frá gjaldþrot­um til fyr­ir­mynd­ar,“ seg­ir Vil­hjálm­ur frá breyt­ing­um á stjórn fisk­veiða hér við land og aðkomu sinni að þeim breyt­ing­um en hann hefur upplifað. Þetta er mikilvæg upprifjun því segja má að Vilhjálmur hafi verið í hringiðu þess ferils sem skóp rekstrarumgjörð sjávarútvegsins eins og hann er í dag. Það var síður en svo sjálfgefið eins og sést af því að EBITDA-fram­legð í ís­lensk­um hvít­fiskiðnaði hef­ur mælst allt að 29% en hef­ur varla náð 2% í Nor­egi. Slík­ur mun­ur end­ur­spegl­ar áhrif kerf­is­upp­bygg­ing­ar á arðsemi og af­komu, kerfisuppbyggingu sem fræðimenn eins og dr. Þráinn Eggertsson hafa rannsakað eins og vakin var athygli á hér í síðasta pistli.

Vilhjálmur sat á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá 1991 til 2003 og var þá meðal annars formaður efnahags- og viðskiptanefndar. Hann er með doktorspróf í hagfræði frá University of Southern California (USC) í Los Angeles og hefur gegnt ábyrgðastörfum víða í samfélaginu, meðal annars verið rektor Háskólans á Bifröst.

Vilhjálmur rifjar upp í bók sinni að þegar kom fram á ní­unda ára­tug síðustu ald­ar lá fyr­ir að ekki yrði um­flúið að taka al­var­lega á stjórn fisk­veiðanna og eft­ir mikl­ar umræður var ákveðið að taka upp kvóta­kerfi árið 1984 í bol­fisk­veiðum sem bæði fólst í afla­marki og sókn­ar­marki. Fyrst voru lög­in sett til eins árs og svo ári seinna til þriggja ára og á ár­inu 1988 til fjög­urra ára. Fyr­ir­komu­lagið var alltaf um­deilt en þró­un­in var í átt til afla­marks og auk­ins frels­is til framsals afla­heim­ilda sem er for­senda hagræðing­ar í veiðum.

Afla­marks­kerfið festist end­an­lega í sessi

Vilhjálmur sat í sjáv­ar­út­vegs­nefnd all­an sinn tíma á Alþingi. Eitt af því fyrsta sem því fylgdi var að taka sæti í nefnd um end­ur­skoðun á lög­um um stjórn fisk­veiða sem ein­hverj­ir fóru að kalla tví­höfðanefnd í háðung­ar­skyni, þar sem tveir for­menn voru í nefnd­inni. Nefnd­in skilaði mik­illi skýrslu í maí 1993 og hélt síðan kynn­ing­ar­fundi víða um land.

Vilhjálmur rifjar upp að með lög­un­um hafi afla­marks­kerfið verið fest end­an­lega í sessi þótt ekki væri lokað gluf­um vegna veiða smá­báta. Ein stór breyt­ing sem tví­höfðanefnd­in lagði til og var í frum­varp­inu en náði ekki fram að ganga var að fram­selja mætti afla­mark á fisk­vinnslu­stöðvar þannig að fisk­vinnsl­an gæti átt og ráðstafað kvóta eins og út­gerðin. Hefði þetta náð fram að ganga var séð fram á meira jafn­vægi milli út­gerðar og fisk­vinnslu og sam­keppn­is­hæfni sjáv­ar­byggða hefði styrkst. En þessi til­laga var dreg­in til baka í tengsl­um við vinnu­deilu út­vegs­manna og sjó­manna. Þegar svo þessi til­laga var dreg­in aft­ur upp á borð löngu seinna var málið orðið „vanda­mál gær­dags­ins“, segir Vilhjálmur.

Ýmsar breyt­ing­ar voru svo gerðar í fram­hald­inu á lög­um um stjórn fisk­veiða. Sner­ust þær mest um smá­báta og til­raun­ir til að tak­marka gluf­una sem var fyr­ir þá. „Ein mik­il­væg breyt­ing sem gerð var í kjöl­far hæsta­rétt­ar­dóms var að af­nema svo­kallaða rúm­metr­a­reglu en hún tak­markaði aðgang nýrra fiski­skipa inn í flot­ann við þau skip sem fóru úr flot­an­um. Fisk­veiðistjórn­un­in var alla tíð um­deild eins og vænta mátti þegar þurfti að tak­marka veiðar. Í öll­um þeim kosn­inga­bar­átt­um til alþing­is sem ég tók þátt í var tek­ist á um stjórn­un fisk­veiða en við sem studd­um afla­marks­kerfið unn­um jafn­an umræðuna og höfðum bet­ur. Fylgið jókst jafn­an milli kosn­inga,“ skrifar Vilhjálmur.vegferd-til-farsaeldar-scaled

Veiðigjald inn­leitt

Á ár­inu 1999 var aft­ur skipuð nefnd um end­ur­skoðun á lög­um um stjórn fisk­veiða. Umræðan um veiðigjald hafði þá auk­ist m.a. í kjöl­far skýrslu auðlinda­nefnd­ar þar sem rætt var um að sjáv­ar­út­veg­ur­inn ætti að greiða gjald fyr­ir nýt­ing­ar­rétt­inn á fiski­stofn­un­um. Vilhjálmur sat í nefnd­inni ásamt full­trú­um allra hinna þing­flokk­anna en Friðrik Már Bald­urs­son var formaður henn­ar. Nefnd­inni var falið að gera til­lög­ur um end­ur­skoðun á lög­gjöf­inni í því skyni að ná meiri sátt um fisk­veiðistjórn­un­ina án þess að raska hag­kvæmni eða stöðug­leika í sjáv­ar­út­veg­in­um.

Nefnd­in fjallaði um gjald­tök­una og hvaða form ætti að vera á henni. „Fyr­ir suma skipti formið meira máli en fjár­hæðin sem skyldi koma frá sjáv­ar­út­veg­in­um. Fjallað var um veiðigjald sem beina gjald­töku, hug­mynd­ir voru sett­ar fram um fyrn­ingu afla­marks og upp­boð og enn ­frem­ur var rætt um svo­kallaða samn­inga­leið sem byggði á nýt­ing­ar­rétt­ar­samn­ing­um til langs tíma. Veiðigjalds­leiðin varð ofan á og hef­ur verið notuð síðan. Reynd­ar komst samn­inga­leiðin aft­ur upp á borð sem til­laga nefnd­ar und­ir for­ystu Guðbjarts Hann­es­son­ar í tíð rík­is­stjórn­ar Jó­hönnu Sig­urðardótt­ur. En þá fékk hún ekki braut­ar­gengi inn­an Sam­fylk­ing­ar­inn­ar og hef­ur ekki verið til umræðu síðan,“ skrifar Vilhjálmur.

Tekist á um upphæði veiðigjaldsins

Vilhjálmur rifjar upp að eitt af því sem nefnd­in 1999 ræddi var hversu hátt veiðigjaldið skyldi vera. „Smám sam­an var farið að tala um 2,5 millj­arða sem upp­hæð sem hægt væri að horfa á og ég var bú­inn að prófa á mínu baklandi í sjáv­ar­út­veg­in­um. Þá gerðist það að haldið var ár­legt þing Sam­bands sveit­ar­fé­laga í Norður­lands­kjör­dæmi vestra og þar vor­um við stadd­ir þing­menn­irn­ir í nefnd­inni sem gest­ir. En á þing­inu fóru sveit­ar­stjórn­ar­menn að ganga á fé­laga mína í nefnd­inni og spyrja þá um hvort til stæði að leggja á 2,5 millj­arða í veiðigjald. All­ir voru með á hreinu hvaða fjár­mun­ir myndu renna frá byggðarlög­un­um í kjör­dæm­inu til Reykja­vík­ur en þeir myndu ekki skila sér til baka. En fé­lag­ar mín­ir vildu ekki standa fyr­ir mál­inu og vísuðu því öllu á mig eins og að þetta væri mín hug­mynd frá upp­hafi til enda. Svo þegar ég frétti frá sveit­ar­stjórn­ar­mönn­un­um hvernig fé­lag­ar mín­ir höfðu svarað krafðist ég þess á næsta nefnd­ar­fundi að fjár­hæðin yrði lækkuð um 1 millj­arð niður í 1,5 millj­arð sem varð svo niðurstaðan sem horft var til við ákvörðun gjalds­ins,“ skrifar Vilhjálmur

Veiðigjaldið hef­ur svo þró­ast í tím­ans rás eins og lög­gjöf­in sjálf. Í fjár­lög­um fyr­ir árið 2024 er miðað við að veiðigjald skili 10 millj­örðum og gjaldið hef­ur hækkað frá því að vera um 1,2% af út­flutn­ings­verðmæti sjáv­ar­af­urða í 2,8%. „Á tíma mín­um sem ráðuneyt­is­stjóra sjáv­ar­út­vegs­ráðuneyt­is­ins enduðu króka­bát­arn­ir í sér­stöku afla­marks­kerfi og var þá búið að loka öll­um gluf­um í stjórn­un­inni. Sú skip­an hélst þangað til opnað var á strand­veiðar sem bjuggu til nýja glufu og sí­fellt er þrýst á að stækka hana,“ rifjar Vilhjálmur upp.

All­ir njóta ár­ang­urs­ins

Vilhjálmur dregur þá niðurstöðu af fisk­veiðistjórn­un­inni og afla­marks­kerf­inu að sjáv­ar­út­veg­ur­inn hef­ur breyst frá því að vera á rekstr­ar­leg­um brauðfót­um á ní­unda ára­tug síðustu ald­ar yfir í að vera öfl­ug og arðsöm at­vinnu­grein. Hagfræðileg niðurstaða af öllu þessu er merkileg eins og Vilhjálmur bendir á: „Tek­ist hef­ur með sjálf­bærri nýt­ingu fiski­stofn­anna að auka út­flutn­ings­verðmæti sjáv­ar­af­urða að raun­gildi um 1% á ári að meðaltali síðustu þrjá ára­tug­ina þrátt fyr­ir að störf­um í sjáv­ar­út­vegi hafi fækkað um þriðjung við fisk­veiðar og rúm­lega helm­ing við fisk­vinnslu. Þetta lýs­ir vel þeirri fram­leiðni­bylt­ingu sem hef­ur orðið í at­vinnu­grein­inni. Laun í sjáv­ar­út­vegi eru með því sem best ger­ist á Íslandi eða um 1,1 millj­ón kr. á mánuði að meðaltali (12 mán. 2023–2024). Þau til­heyra hæsta tekju­fjórðungi vinn­andi fólks á al­menn­um vinnu­markaði. Starfs­fólk í sjáv­ar­út­vegi hef­ur því notið fram­far­anna ríku­lega. Sér­stak­lega sjó­menn þar sem al­gengt er að tveir séu núna um eitt pláss eða þrír um tvö pláss og þeir hafa því mun styttri vinnu­tíma en áður fyrr og njóta auðugra fjöl­skyldu­lífs.“

Sjávarútvegurinn er burðarás í íslensku efnahagslífi og skilar stórum hluta útflutningstekna landsmanna. Arðsemi er háð ytri þáttum eins og náttúruöflum, alþjóðlegri samkeppni og regluverki. Við getum ekki tekið því sem sjálfsögðum hlut að þetta verði svona í framtíðinni.