Það ferðalag sem hefur verið í íslenskum sjávarútvegi undanfarin 30 til 40 ár er merkilegt og hefur á flestan hátt heppnast vel. Það er ekki sjálfgefið að hér sé rekinn arðbær, skilvirkur, framsækinn og umhverfisvænn sjávarútvegur. Flestir fræðimenn sem um sjávarútveginn fjalla eru sammála þessu eins og hefur margoft verið vakin athygli á í pistlum hérna.
Það var því áhugavert að lesa bók Vilhjálms Egilssonar, fyrrverandi alþingismanns og rektors, Vegferð til farsældar – sýn sjálfstæðismanns til 60 ára. Í bók sinni fjallar hann um þróun íslensks samfélags undanfarna áratugi og rekur sýn sína á ýmis viðfangsefni sem fram undan eru. Í kaflanum „Sjávarútvegur frá gjaldþrotum til fyrirmyndar,“ segir Vilhjálmur frá breytingum á stjórn fiskveiða hér við land og aðkomu sinni að þeim breytingum en hann hefur upplifað. Þetta er mikilvæg upprifjun því segja má að Vilhjálmur hafi verið í hringiðu þess ferils sem skóp rekstrarumgjörð sjávarútvegsins eins og hann er í dag. Það var síður en svo sjálfgefið eins og sést af því að EBITDA-framlegð í íslenskum hvítfiskiðnaði hefur mælst allt að 29% en hefur varla náð 2% í Noregi. Slíkur munur endurspeglar áhrif kerfisuppbyggingar á arðsemi og afkomu, kerfisuppbyggingu sem fræðimenn eins og dr. Þráinn Eggertsson hafa rannsakað eins og vakin var athygli á hér í síðasta pistli.
Vilhjálmur sat á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá 1991 til 2003 og var þá meðal annars formaður efnahags- og viðskiptanefndar. Hann er með doktorspróf í hagfræði frá University of Southern California (USC) í Los Angeles og hefur gegnt ábyrgðastörfum víða í samfélaginu, meðal annars verið rektor Háskólans á Bifröst.
Vilhjálmur rifjar upp í bók sinni að þegar kom fram á níunda áratug síðustu aldar lá fyrir að ekki yrði umflúið að taka alvarlega á stjórn fiskveiðanna og eftir miklar umræður var ákveðið að taka upp kvótakerfi árið 1984 í bolfiskveiðum sem bæði fólst í aflamarki og sóknarmarki. Fyrst voru lögin sett til eins árs og svo ári seinna til þriggja ára og á árinu 1988 til fjögurra ára. Fyrirkomulagið var alltaf umdeilt en þróunin var í átt til aflamarks og aukins frelsis til framsals aflaheimilda sem er forsenda hagræðingar í veiðum.
Aflamarkskerfið festist endanlega í sessi
Vilhjálmur sat í sjávarútvegsnefnd allan sinn tíma á Alþingi. Eitt af því fyrsta sem því fylgdi var að taka sæti í nefnd um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða sem einhverjir fóru að kalla tvíhöfðanefnd í háðungarskyni, þar sem tveir formenn voru í nefndinni. Nefndin skilaði mikilli skýrslu í maí 1993 og hélt síðan kynningarfundi víða um land.
Vilhjálmur rifjar upp að með lögunum hafi aflamarkskerfið verið fest endanlega í sessi þótt ekki væri lokað glufum vegna veiða smábáta. Ein stór breyting sem tvíhöfðanefndin lagði til og var í frumvarpinu en náði ekki fram að ganga var að framselja mætti aflamark á fiskvinnslustöðvar þannig að fiskvinnslan gæti átt og ráðstafað kvóta eins og útgerðin. Hefði þetta náð fram að ganga var séð fram á meira jafnvægi milli útgerðar og fiskvinnslu og samkeppnishæfni sjávarbyggða hefði styrkst. En þessi tillaga var dregin til baka í tengslum við vinnudeilu útvegsmanna og sjómanna. Þegar svo þessi tillaga var dregin aftur upp á borð löngu seinna var málið orðið „vandamál gærdagsins“, segir Vilhjálmur.
Ýmsar breytingar voru svo gerðar í framhaldinu á lögum um stjórn fiskveiða. Snerust þær mest um smábáta og tilraunir til að takmarka glufuna sem var fyrir þá. „Ein mikilvæg breyting sem gerð var í kjölfar hæstaréttardóms var að afnema svokallaða rúmmetrareglu en hún takmarkaði aðgang nýrra fiskiskipa inn í flotann við þau skip sem fóru úr flotanum. Fiskveiðistjórnunin var alla tíð umdeild eins og vænta mátti þegar þurfti að takmarka veiðar. Í öllum þeim kosningabaráttum til alþingis sem ég tók þátt í var tekist á um stjórnun fiskveiða en við sem studdum aflamarkskerfið unnum jafnan umræðuna og höfðum betur. Fylgið jókst jafnan milli kosninga,“ skrifar Vilhjálmur.
Veiðigjald innleitt
Á árinu 1999 var aftur skipuð nefnd um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða. Umræðan um veiðigjald hafði þá aukist m.a. í kjölfar skýrslu auðlindanefndar þar sem rætt var um að sjávarútvegurinn ætti að greiða gjald fyrir nýtingarréttinn á fiskistofnunum. Vilhjálmur sat í nefndinni ásamt fulltrúum allra hinna þingflokkanna en Friðrik Már Baldursson var formaður hennar. Nefndinni var falið að gera tillögur um endurskoðun á löggjöfinni í því skyni að ná meiri sátt um fiskveiðistjórnunina án þess að raska hagkvæmni eða stöðugleika í sjávarútveginum.
Nefndin fjallaði um gjaldtökuna og hvaða form ætti að vera á henni. „Fyrir suma skipti formið meira máli en fjárhæðin sem skyldi koma frá sjávarútveginum. Fjallað var um veiðigjald sem beina gjaldtöku, hugmyndir voru settar fram um fyrningu aflamarks og uppboð og enn fremur var rætt um svokallaða samningaleið sem byggði á nýtingarréttarsamningum til langs tíma. Veiðigjaldsleiðin varð ofan á og hefur verið notuð síðan. Reyndar komst samningaleiðin aftur upp á borð sem tillaga nefndar undir forystu Guðbjarts Hannessonar í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. En þá fékk hún ekki brautargengi innan Samfylkingarinnar og hefur ekki verið til umræðu síðan,“ skrifar Vilhjálmur.
Tekist á um upphæði veiðigjaldsins
Vilhjálmur rifjar upp að eitt af því sem nefndin 1999 ræddi var hversu hátt veiðigjaldið skyldi vera. „Smám saman var farið að tala um 2,5 milljarða sem upphæð sem hægt væri að horfa á og ég var búinn að prófa á mínu baklandi í sjávarútveginum. Þá gerðist það að haldið var árlegt þing Sambands sveitarfélaga í Norðurlandskjördæmi vestra og þar vorum við staddir þingmennirnir í nefndinni sem gestir. En á þinginu fóru sveitarstjórnarmenn að ganga á félaga mína í nefndinni og spyrja þá um hvort til stæði að leggja á 2,5 milljarða í veiðigjald. Allir voru með á hreinu hvaða fjármunir myndu renna frá byggðarlögunum í kjördæminu til Reykjavíkur en þeir myndu ekki skila sér til baka. En félagar mínir vildu ekki standa fyrir málinu og vísuðu því öllu á mig eins og að þetta væri mín hugmynd frá upphafi til enda. Svo þegar ég frétti frá sveitarstjórnarmönnunum hvernig félagar mínir höfðu svarað krafðist ég þess á næsta nefndarfundi að fjárhæðin yrði lækkuð um 1 milljarð niður í 1,5 milljarð sem varð svo niðurstaðan sem horft var til við ákvörðun gjaldsins,“ skrifar Vilhjálmur
Veiðigjaldið hefur svo þróast í tímans rás eins og löggjöfin sjálf. Í fjárlögum fyrir árið 2024 er miðað við að veiðigjald skili 10 milljörðum og gjaldið hefur hækkað frá því að vera um 1,2% af útflutningsverðmæti sjávarafurða í 2,8%. „Á tíma mínum sem ráðuneytisstjóra sjávarútvegsráðuneytisins enduðu krókabátarnir í sérstöku aflamarkskerfi og var þá búið að loka öllum glufum í stjórnuninni. Sú skipan hélst þangað til opnað var á strandveiðar sem bjuggu til nýja glufu og sífellt er þrýst á að stækka hana,“ rifjar Vilhjálmur upp.
Allir njóta árangursins
Vilhjálmur dregur þá niðurstöðu af fiskveiðistjórnuninni og aflamarkskerfinu að sjávarútvegurinn hefur breyst frá því að vera á rekstrarlegum brauðfótum á níunda áratug síðustu aldar yfir í að vera öflug og arðsöm atvinnugrein. Hagfræðileg niðurstaða af öllu þessu er merkileg eins og Vilhjálmur bendir á: „Tekist hefur með sjálfbærri nýtingu fiskistofnanna að auka útflutningsverðmæti sjávarafurða að raungildi um 1% á ári að meðaltali síðustu þrjá áratugina þrátt fyrir að störfum í sjávarútvegi hafi fækkað um þriðjung við fiskveiðar og rúmlega helming við fiskvinnslu. Þetta lýsir vel þeirri framleiðnibyltingu sem hefur orðið í atvinnugreininni. Laun í sjávarútvegi eru með því sem best gerist á Íslandi eða um 1,1 milljón kr. á mánuði að meðaltali (12 mán. 2023–2024). Þau tilheyra hæsta tekjufjórðungi vinnandi fólks á almennum vinnumarkaði. Starfsfólk í sjávarútvegi hefur því notið framfaranna ríkulega. Sérstaklega sjómenn þar sem algengt er að tveir séu núna um eitt pláss eða þrír um tvö pláss og þeir hafa því mun styttri vinnutíma en áður fyrr og njóta auðugra fjölskyldulífs.“
Sjávarútvegurinn er burðarás í íslensku efnahagslífi og skilar stórum hluta útflutningstekna landsmanna. Arðsemi er háð ytri þáttum eins og náttúruöflum, alþjóðlegri samkeppni og regluverki. Við getum ekki tekið því sem sjálfsögðum hlut að þetta verði svona í framtíðinni.