Atli Harðarson, prófessor við menntavísindasvið Háskóla Íslands, hefur vakið athygli fyrir greiningu sína á skólamálaumræðunni en hann segir að hæfniviðmiðin í aðalnámskrá grunnskóla séu í raun bara bull og vitleysa. Það sjái almenningur í raun enda hafi hann misst trúna á því að skólastarfið sé eitthvað sem hvetja eigi börn til að taka alvarlega. „Við erum með aðalnámskrá sem blaðrar bara út og suður um einhverja þúsund hluti en segir í rauninni ekki hvað fólk á að læra,“ segir Atli í samtali við mbl.is en hann hefur lifað og hrærst í skólakerfinu í fjóra áratugi og á að baki farsælan og eftirtektarverðan feril þar, meðal annars sem skólameistari Fjölbrautaskólans á Akranesi um langt árabil og er ekki þekktur af stóryrðum.
Það hefur verið dapurlegt að fylgjast með umræðu um íslenska skólakerfið undanfarin misseri og Atli bendir á að reglulega rjúki menn upp til handa og fóta þegar eitthvað sé ómögulegt í skólakerfinu. „Þá ætla þeir að grípa til einhverra stórkostlegra úrræða og þannig hefur skólinn búið við það sem ég vil kalla endurtekna umbótaplágu. Það er aldrei næði til að skapa starfsvenjur, sem mótast yfirleitt yfir einhvern tíma, því það eru alltaf einhverjir sem ætla að grípa til einhverra risastórra björgunaraðgerða.“
Allt breytt á morgun
Það er óvenjulegt að fá jafn hreinskilna umræðu frá manni í hans stöðu en því miður er bull og vitleysa í boði stjórnvalda víða. Þannig eru reistar hátimbraðar áætlanir, fóðraðar með ímyndaskýrslum sem eru fullar af froðu og áætlanir sem aldrei eru raunhæfar. Að endingu situr almenningur uppi með vonda stefnu og afleita framkvæmd sem þar að auki setur ómældan kostnað á skattgreiðendur. Hreinskilni eins og sú sem birtist hjá Atla þyrfti að vera víðar. Stundum má bara hinkra við og einfalda hlutina og flýta sér hægt. Sú viðleitni stjórnvalda að vera stöðugt að uppfæra og breyta áætlunum gerir það að verkum að enginn tekur lengur hlutina alvarlega. Því að setja sig inn í hlutina þegar allt verður breytt á morgun?
Fjárlög og fjármálaáætlanir
Þetta birtist ágætlega í fjárlagagerðinni og tali fjármálaráðherra þessa dagana sem er að finna leiðir til að koma þeim miklu framkvæmdum sem búið er að lofa undir merkjum endurreisnar innviða án þess að það hafi áhrif á fjárlög dagsins í dag. Allt til þess að hægt sé að halda áfram að verja fjármunum í óarðbær verkefni sem ekki er brýn þörf fyrir. Ef einhver þarf að vera hreinskilinn og laus við bull og vitleysu þá er það fjármálaráðherra. Fjárlög eru ekki aðeins ávísun á útgjöld heldur hafa þau líka áhrif á hagkerfið og geta skapað þenslu sem birtist aftur í meiri verðbólgu og hærri stýrivöxtum.
Samgönguáætlanir og framkvæmdaáætlanir
Sama má segja um aðrar áætlanir ríkisins, svo sem samgönguáætlun og forgangsröðun samkvæmt henni. Innviðaráðherra hefur lýst því yfir að hann sé „ekkert bundinn af þeirri forgangsröðun sem hefur verið“ og vísar þar til þeirrar forgangsröðunar sem birtist í gildandi samgönguáætlun sem virðist upptakur að því að slá af Fjarðarheiðargöng. Það eitt og sér er ekki vandinn enda göngin óheyrilega dýr og um þau deilt meðal heimamanna. Það er aðferðafræðin sem er undir verkáætluninni bull og vitleysa.
Auðvitað stendur þannig á að nýr innviðaráðherra getur lagt fram sína samgönguáætlun, framkvæmdaáætlun til fimm ára og langtímaáætlun til fimmtán ára eins og Bergþór Magnússon, þingflokksformaður Miðflokksins, benti á í grein í Morgunblaðinu um helgina. Þar bendir Bergþór á að ráðherrann er samkvæmt lögum bundinn af því að leggja fram báðar áætlanirnar, það er bæði aðgerðaáætlunina sem er til fimm ára og langtímaáætlunina sem er til fimmtán ára. Allt þetta kostar mikla vinnu af hálfu Alþingis og þeirra sem vinna að þessum áætlunum annars vegar og allra þeirra sem verja tíma í umsagnir um þær. „Ef ráðherrann er búinn að segja að engin leiðsögn felist í fyrri langtímaáætlunum, þá vaknar spurningin: Ætlar ráðherra að leggja fram fimmtán ára áætlun? Þegar hann hefur sjálfur sagt hana heldur haldlitla?“ spyr Bergþór.
Þetta setur ákvarðanir innviðaráðherra í skýrt samhengi sem því miður verður að hálfgerðu bulli og vitleysu. Nú hlýtur til dæmis innviðaráðherra að velta því fyrir sér hvort ekki fari vel á því að hann leggi fram frumvarp um breytingu á lögum um samgönguáætlun áður en hann leggur fram tvær samgönguáætlanir, til fimm og fimmtán ára, þar sem hann afnemur skyldu sína sem ráðherra til að leggja langtímaáætlunina fram, enda virðist hún fyrst og fremst til sýnis og að því er virðist til tímabundinnar friðþægingar óþægilegra hópa. Er ekki rétt að menn hinkri hér aðeins við?