c

Pistlar:

1. september 2025 kl. 15:23

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Atvinnustefna ríkisstjórnarinnar

Inni í samráðsgátt stjórnvalda er nú kynning á áformum forsætisráðuneytisins um atvinnustefnu til ársins 2035. Þar er því lýst hvernig stjórnvöld hyggjast vinna með atvinnulífinu að aukinni verðmætasköpun í jafnvægi við samfélag, umhverfi og innviði. Þessi áform styðjast við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar en þar kemur fram að markmiðum sínum muni ríkisstjórnin meðal annars ná með mótun atvinnustefnu sem stuðli að sjálfbærum vexti atvinnugreina, aukinni framleiðni og heilbrigðum vinnumarkaði.aaerlent

Í samráðsgáttinni kemur fram að tilgangur vinnu að atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar sé að móta stefnu, ásamt markmiðum og mælikvörðum, sem lýsir því hvernig stjórnvöld vilja vinna með atvinnulífinu og svarar því hvaðan hagvöxtur næstu ára skuli koma. Skilgreindar verða aðgerðir sem ríkisstjórnin telur að ráðast þurfi í til að vinna að markmiðum stefnunnar.

Er ríkisstjórnin trúverðug?

Nú má deila um hvernig stjórnvöldum gengur yfir höfuð að móta atvinnustefnu, sérstaklega þegar stundum virðist sem svo að þeim sé ekkert sérlega vel við þær atvinnugreinar sem nú þegar eru í landinu. Um leið hafa landsmenn oft farið illa út úr því að tilteknir stjórnmálamenn fái oftrú á tilteknum atvinnugreinum og atvinnusvæðum og leggi kapp á að styðja þau með skattfé. Hlutverk stjórnvalda ætti fyrst og fremst að vera að auðvelda framtakssömu fólki að stofna og reka fyrirtæki. Íslendingar hafa alltof oft farið illa út úr því að stjórnmálamenn fái oftrú á tilteknum atvinnugreinum og atvinnusvæðum og leggi kapp á að styðja þau með skattfé.

Þetta er svo sem ekki í fyrsta sinn sem stjórnvöld kalla eftir atvinnustefnu og vissulega getur verið ástæða til að velta fyrir sér stefnu hins opinbera, þá ekki síst til að meta hvaða afstöðu stjórnvöld hafa til atvinnulífsins í landinu. Fyrsta spurningin hlýtur þó að vera hvort það eigi yfir höfuð að vera atvinnustefna hjá ríkisvaldinu? Er skynsamlegt að ríkisvaldið sé að móta eða leggja línurnar fyrir atvinnulífið í landinu? Endar það ekki með ýktum áherslum á fáar tilteknar greinar sem síðar leiða af sér kollsteypu og gjaldþrot?

Atvinnustefna Jóhönnustjórnarinnar

Hér í pistli árið 2012 voru vangaveltur af svipuðum toga þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur reyndi að móta atvinnustefnu samhliða því að hún sagði fyrirtækjum landsins stríð á hendur og skipti þá litu hvort þau eru í iðnaði eða sjávarútvegi. Þá sem nú var sjávarútvegurinn í skotlínunni, merkilegt hvað stjórnmálamenn af vinstri kanti stjórnmálanna telja sjálfsagt að þyngja álögur á hann.

Á sama tíma vakti undrun hversu hirðulaus og skilningslaus þáverandi stjórnvöld voru gagnvart smáfyrirtækjum. Hátt í tvö hundruð breytingar á skattareglum fyrstu þrjú ár ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur ollu stjórnendum þeirra gríðarlegum erfiðleikum. Hækkun á tryggingagjaldi hafði til dæmis mest áhrif á ráðningar smáfyrirtækja. Sama má segja um ýmis önnur íþyngjandi ákvæði en samt fannst stjórnvöldum rétt að tala um atvinnustefnu.

Það vakti athygli árið 2012 þegar kom í ljós að 94% landsmanna töldu íslensk fyrirtæki skipta öllu eða miklu máli þegar kemur að því að skapa góð lífskjör á Íslandi. Þetta birtist í könnun sem Capacent Gallup vann fyrir Viðskiptaráð Íslands í aðdraganda Viðskiptaþings sem haldið var í febrúar það ár. Pistlaskrifara er ekki kunnugt um hvort ný könnun hafi verið gerð.

Mikilvægi smáfyrirtækja

Þó að fyrrnefnd könnun sýni að almenningur telji að fyrirtæki skipti öllu máli þegar kemur að lífskjörum þá eru sannarlega ólíkar áherslur. Rifja má upp að Margrét Thatcher (1925-2013), fyrrverandi forsætisráðherra Breta, var óþreytandi við að minna flokksmenn sína á að það eru smáfyrirtækin, með 5 til 10 starfsmenn, sem skapa flest störf í þjóðfélaginu. Mikilvægi þeirra er augljóst en einhverra hluta vegna eru það stórfyrirtækin sem fá mesta athygli, jafnt hjá þeim sem hafa trú á atvinnulífinu og hjá þeim sem augljóslega hafa það ekki.

Á þeim tíma kom hingað til lands breskur prófessor, Robert Wade, sem hélt fyrirlestur við Háskóla Íslands og birtist í sjónvarpsþættinum Silfri Egils þar sem hann mælti fyrir einhvers konar atvinnustefnu háskólasamfélagsins. Nokkuð sem af hógværð var kölluð „vitræn atvinnustefna“! Á þeim tíma voru menn mjög uppteknir af því að hér yrði að þróa nýjar atvinnugreinar í stað þeirra sem hefðu brugðist áður, svo sem fjármálageirans. Áðurnefndur prófessor taldi að háskólasamfélagið væri best til þess fallið að móta slíka atvinnustefnu. Hann taldi að markaðurinn væri svo ófullkominn að honum væri ekki treystandi og því yrðu háskólaprófessorar eins og hann að hugsa stefnuna! Það er til fólk sem allt þekkir en ekkert veit, var haft eftir heimsspekingnum Immanuel Kant í eina tíð.

Árangursríkasta atvinnustefnan er að gefa framtakssömu fólki tækifæri til að láta drauma sína rætast. Það eru gömul og ný sannindi.