c

Pistlar:

28. september 2025 kl. 17:41

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Glæpir í stað framfara í S-Afríku

Ríkisstjórn svartra tók við í Suður-Afríku í apríl 1994 að loknum fyrstu frjálsu kosningunum þar sem allir fullorðnir ríkisborgarar, óháð kynþætti, gátu kosið. Þetta markaði endalok aðskilnaðarstefnunnar (apartheid), sem hafði verið í gildi í yfir 40 ár og hindraði svarta í að njóta sömu réttinda og hvíta. Nelson Mandela, leiðtogi Afríska þjóðarráðsins (ANC), varð fyrstur svartra til að taka við embætti forseta Suður-Afríku eftir kosningarnar. Mandela var einstakur stjórnmálamaður eins og hefur verið fjallað um í pistlum hér en margir óttuðust hvað myndi taka við þegar hann félli frá.safrika3

Saga S-Afríku eftir endalok aðskilnaðarstefnunnar hefur ekki verið eins jákvæð og margir vonuðu og er fremur mörkuð ákveðinni hnignun. Margir upplifa vonbrigði yfir því hvernig þjóðfélagið hefur þróast, óháð litarhætti. Þrátt fyrir hátimbraða stefnumótun, sem birtist meðal annars í nýrri stjórnarskrá og réttindaskjölum, hefur suðurafríska samfélagið þróast í ranga átt á mörgum sviðum. Nú spyrja menn sig hvort samfélagið hafi verið svo þrúgað af innanmeinum að hvorki læknandi málflutningur Nelsons Mandela né afnám óréttlætis aðskilnaðarstefnunnar nái að breyta því. Forsenda fyrir því að samfélagið gæti tekist á við framtíðina var að efnahagur landsins batnaði en það er ríkt af náttúruauðlindum. Því miður er fátt við stjórn landsins nú sem bendir til þess en hér var fyrir stuttu fjallað um efnahagsþróuninaRafmagnsskortur er til að mynda viðvarandi. 

Yfirþyrmandi glæpatíðni

Ætluð hnignun samfélagsins birtist með margvíslegum hætti en fróðlegt er að skoða glæpatíðnina sem er orðin yfirþyrmandi. Glæpir í Suður-Afríku hafa almennt aukist í algildum tölum síðustu áratugi en þegar litið er á hlutfall morða (t.d. morð á 100.000 íbúa) er myndin flóknari. Morðhlutfallið fór niður fyrst eftir að aðskilnaðarstefnunni lauk eða frá 1994 til um 2011. Síðan hefur morðhlutfallið hækkað verulega og er nú hærra en árið 1994 og eitt það hæsta í heimi.

Heildarglæpatíðni, eins og rán og ofbeldi, hefur einnig aukist, sérstaklega frá 2010. Þetta er byggt á opinberum gögnum frá South African Police Service (SAPS), Alþjóðamaninn (World Bank) og öðrum áreiðanlegum heimildum. Ekki er langt síðan Alþjóðabankinn skilaði frá sér skýrslu um kostnaðinn vegna glæpa í S-Afríku.safrika2

Árið 1994 var hlutfall morða um 66 morð á hverja 100.000 íbúa. Lægst var hlutfallið 2011 eða um 30 á hverja 100.000 íbúa. Árin 2023/24 var það komið upp í 45 morð á á hverja 100.000 íbúa og hafði aukist um 25% frá 2018/19. Nýjustu tölur sýna að hlutfall morða var 75 á dag árið 2023, samanborið við 74 á dag árið 1994 en hafa verður í huga að íbúum landsins hefur fjölgað verulega.

Ofbeldisglæpir (rán, kynferðisofbeldi og morð) aukast áfram, með 27.494 morðum árið 2022/23 sem er hæsta talan síðan 1994. Þá hafa rán og mannrán tvöfaldast síðustu ár og borgir eins og Jóhannesarborg og Höfðaborg eru með einhverja hæstu morðtíðni í heimi.

Ójöfnuður og spilling

En hvað veldur þessu? Jú, þar er hægt að horfa til efnahagslegra þátta en í landinu er mikill ójöfnuður, fátækt og atvinnuleysi sem er yfir 30%. Á sinn hátt ýtir þetta undir glæpi. Einnig er mikil spilling og stjórnsýslan veik. Menn hafa greint mikla aukningu á þessu sviði síðan frá 2009 en þá tók Zuma-tímabilið við þar sem ólögleg vopn flæddu og skipulögðum glæpum fjölgaði. Jacob Zuma var forseti landsins frá 2009 til 2018 en hann var forystumaður í Afríska þjóðarráðinu (African National Congress (ANC). Zuma tók við forsetaembættinu árið 2009 eftir sigur ANC í þingkosningum, en hann hafði áður gegnt embætti varaforseta frá 1999 til 2005.safrika4

Helstu einkenni Zuma-tímabilsins voru miklar pólitískar deilur og aukin spilling. Hugtakið ríkisrán (state capture) varð áberandi, en það vísar til áhrifa valdamikilla einstaklinga og fyrirtækja sem nýttu sér ástandið. Zuma var sakaður um að misnota ríkisfé, til dæmis í tengslum við endurbyggingu á einkabúgarði sínum í Nkandla, sem kostaði skattgreiðendur háar fjárhæðir. Þetta leiddi til mikillar reiði meðal almennings og að lokum var hann dæmdur til að endurgreiða hluta kostnaðarins.

Réttindaskrár en mikill ójöfnuður

Mannréttindi í Suður-Afríku tóku miklum breytingum eftir að aðskilnaðarstefnunni lauk árið 1994 og blökkumenn, í gegnum ANC undir forystu Nelsons Mandela, fengu völdin. Ný stjórnarskrá Suður-Afríku var talin ein sú framsæknasta í heimi og átti að tryggja grundvallarréttindi eins og jafnræði, frelsi, rétt til menntunar, heilbrigðisþjónustu og húsnæðis. Hún bannar mismunun á grundvelli kynþáttar, kyns, kynhneigðar og annarra þátta. Með endalokum aðskilnaðarstefnunnar var kynþáttamismunun afnumin í lögum og blökkumenn og aðrir minnihlutahópar fengu kosningarétt og tækifæri til þátttöku í stjórnmálum og samfélaginu. Stofnanir eins og Mannréttindanefnd Suður-Afríku (SAHRC) voru settar á laggirnar til að fylgjast með og vernda mannréttindi.safrik3

En þrátt fyrir jöfnuð að lögum er Suður-Afríka enn eitt ójafnasta samfélag heims. Fátækt og atvinnuleysi bitnar oft harðast á blökkumönnum sem eiga erfitt með að brúa bilið sem aðskilnaðarstefnan skildi eftir. Þótt kynþáttamismunun sé ólögleg er enn spenna milli kynþátta og dæmi um kynþáttafordóma í samfélaginu.