Sjónvarpsmaðurinn Bill Maher er þekktur fyrir hvassa og oft umdeilda gagnrýni á trúarbrögð, stjórnmál og menningu. Það vakti því mikla athygli þegar hann notaði spjallþáttinn sinn, Real Time with Bill Maher, á HBO föstudaginn 26. september til að varpa ljósi á viðvarandi ofbeldi gegn kristnum mönnum í Nígeríu.
Bill Maher sagði í þætti sínum: „Ég er ekki kristinn en þeir eru kerfisbundið að drepa kristna í Nígeríu. Þeir hafa drepið yfir 100.000 síðan 2009. Þetta er miklu meiri tilraun til þjóðarmorðs en það sem er að gerast á Gaza. Þeir eru bókstaflega að reyna að útrýma kristnum íbúum.“ Hann benti á að búið væri að brenna 18.000 kirkjur í Nígeríu af hálfu íslamistanna í hryðjuverkasamtökunum Boko Haram.
Morðæði gegn kristnum
Orð Maher varpa ljósi á það sem mörgum virðist hafa yfirsést þó að á þessu hafi verið vakin athygli áður hér í pistli. Veruleikinn er sá að ofsóknir á hendur kristnu fólki er útbreitt og viðvarandi vandamál í Nígeríu. Jafnvel þeir sem standa utan kirkjunnar eru farnir að taka eftir því. Maher segist ekki vera kristinn en hann tók þó eftir því sem mörgum á Vesturlöndum virðist hafa yfirsést, nefnilega að kristnir í Nígeríu eru undir árás.
Nígería var enn á meðal hættulegustu staða jarðar fyrir kristna samkvæmt heimslista Open Doors árið 2025 yfir þau lönd þar sem erfiðast er að vera kristinn. Af þeim 4.476 kristnu mönnum sem voru drepnir fyrir trú sína um allan heim á skýrslutímabilinu voru 3.100 (69 prósent) í Nígeríu. „Ofbeldi gegn kristnum í landinu er þegar komið á hæsta stig samkvæmt aðferðafræði heimslistans,“ sagði í skýrslu Open Doors World Watch List (WWL).
Í raun má segja að ástandið verði stöðugt alvarlegra í Nígeríu. Á norður-miðsvæði landsins, þar sem kristnir menn eru fjölmennari, en á norðaustur- og norðvesturhluta landsins, ráðast íslamskar öfgasveitir, svo sem Fulani-hersveitin á bændasamfélögin og drepa mörg hundruð manns. Oftast beinist morðæði þeirra gegn kristnum, segir í skýrslunni.
Mannrán og kynferðisofbeldi
Hryðjuverkasamtök á borð við Boko Haram og klofningshópinn Íslamska ríkið í Vestur-Afríkuhéraði (ISWAP) eru einnig virk í norðurhluta landsins, þar sem stjórn Nígeríu á erfitt með að hafa stjórn á hlutunum. Augljóslega eru kristnir menn og samfélög þeirra enn skotmörk árása, kynferðisofbeldis og morða við vegtálmanir, samkvæmt skýrslunni. Þá hafa mannrán gegn lausnargjaldi aukist verulega á undanförnum árum.
Ofbeldið hefur breiðst út til suðurríkja Nígeríu og ný hryðjuverkasamtök, Lakurawa, hafa komið fram í norðvesturhluta landsins, vopnaðir háþróuðum vopnum og róttækri íslamskri stefnu, að sögn WWL. Lakurawa tengist útþensluhreyfingunni al-Kaída, Jama'a Nusrat ul-Islam wa al-Muslimin, eða JNIM, sem á uppruna sinn í Malí.
Fimm af hverjum sjö kristnum sem eru drepnir eru börn. Fulani-hersveitir réðust á þorp í Kaduna-ríki í Nígeríu þann 24. ágúst síðastliðinn og drápu sjö manns, þar á meðal eins árs gamalt ungabarn. Kristnir leiðtogar í Nígeríu hafa sagt að þeir telji að árásir Fulani-hersveita, sem eru oft skipaðar fjárhirðum, á kristin samfélög í miðbeltinu í Nígeríu séu reknar áfram af löngun þeirra til að ná yfirráðum yfir löndum kristinna manna og innleiða íslam. Meðal annars vegna þess að eyðimerkurmyndun hefur gert þeim erfitt fyrir að tryggja afkomu hjarða sinna.